Eyjólfur Skúlason fæddist á Snotrunesi í Borgarfirði eystra 28. desember 1956. Hann lést á Hjúkrunarheimilinu Dyngju á Egilsstöðum 26. ágúst 2024 eftir erfið veikindi.

Foreldrar hans voru Kristín Sigurlaug Eyjólfsdóttir, f. 3. október 1934, d. 2. janúar 2022, og Skúli Andrésson, f. 26. maí 1928, d. 19. júní 2020, sem í fyrstu bjuggu á Snotrunesi en síðar á nýbýlinu Framnesi, þar sem Eyjólfur ólst upp frá þriggja ára aldri. Hann var þriðji í aldursröð sjö systkina, hin eru: Sigrún, Björn, Valgeir, Anna Bryndís, Andrés og Emil, og eru þau öll á lífi.

Eftirlifandi eiginkona Eyjólfs er Sigrún Bjarnadóttir fv. bankastarfsmaður, f. 18. maí 1956. Foreldrar hennar voru Jónína Stefanía Sigurbjörnsdóttir og Bjarni G. Bjarnason, sem bæði eru látin.

Sigrún og Eyjólfur giftust þann 24. maí 1988. Börn þeirra eru: 1) Kristín Rut ráðgjafi, f. 20. janúar 1980. Maki hennar er Júlíus Brynjarsson verkfræðingur, f. 26. apríl 1976. Börn þeirra eru Brynja Líf, Eyjólfur Mar og Viktoría Lea. 2) Stefán Þór lögmaður, f. 18. maí 1984. Börn hans eru Snævarr og Ylva. Sonur Sigrúnar er Róbert Elvar Sigurðsson bakari. Kona hans er Erna Þórey Guttormsdóttir verslunarstjóri. Þeirra börn eru Eiður Örn, sem á þrjú börn, og Elín Björg, sem á tvö börn.

Eyjólfur ólst upp við hefðbundin sveitastörf á Framnesi þar sem foreldrar hans ráku sauðfjárbú. Hann stundaði nám við Eiðaskóla og vann síðan næstu árin ýmis störf til sjós og lands, m.a. við hafnar- og brúargerð, sjómennsku og fiskvinnslu. Lengst af sinni starfsævi, eða í 40 ár, vann hann hjá Mjólkursamsölunni á Egilsstöðum, þar sem hann hafði umsjón með og annaðist vélakost fyrirtækisins. Einnig sinnti hann félagsstörfum í þágu stéttar- og íþróttafélaga.

Eyjólfur hafði ríka frásagnar- og sköpunargáfu sem kom fram í margs konar viðfangsefnum, bæði á sviði ljóðagerðar og ýmissa ritsmíða, handverks og myndlistar, þar sem hann vann í tré, málma og náttúrustein. Hann tók tvívegis þátt í samsýningum listamanna. Eftir hann liggur fjöldi verka, listilega unnin. Hann var fróðleiksfús, bókhneigður og víðlesinn, einkum um sagnfræðileg efni og margt það sem viðkom sögu forfeðra og heimabyggðar hans.

Útför Eyjólfs fer fram í kyrrþey frá Bakkagerðiskirkju. Jarðsett verður í Egilsstaðakirkjugarði.

Elsku pabbi minn.

Þegar ég var barn leit ég upp til þín af stolti og aðdáun með glampa í augum. Mér fannst þú besti og flottasti pabbi í heimi. Hugrakkur, sterkur, fallegur og fjölhæfur.

Þú gerðir listaverk úr tré, málmum og steinum. Samdir texta og ortir ljóð. Þú gekkst til fjalla og veiddir rjúpur. Þú settir saman vélar og tæki, smíðaðir og lagfærðir. Þú varst fróður, víðlesinn og með mikla frásagnargáfu. Þínir eiginleikar; hugvit, hugmyndaauðgi og sköpunarkraftur, fléttuðust saman og virtist ekkert verkefni vera þér ofvaxið. Þú settir sál þína í öll verk og treystir sannfæringu þinni. Þú varst alltaf til staðar fyrir mig, Snævar og Ylvu og alla fjölskyldu þína og settir hana í forgang. Þakka þér fyrir allt.

Hér er þín hugvekja, þín hinsta kveðja til afa sem þú fluttir við kistu hans á fæðingarstað ykkar beggja, Snotrunesi, Borgarfirði eystra, daginn áður en hann var borinn til grafar:

„Við höfum farið langan veg í annríki daganna, nú húmar að kveldi, sólin er horfin undir fjallið og við búumst til ferðar. Og þegar lokahljómur lífsklukkunnar deyr út göngum við léttir í spori eftir götunni förnu, sem liggur um grænt engið, fuglasöngurinn ómar allt um kring í þessu fagra morgunlandi og gatan leiðir okkur að bökkum fljótsins mikla, þar sem ferjumaðurinn bíður þess að ferja okkur yfir á bakkann handan fljótsins, að ströndum sálarlandsins. Við laugum okkur í fljótinu, áður en við stígum um borð hjá ferjumanninum og líftími okkar verður eftir í fljótinu, þessari miklu móður alls sem er, og tími okkar mun samsamast fljótinu og lengja tilveru þess. Og þannig vakir fljótið með opinn faðminn og tekur til sín líftíma allra er koma að bökkum þess og varðveitir þannig sína eigin eilífð. Og lindir fljótsins teygja anga sína um allar veraldir og vökva lífsblómann í hverju einu sem er. Vitund þess vakir í öllu lífi og allt líf rennur að lokum í faðm þess. Og við stígum upp í ferjuna, á bakkanum, handan fljótsins, bíða vinir og frændur, þeir fagna komu okkar og leiða okkur inn í sálarlandið, hið mikla djúp, hins alltumlykjandi friðar.“

Það er sárt og erfitt að þurfa að kveðja þig pabbi minn. Þú varst fyrirmynd og klettur í lífi mínu. En minning þín mun ávallt lifa innra með mér og vera mér styrkur og hvatning til góðra verka.

Nú munu afi og amma, ættingjar og vinir taka á móti þér og leiða þig inn í sálarlandið, hið mikla djúp hins alltumlykjandi friðar.

Hvíl í friði.

Þinn sonur,

Stefán Þór.

Deyr fé,

deyja frændur,

deyr sjálfur ið sama;

en orðstír

deyr aldregi,

hveim er sér góðan getur.

(Úr Hávamálum)

Lífskúnstnerinn, frændi minn elskulegur, er allur, hetjulegri baráttu lokið, baráttu sem einkenndist af þrautseigju og þrjósku fornmanna (útbæjarþrjóskan).

Eyjólfur var maður ekki einhamur. Listamaður, hagur bæði á tré og járn, vísnaskáld og sögumaður – grúskari. Alla tíð tryggur fjölskyldu og vinum.

Mikið sem ég á eftir að sakna samveru þinnar, fróðleiks þíns og grúsks um ættir okkar, húmorsins um lífshlaup okkar og tilveru.

Orð Gyrðis frænda okkar koma í hugann þegar ég minnist þeirra stunda:

Skófatnaður

„Í framtíðinni,“ sagði hann,

„verða tímaferðalög sennilega

jafn vinsæl og ferðalög um öll

skóna hans af tilviljun, þeir voru

alveg greinilega frá því kringum

1930“

Margs að minnast, en … orð trufla.

Deyr fé,

deyja frændur,

deyr sjálfur ið sama.

Eg veit einn

að aldrei deyr:

dómur um dauðan hvern.

(Úr Hávamálum)

Kveð þig með söknuði kæri.

Andrés Sigurvinsson.

Við minnumst með hlýhug og þakklæti Eyjólfs Skúlasonar. Hann var þetta krydd í tilverunni sem gefur lífinu lit, einstakur lífskúnstner sem fór sínar eigin leiðir og var ætíð að gefa af sér til okkar samferðafólksins. Eyjólfur var góður maður og réttsýnn, hann var listrænn hugsuður með heilbrigðar skoðanir á mönnum og málefnum. Það var unun að hlusta á Eyjólf kynna verkin sín, eða segja sögur, en hann samdi einnig ljóð og skóp skúlptúra úr rekaviði og grjóti. Hann var frjór í hugsun og verki og við sjáum hann fyrir okkur með glampa í augum, brosandi þar sem hann lifði sig fullkomlega inn í þá einlægu gleði sem fylgdi frásöginni.

Þau Síla og Eyjólfur voru samhent hjón og tóku veikindum hans með aðdáunarverðum hetjuskap og gerðu það allra besta úr stöðunni.

Við vottum ástvinum öllum okkar innilegustu samúð; stórt skarð hefur myndast í fjölskyldunni. Almáttugur Guð styrki ykkur í sorginni.

Ingunn og Sigurður.

hinsta kveðja

Ég finn hve sárt ég sakna,

hve sorgin hjartað sker.

Af sætum svefni að vakna

en sjá þig ekki hér.

Því svipur þinn á sveimi

í svefni birtist mér.

Í drauma dularheimi

ég dvaldi í nótt hjá þér.

(Káinn)

Þú ert ekki hér núna, elsku bróðir, en þú verður alltaf með mér.

Hvíldu í friði elsku Eyjólfur.

Þinn bróðir,

Valgeir.