Lay Low Hún er meðal margra tónlistarmanna sem koma fram á hátíðinni.
Lay Low Hún er meðal margra tónlistarmanna sem koma fram á hátíðinni.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Úr menningu er hægt að fá bæði andlega næringu og auðæfi, einnig er allt sem tengist mat sannarlega menning,“ segir Pétur Már Guðmundsson þegar hann er spurður að því hvers vegna menningarhátíðin Haustgildi, sem haldin verður á Stokkseyri nú…

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

Úr menningu er hægt að fá bæði andlega næringu og auðæfi, einnig er allt sem tengist mat sannarlega menning,“ segir Pétur Már Guðmundsson þegar hann er spurður að því hvers vegna menningarhátíðin Haustgildi, sem haldin verður á Stokkseyri nú um helgina, hafi undirtitilinn: menning er matarkista.

„Haustgildi er uppskeruhátíð í víðri merkingu sem fagnar hausti og uppskeru með það að markmiði að tvinna saman menningarviðburði og markaði í fjölskylduvæna upplifun við ströndina. Við fengum þessa hugmynd upphaflega, hópur fólks sem þá var nýkominn inn á Stokkseyri, eftir að við fluttum hingað inn á Brimrót, þar sem er aðstaða fyrir listafólk. Hér á Stokkseyri er mikil listræn starfsemi, nokkur galleri og ýmislegt fleira, mikil gróska, ræktun og framleiðsla. Okkur fannst gaman að búa til einhvers konar markað úr þessu öllu. Við fórum fyrst af stað með Haustgildi árið 2020 þegar smá hlé gafst í heimsfaraldri og höfum haldið gildi hvert haust síðan. Þetta hefur alltaf verið meiri háttar gaman,“ segir Pétur Már sem er hluti af Bókabæjunum austanfjalls, enda rekur hann bóksölufyrirtæki á Stokkseyri, Sigvaldi-Books, sem selur íslenskar bækur erlendis.

„Bókabæirnir austanfjalls hafa því verið í samvinnu með okkur og tekið þátt í að bjóða rithöfundum að koma á Haustgildi og lesa upp. Núna fagna Bókabæirnir 10 ára afmæli og fyrir vikið verður þáttur bóka veglegri en áður og frábærir rithöfundar koma og lesa upp. Þetta eru fantasíuhöfundarnir Gunnar Theódór Eggertsson, Emil Hjörvar Petersen og Hildur Knútsdóttir, en hún ætlar líka að bjóða 10 til 16 ára krökkum upp á Skuggalega ritsmiðju á Draugabarnum. Einnig lesa úr verkum sínum Bjarni Snæbjörnsson, Ingileif Friðriksdóttir, Jónína Leósdóttir, Ragnheiður Gestsdóttir, Ragnhildur Þrastardóttir og Guðrún Jónína Magnúsdóttir. Við ætlum að flagga erlendum heiðursgesti og upplesara, Shaun Bythell, sem er bæði rithöfundur og rekur stærstu fornbókabúðina í heimabæ sínum, Wigtown í Skotlandi. Shaun er metsöluhöfundur og tvær bóka hans hafa komið út í íslenskri þýðingu og sú þriðja á leiðinni til landsins. Bækur hans eru í dagbókaformi og fjalla um líf og tilveru bóksalans, hans sjálfs. Þær heita í íslenskri þýðingu, Dagbók bóksala og Játningar bóksala og sú þriðja heitir Óseldar bækur bóksala. Bókabæirnir austanfjalls fóru á sínum tíma út og heimsóttu Shaun í Skotlandi og búðina hans.“

Spilað og spunnið

Pétur Már segir einvalalið tónlistarfólks ætla að koma fram á tónleikum á Haustgildi.

„Í dag laugardag spilar í Orgelsmiðjunni Freysteinn Gíslason kontrabassaleikari með bandinu sínu, sem er kvartett. Að því loknu taka við tilraunaeldhúsgrallararnir, þau Kira Kira, eða Kristín Björk Kristjánsdóttir, sem nú býr á Stokkseyri og Hilmar Jensson, en þau ætla að spila og spinna saman tónlist af nýju plötu Kristínar, Unaðsdal. Í Stokkseyrarkirkju verða tónleikar sem Eyjólfur Eyjólfsson söngvari og langspilsspilari leiðir, en hann býr hér á Stokkseyri og ætlar að koma fram með kór Íslendinga sem hann kynntist á námsárum sínum í Hollandi. Lagaval þeirra verður með sérstakri áherslu á Stokkseyringana Ísólf Pálsson og son hans Pál Ísólfsson. Sjálf Lay Low verður svo með tónleika í kvöld í Stokkseyrarkirkju. Á morgun á sunnudeginum verður Sverrir Norland með tónleika, en fleiri kannast kannski við hann sem rithöfund og bókaútgefanda. Ingibjörg Elsa Turchi og Hróðmar Sigurðsson ætla að spila á Brimróti, sem verða þá slútt-tónleikar Haustgildis.“

Brakandi ferskt grænmeti

Pétur Már segir margt áhugavert verða á markaði Haustgildis.

„Þar verður meðal annars grænmeti frá Sólheimum, kartöflur frá Búð tvö í Þykkvabæ og gulrófur frá Arabæ. Við ætlum að selja pylsur og salami frá Ítalanum Tariello, en hann er með sína matargerð í Þykkvabæ. Pólsk hjón sem búa til skartgripi koma með sínar vörur á markaðinn og einnig íslenska hjón sem framleiða skart. Hún Husseina ætlar að selja blóm og skreytingar og Vínkeldan ætlar að bjóða upp á rabarbarafreyðivín og sídera. Kvenfélag Stokkseyrar býður upp á ýmislegt og fleira og fleira. Einnig taka þátt í Haustgildi Gallerí Gussi, Gallerí Svartiklettur, Gallerí Gimli og Heba keramik.“

Bókin á heilmikið inni

Bjarni Harðarson, bókaútgefandi og bóksali á Selfossi og einn af stofnendum Bókabæjanna austanfjalls, ætlar að segja frá Bókabæjunum og sögunni þar að baki, í dag laugardag í Gallerí Svartakletti.

„Bókabæir austanfjalls er átaksverkefni til að efla hverskyns rekstur sem tengist bókum, hvort sem það eru bókabúðir, bókaútgáfur eða önnur bóktengd fyrirtæki og stofnanir á Suðurlandi. Má þar nefna Konubókastofu, bókasafnið í Skálholti og Eiríkssafn á Selfossi. Við höfum heilmikið vígi að verja og mikið að sækja, með því að halda uppi merki bókarinnar, ekki síst er þörf á því núna. Bókabæirnir austanfjalls er opið félag sem hefur haldið fundi og samkomur í gegnum tíðina. Við höfum beitt okkur fyrir samskiptum ólíkra þjóðarbrota, með fjölmála ljóðakvöldum, haldið ráðstefnur og málþing um bækur og annað þeim tengt. Bókin á heilmikið inni, því þótt hafi kreppt að henni þá fundum við bókaútgefundur og bóksalar aðeins bjartari tíma í sumar, salan hefur verið góð í sumar á íslenskum bókum. Ég ætla því að leyfa mér að vera bjartsýnn.“

Nánar um dagskrá
Haustgildis: haustgildi.is.

Höf.: Kristín Heiða Kristinsdóttir