Stjórnin Una Sveinbjarnardóttir, Rúnar Óskarsson, Matthías Nardeau, Áshildur Haraldsdóttir, Richard Korn og Hrafnkell Orri Egilsson.
Stjórnin Una Sveinbjarnardóttir, Rúnar Óskarsson, Matthías Nardeau, Áshildur Haraldsdóttir, Richard Korn og Hrafnkell Orri Egilsson.
Fimmtíu ár eru liðin frá fyrstu tónleikum Kammersveitar Reykjavíkur en þeir voru haldnir þann 4. ágúst 1974. Af þessu tilefni heldur sveitin tónleika í Norðurljósum Hörpu á morgun, sunnudaginn 8. september, kl

Ragnheiður Birgisdóttir

ragnheidurb@mbl.is

Fimmtíu ár eru liðin frá fyrstu tónleikum Kammersveitar Reykjavíkur en þeir voru haldnir þann 4. ágúst 1974. Af þessu tilefni heldur sveitin tónleika í Norðurljósum Hörpu á morgun, sunnudaginn 8. september, kl. 16. Á þessum fyrstu tónleikum var leikin barokktónklist og 20. aldar tónlist og tekur efnisskrá tónleikanna á morgun mið af þeirri efnisskrá, leikin verða verk eftir sömu tónskáld og þá voru leikin en þó önnur verk.

„Við ætlum að flytja hátíðlega barokktónlist. Það gerum við alltaf á jólatónleikunum okkar. Þá erum við með dagskrá frá barokktímabilinu, með strengjasveit og sembal,“ segir Una Sveinbjarnardóttir fiðluleikari, sem situr einnig í stjórn Kammersveitarinnar. Á efnisskránni er Concerto Grosso op. 6 nr. 4 eftir Arcangelo Corelli (1653-1713). „Svo ætlum við að spila La Follia, sem er talið vera frá 15. öld og mögulega frá Íberíuskaganum.“ Una útsetti lagið sjálf en byggir á útsetningu Francescos Geminianis (1687-1762).

Þá verður tríósónata úr Tónafórninni eftir Johann Sebastian Bach (1865-1750) einnig á efnisskránni. „Þetta er verk sem Bach skrifaði seint á ævi sinni og það er merkilegt fyrir margra hluta sakir. Í verkinu kemur fyrir stef sem Friðrik mikli samdi og það var áskorun fyrir Bach að útsetja eftir hljómfræðihefð þess tíma. Þessi tríósónata er sjaldan spiluð og er mjög sér á parti. Þarna fer Bach svolítið ótroðnar slóðir. Það er mikil krómatík í þessu, sem sagt litlar tvíundir hver á eftir annarri, perlufestar af litlum tónbilum, og alls konar mynstur sem eru ekki dæmigerð fyrir hann eða þennan tíma. Svo þetta er mjög framúrstefnulegt fyrir Bach.“

Tvö 20. aldar verk eru á efnisskránni. Það fyrra er verkið Kristallar 2(000) eftir Pál Pampichler Pálsson (1928-2023) en hann kom að starfi Kammersveitarinnar frá byrjun. „Annar maður sem hefur líka komið að starfinu, Kjartan Óskarsson klarinettuleikari, ætlar að stjórna því verki,“ segir Una. Þá verður leikinn kvartett fyrir klarinett, horn, selló og sneriltrommu eftir Bohuslav Martinu (1890-1959). Með því segir Una einnig verið að spegla efnisskrá Kammersveitarinnar á fyrstu tónleikunum.

Halda áfram að taka sénsa

Það má ef til vill segja að ákveðin tilraunamennska einkenni efnisskrána. „Bach er auðvitað svo mikill meistari, og svo sérstakur, svo það er skemmtilegt að spila svona óvenjulegt verk eftir hann. Og La Follia, þetta margra alda gamla lag sem talið er vera frá Spáni, hefur haft svo mikil áhrif á svo margt annað. Þar er hljómagangur sem er algengur í barokktónlist en tónskáld eru líka mikið að nota í dag, til dæmis í kvikmyndatónlist. Miðjuverkin á efnisskránni, eftir Pál og Martinu, eru verk sem leita út fyrir rammann. Það er kannski það sem Kammersveitin hefur staðið fyrir,“ segir Una.

„Kammersveitin hefur alltaf verið forvitna hljómsveitin á Íslandi og flutt nýja tónlist en líka lagt áherslu á að leika stórvirki kammertónbókmenntanna. Það hefur kannski þróast þannig að sveitin er mikið í nútímanum en líka að grúska í þessu gamla. Það kallast mjög fallega á og hefur verið okkur öllum mikill innblástur í öðrum störfum í tónlistinni.

Auðvitað hefur veröldin breyst síðan Kammersveitin var stofnuð. Þá var þetta eina sveitin sem var að spila þessa barokktónlist hér. Nú eru fleiri hópar sem eru að flytja þessa tónlist. Svo ég held að þetta hafi haft mjög jákvæð áhrif á íslenskt tónlistarlíf.“

Una segir sveitina stefna á að halda áfram á sömu braut en með formerkjum breyttra tíma. „Nú erum við að vinna að nýrri stefnu og ætlum að reyna að halda áfram að vera þessir gluggar í tilraunamennsku og taka sénsa.“

Spurð út í samsetningu sveitarinnar segir Una: „Við erum kjarni af fólki sem er búið að vera þarna í rúm tíu ár. Svo fáum við einleikara með okkur, oft ungt fólk sem er nýkomið úr námi, og reynum að hafa mikla fjölbreytni á tónleikum.“

Una segir lýðræðislegt andrúmsloft einkenna sveitina. „Mörg okkar eru líka að spila í Sinfóníuhljómsveit Íslands og þar hefur maður kannski ekki jafn mikið að segja um verkefnavalið og túlkunina. En þarna erum við sjálf að prófa, læra og rannsaka og það er alveg ofboðslega gaman og mikilvægt fyrir okkur öll.“

Starfsárið fram undan er að sögn Unu veglegt. „Við erum í samstarfi við Hallgrímskirkju og tökum þátt í flutningi á Hallgrímspassíu Sigurðs Sævarssonar í haust. Síðan erum við með okkar hefðbundu jólatónleika 8. desember í Hörpu. Svo eru Myrkir músíkdagar í janúar.

Við höfum lagt upp með að halda ferna tónleika á ári og það hefur nokkurn veginn tekist. Aðsóknin er yfirleitt mjög góð, jafnvel á Myrkum músíkdögum þegar við spilum nýja framúrstefnutónlist. Vonandi verða næstu fimmtíu ár Kammersveitarinnar jafn viðburðarrík og spennandi.“

Höf.: Ragnheiður Birgisdóttir