Ásdís Kristjánsdóttir
Ásdís Kristjánsdóttir
Gerðardómur hefur úrskurðað að riftun Kópavogsbæjar á samningi við verktakafyrirtækið Rizzani de Eccher um byggingu Kársnesskóla hafi verið lögmæt og hefur fyrirtækinu verið gert að greiða rúmar 44 milljónir í málskostnað

Óskar Bergsson

oskar@mbl.is

Gerðardómur hefur úrskurðað að riftun Kópavogsbæjar á samningi við verktakafyrirtækið Rizzani de Eccher um byggingu Kársnesskóla hafi verið lögmæt og hefur fyrirtækinu verið gert að greiða rúmar 44 milljónir í málskostnað.

Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri segir niðurstöðuna skýra og það endurspeglist í niðurstöðu dómsins hversu alvarlegar vanefndirnar hafi verið.

„Þetta úrræði sem við þurftum því miður að beita var neyðarúrræði og dómurinn staðfestir að þetta var rétt ákvörðun. Það kemur skýrt fram í dómnum að Kópavogsbær hafi ítrekað reynt að ná úrbótum með verktakanum áður en til riftunar kom. Þetta er gríðarlega stór og mikilvægur áfangi fyrir bæinn og næsta skref hjá okkur er að sækja fullar bætur gagnvart verktakanum.“

Hún segir að þetta hafi verið neyðarúrræði sem hafi þurft að beita til þess að tryggja skólabyggingu sem uppfyllti gæðakröfur bæjarins og að skólahald gæti hafist sem fyrst.

Í dag er Kópavogsbær aðalverktakinnn við byggingu skólans og eru undirverktakar að störfum við bygginguna.

Ástand húss verra en talið var

Spurð hvenær kennsla hefjist í skólanum segir Ásdís að stefnt hafi verið að því að opna skólann um áramót en nú liggi fyrir að það verði ekki fyrr en næsta haust. Kennslan í dag fari fram í lausum kennslustofum.

„Eftir að samningnum var rift við verktakann hefur tíminn verið nýttur til að greina ástand hússins og í þeirri skoðun kom meðal annars fram að ástandið var mun verra en við áttum von á,“ segir Ásdís

Ágreiningur í bæjarstjórn

Ekki var full samstaða í bæjarstjórn Kópavogs um riftunina en hún var samþykkt með átta atkvæðum Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og Vina Kópavogs. Tveir fulltrúar Pírata og Samfylkingar sátu hjá en fulltrúi Viðreisnar hafnaði tillögunni.

Theodóra S. Þorsteinsdóttir bæjarfulltrúi Viðreisnar lagði fram bókun í bæjarráði þess efnis að þótt mat dómsins hafi staðfest lögmæti riftunarinnar væri ljóst að grípa hefði mátt fyrr inn í til að leysa úr ágreiningi og koma í veg fyrir að tjónið yrði eins alvarlegt og raunin varð.

Bæjarfulltrúar meirihlutans bókuðu að niðurstaða gerðardóms hefði leitt í ljós að öll ákvæði samnings til að leysa úr ágreiningi hefðu verið fullreynd og því væri það eina rétta að rifta samningi á þeim tímapunkti sem það var gert.

Gerðardómur var skipaður þeim Þorgeiri Örlygssyni fyrrverandi hæstaréttardómara, Kolbeini Kolbeinssyni verkfræðingi og Ríkharði Kristjánssyni verkfræðingi.