Páll Jónasson í Hlíð var sem endranær með vísnagátuna á laugardaginn var: Í skóinn niður skjótt það fer. Skakkt á minni smíði. Nafn á brauði einnig er, oft á kindum prýði. Harpa í Hjarðarfelli rataði beint á lausnina: Skóhornið í skóinn fer

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is

Páll Jónasson í Hlíð var sem endranær með vísnagátuna á laugardaginn var:

Í skóinn niður skjótt það fer.

Skakkt á minni smíði.

Nafn á brauði einnig er,

oft á kindum prýði.

Harpa í Hjarðarfelli rataði beint á lausnina:

Skóhornið í skóinn fer.

Skakkt er horn á smíði.

Kúmenhorn ég held sé hér.

Horn er kinda prýði.

Þá Úlfar Guðmundsson:

Skóhorn gerir lífið létt.

Lipur hornrétt smíði.

Börn af horni morguns mett.

Máttug hrútshorn prýði.

Guðrún Bjarnadóttir lætur ekki sitt eftir liggja:

Skóhornið er skrambi gott.

Skakkt horn? Það ég rengi!

En skinkuhorn er frekar flott

og fín hyrnd kind á engi.

Bergur Torfason slæst í hópinn:

Skóhorn fylgir fæti í skó,

Finnast skökku hornin nóg,

Horn úr brauði hefi ég þó,

Hyrnd var ærin Surtla er fló.

Loks Helgi Einarsson:

Skóhorn alloft munda menn.

Meinhorn finnast víða.

Bökuð horn við etum enn.

Ærnar hornin prýða.

Helgi lætur aðra vísu um misskilning fljóta með, upp á grin.

Í flestan sjóinn fær

mér fannst ég vera í gær,

sjálfumglaður

gáfumaður,

nei, gamall, elliær.

Lausnarorðið var sem sagt horn. Páll svarar sjálfur:

Hornskökk smíð mín alltaf er,

oní stígvél skóhorn fer.

Algengt brauð sem heitir horn,

horn þau prýða bústofn vorn.

Þá er það vísnagáta Páls fyrir næstu viku:

Þrjótur mig í þátíð sló,

þetta fjall rís brátt úr sjó,

undir bílinn settur sá,

sérnafn líka manni á.

Að síðustu limra eftir Jóhann S. Hannesson:

Það er bannað í Buenos Aires

að börn séu að leita sér færis

að sjá það í bókum

hvað sé undir brókum

á samskeytum kviðar og læris.