Tíminn sem fer í samfélagsmiðla mætti eflaust nýta til fleiri mannbætandi viðfangsefna.

Pistill

Guðrún Sæmundsen

gss@mbl.is

Við göslumst í gegnum dagana uppfull af eldmóði og áhyggjum yfir hvað næsti maður hefur fram yfir okkur. Liggjum yfir myndum og „montstatusum“ á Facebook og Instagram. Samkvæmt þessum miðlum hafa allir það miklu betra en við. Verkefni sem eiga að leysast verða að vandamálum sem vinda upp á sig og ekki sér fyrir endann á. Tímann sem fer í samfélagsmiðla mætti eflaust nýta til fleiri mannbætandi viðfangsefna.

Krakkarnir sem eru í tíunda bekk núna voru að fæðast um það leyti sem fávitavæðing Facebook var að hasla sér völl og fyrsti iPhone-snjallsíminn kom á markað. Skjánotkun er ekki þeirra vandamál, það er okkar foreldranna. Þau hafa frá blautu barnsbeini horft á mömmu og pabba með nefið í skjánum. Við erum bara svo upptekin og þurfum að halda í við velsæld nágrannans. Það er brjálað að gera!

Og þar liggur okkar ábyrgð. Ævi barns byrjar inni á heimilinu – alla jafna.

Nú er gulur september og erum við minnt á mikilvægi þess að huga að andlegu hliðinni. Birtan kemur innan frá. Ég tek ofan fyrir þeim sem minna á vægi geðheilbrigðis á tímum ljóshraða og gervigreindar. Ekki veitir af.

Í fréttum undanfarið hefur mikið verið rætt um óheillaþróun er varðar leskunnáttu ungmenna, líðan þeirra og vopnaburð og eru ríkar ástæður fyrir því. Maginn fór í hnút og kökkur myndaðist í hálsinum þegar lesið var í fréttum að stúlka í blóma lífsins hefði látist eftir hnífaárás jafnaldra síns. Sársauki sem ekki nokkurt foreldri á að þurfa að upplifa.

Menn benda út og suður, upp og niður. Það eru átök í skólum, forvarnir, umræður í pontu. Hvað fór úrskeiðis? Peningaleysi, samræmd próf, tímaskortur … Eða, hver á að gefa barninu tíma, ekki hef ég hann!

Á ekki annars skólinn að kenna barninu að lesa, á ég nokkuð að gera það? Á ég að setjast niður með barninu á kvöldin og útskýra fyrir því merkingu orða í textanum sem það les, sér ekki skólinn um það? Eins og ég segi, það er enginn tími. Barnið fer í skóla og fjórar tómstundir eftir hann. Ég þarf að komast í ræktina eftir vinnu. Það eru allir bara svo þreyttir þegar heim er komið að sjónvarpið, snjallsíminn eða spjaldtölvan virðast það eina sem getur núllstillt mannskapinn.

Þurfum við sem foreldrar ekki að stoppa aðeins og draga andann. Börnin eru miklu næmari en fullorðnir og þau finna eflaust margfalt fyrir því áreiti sem við höfum með sjálfskaparvíti plantað í kringum okkur. Börnin eru líka miklu gáfaðri en við. Þau eyða a.m.k. ekki orkunni í að væla yfir veðrinu, þau skella sér í pollagallann og fara út að leika, í fullkominni núvitund. Hvar eru foreldrarnir? Ah, jú, þeir eru á Instagram, Tiktok og Facebook að væla yfir veðrinu. Getur náð í þá þar.