— Morgunblaðið/Þorgeir Baldursson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Áform Kleifa fiskeldis voru kynnt á fjölsóttum fundi sem fyrirtækið boðaði til á Ólafsfirði í gær. Þar fór Róbert Guðfinnsson, einn eigenda Kleifa, yfir áform fyrirtækisins sem stefnir að eldi á allt að 20 þúsund tonnum af ófrjóum laxi

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Áform Kleifa fiskeldis voru kynnt á fjölsóttum fundi sem fyrirtækið boðaði til á Ólafsfirði í gær. Þar fór Róbert Guðfinnsson, einn eigenda Kleifa, yfir áform fyrirtækisins sem stefnir að eldi á allt að 20 þúsund tonnum af ófrjóum laxi. Eins og fram hefur komið í Morgunblaðinu eru áformin þríþætt; seiðaeldi á Siglufirði, landeldi í höfninni á Ólafsfirði og kvíaeldi í fjörðum á Tröllaskaga.

Róbert sagði að mjög hröð þróun hefði verið í laxeldi á undanförnum árum. Frá árinu 2000 hefði heimsframleiðslan aukist úr 890 þúsund tonnum í um þrjár milljónir tonna. Á Íslandi skilaði laxeldi nú um 50 þúsund tonnum. Þróunin í greininni væri mjög hröð. Í Noregi væru nýttir flestir firðir og flóar til laxeldis og nú litu menn þar á land upp, þ.e. til landeldis, og nýttu sjó sem streymt væri hreinsuðum í gegnum kvíar á landi. Í undirbúningi væri 80 þúsund tonna landeldi í Lofoten sem byggði á slíkri tækni. Það væri þessi tækni sem Kleifar fiskeldi horfði til í fiskeldisáformum sínum í höfninni á Ólafsfirði.

Ófrjór lax í eldi

„Umræðan um laxeldi hefur einkennst af slysasleppingum á frjóum laxi úr eldiskvíum sem skapar hættu á erfðamengun sem og umhverfissóðaskap af eldinu,“ sagði Róbert og benti á að slíku væri ekki til að dreifa þegar um ófrjóan fisk væri að ræða.

„Gangi áætlanir vísindamanna eftir, lítur út fyrir að fram sé að koma tvílitna lax sem er ófrjór og getur þ.a.l. ekki tímgast með villtum laxi. Menn geta spurt af hverju við séum að halda borgarafund um málefni sem er svona skammt á veg komið. Þegar við hófum uppbyggingu í ferðaþjónustu á Siglufirði gerðum við það sama, sýndum fólki hver staðan væri og hvað við ætluðum að gera og loks sýndum við hvað við gerðum. Hið sama erum við að gera á þessum fundi,“ sagði Róbert.

Róbert sagðist hafa verið þátttakandi í íslenskum sjávarútvegi frá upphafi kvótakerfisins og tekið þátt í þeirri miklu hagræðingu sem gripið var til í greininni í kjölfar þess að frjálst framsal aflaheimilda var heimilað, í þeirri von að þorskstofninn myndi vaxa og flotinn stækka á ný.

Á þessum árum hefðu veiðarfæri þróast og batnað sem og tækni til fiskileitar, fiskiskipin orðið öflugri og færri skip hefði þurft til að sækja takmarkaðan afla.

„Svona keyrðum við þetta áfram til að auka hagræðið, alltaf í þeirri von að þorskstofninn myndi stækka á ný. Afleiðingin varð fyrst og fremst sú að krónan styrktist og meiri stöðugleiki skapaðist í þjóðfélaginu. Afraksturinn af þessu varð aftur á móti sá að hann lenti í meira mæli annars staðar en í hinum dreifðu byggðum. Að lokum var svo komið að enginn togari var gerður út frá Ólafsfirði,“ sagði Róbert og bætti við að þar hefðu áður verið þrír til fjórir togarar.

Allt veitt af einum frystitogara

Róbert nefndi að á Siglufirði hefði verið stærsta loðnubræðsla landsins sem lögð var af í hagræðingarskyni og sama mætti segja um fiskiskipaflotann, en nú væri svo komið að allur þorskkvóti í Fjallabyggð væri veiddur af einum frystitogara.

Afköst í fiskveiðum hefðu aukist mikið og nú væri svo komið að afli á hvern sjómann væri um fjórfalt meiri en áður. Útgerðarmynstrið væri breytt og sama mætti segja um fiskvinnsluna, þar sem afköst í hátæknifiskvinnslum væru fimm til sjö sinnum meiri á hvern starfsmann en áður var.

Hann sagði einnig að í Noregi hefði verið svipuð staða og í Siglufirði og Ólafsfirði vegna minnkandi veiðiheimilda. Þar hefðu byggðarlögin þó fengið til sín laxeldi sem styrkt hefði byggðirnar og gefið þeim nýtt líf. Mjög hefði verið rætt um það hér á landi hvaða áhrif hið mikla sjókvíaeldi í Noregi hefði haft á villta laxinn þar í landi og norsku laxveiðiárnar. Minna hefði verið rætt um hvernig byggðunum hefði verið bjargað með tilkomu laxeldisins.

Róbert sagði að til að styrkja byggðirnar þar sem fyrirhugað eldi myndi fara fram, væri þeim sjö sveitarfélögum sem að eldinu liggja, boðinn hlutur í Kleifum fiskeldi án endurgjalds. Sá hlutur myndi skila sveitarfélögunum hlutdeild í arði fyrirtækisins til framtíðar, þannig að þau nytu ábata af starfseminni, öfugt við það sem gerst hefði við hagræðingu í sjávarútvegi.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson