Fjölskyldan í Danmörku Kristín, Steffan og fjölskylda þeirra.
Fjölskyldan í Danmörku Kristín, Steffan og fjölskylda þeirra.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Svanhildur Anna Kaaber er fædd 7. september 1944 í Reykjavík. „Þá var borgin eiginlega að verða til eftir lok stríðsins. Mikill húsnæðisskortur var og pabbi minn byggði eitt af fyrstu sænsku timburhúsunum sem flutt voru inn eftir stríðið og komið fyrir í gamla Vogahverfinu

Svanhildur Anna Kaaber er fædd 7. september 1944 í Reykjavík.

„Þá var borgin eiginlega að verða til eftir lok stríðsins. Mikill húsnæðisskortur var og pabbi minn byggði eitt af fyrstu sænsku timburhúsunum sem flutt voru inn eftir stríðið og komið fyrir í gamla Vogahverfinu. Segja má að þar hafi verið útjaðar og ystu mörk Reykjavíkur. Byggðin var á bökkum og í fjörum Elliðaárvogs löngu áður en allar þær uppfyllingar við þekkjum í dag voru byggðar. Þá var heldur engin byggð þar sem nú er Árbæjarhverfið, Breiðholt eða Grafarvogur. Leiksvæði okkar krakkanna í Vogunum var gjarna þarna í fjörunum og í stóru porti þar sem geymd voru steypurör sem nota átti í skolplagnir fyrir hina vaxandi borg.“

Fyrsta skólaárið, þegar Svanhildur var sex ára gömul, var hún í Laugarnesskóla, þá var Langholtsskóli í byggingu en þar hófst svo skólagangan í sjö ára bekk. „Þar kynntist ég mörgum mínum góðu vinkonum en við höfum fylgst að allt til þessa dags. Það er mikil gæfa að eiga svo trausta vini. Við fórum í Kvennaskólann í Reykjavík, sem þá var allur annar en nú er.

Skipulag skólastarfs þar á þeim árum hafði það að markmiði að útskrifa góðar skrifstofustúlkur og húsmæður sem kunnu að bródera og búa til mat. Þótt ég hafi núna ánægju af alls kyns hannyrðum og matargerð verð ég að játa að ég var afskaplega lítið áhugasöm um slíkt á Kvennaskólaárunum. Ég tók gagnfræðapróf úr Kvennaskólanum og fór þaðan beint í Kennaraskóla Íslands, tók kennarapróf vorið 1965.“

Fyrsta starfsár Svanhildar sem kennari var í Langholtsskóla en svo flutti fjölskyldan til Lúxemborgar, þar sem þau bjuggu í þrjú ár. Hún fór svo aftur að kenna eftir að hún flutti heim, þá í Fossvogsskóla í Reykjavík. „Skólinn var þá tilraunaskóli, kennsluhættir voru óhefðbundnir og þar starfaði hópur frábærra, áhugasamara kennara.

Ég tók mikinn þátt í stéttabaráttu og félagsstarfi kennara á þessum árum og var formaður Kennarasambands Íslands um árabil. Það var á þeim árum sem gamli Kennaraskólinn við Laufásveg var gerður upp og fyrsta skólastefna grunnskólakennara var sett fram. Þegar þeim kafla lífsins lauk hóf ég störf sem ritari rektors í Kennaraháskóla Íslands, þó með nokkurra ára hléi því ég tók virkan þátt í stofnun VG og var varaformaður og framkvæmdastjóri flokksins fyrstu ár hans.

Þótt dagarnir séu ekki lengur eins annasamir og áður var finn ég mér nóg af verkefnum og læt mér ekki leiðast! Við Þórður eigum sumarbústað á sögufrægum stað í Fljótshlíð þar sem dásamlegt er að dvelja hvort sem er að sumri eða vetri, ég á dýrmætt samband við dæturnar mínar og fjölskyldur þeirra þótt við búum ekki í sama landi og ég rækta af fremsta megni fjölbreyttan hóp vina og kunningja, ekki síst frá fyrri árum.“

Fjölskylda

Eiginmaður Svanhildar er Þórður Helgason, f. 5.10. 1947, fv. dósent við menntavísindasvið Háskóla Íslands. Þau búa í Háaleitishverfinu. Foreldrar Þórðar voru Borghildur Þórðardóttir húsfreyja, f. 21.9. 1926, d. 18.3. 2017, og Helgi Guðjónsson verkstjóri, f. 24.2. 1917, d. 13.6. 1998.

Svanhildur á tvær dætur með fyrri manni sínum, Gunnari Arthurssyni f. 30.10. 1939. fv. flugstjóra.

Sú eldri er Kristín Brynja Gunnarsdóttir, f. 4.7. 1966. Hún er arkitekt og prjónahönnuður og býr í Danmörku. Maður hennar er Steffan Iwersen, f. 12.10. 1967, arkitekt. Kristín á tvær dætur og einn son. Eldri dóttir hennar er Edda, f. 7.9. 1994. Faðir Eddu er Ólafur Einarsson byggingartæknifræðingur, f. 7.12. 1964. Edda á soninn Ólaf Krumma, f. 10.11. 2015. Börn Steffans og Kristínar eru Saga, f. 17.3. 2000, og Steinn, f. 10.10. 2008.

Yngri dóttir Svanhildar er Katrín Ásta Gunnarsdóttir, f. 6.4. 1972. Hún er tölfræðingur og starfar við gagnagreiningu og rannsóknir varðandi krabbamein. Katrín býr í Svíþjóð. Hún og maður hennar, Árni Halldórsson prófessor, f. 28.10. 1970, eiga þrjá syni, þá Egil Tuma, f. 16.8. 1996, Halldór Skúla, f. 20.6. 1999, og Gunnar Bessa, f. 2.5. 2003.

Bróðir Svanhildar er Lúðvík Emil Kaaber, f. 25.3. 1947, lögfræðingur og skjalaþýðandi og býr á Vestfjörðum.

Foreldrar Svanhildar voru Axel Jóhannes Kaaber, f. 24.6. 1909, d. 16.1. 1999, framkvæmdastjóri Sjóvátryggingafélags Íslands og skjalaþýðandi, og Kristín Sigríður Ólafsdóttir Kaaber, f. 12.10. 1922, d. 16.10. 2012, framhaldsskólakennari.