Einn efstur Vignir Vatnar Stefánsson hlaut 7½ vinning af 9 á Opna mótinu í Tenerife.
Einn efstur Vignir Vatnar Stefánsson hlaut 7½ vinning af 9 á Opna mótinu í Tenerife. — Ljósmynd/Ómar Óskarsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tvær breytingar hafa orðið á liðum Íslands á ólympíumótinu sem hefst í Búdapest í Ungverjalandi 10. september nk. Upp úr miðjum ágúst sagði Hjörvar Steinn Grétarsson sig frá verkefninu og kemur Hannes Hlífar Stefánsson í hans stað

Skák

Helgi Ólafsson

helol@simnet.is

Tvær breytingar hafa orðið á liðum Íslands á ólympíumótinu sem hefst í Búdapest í Ungverjalandi 10. september nk. Upp úr miðjum ágúst sagði Hjörvar Steinn Grétarsson sig frá verkefninu og kemur Hannes Hlífar Stefánsson í hans stað. Hannes Hlífar mun því tefla á sínu sextánda ólympíumóti, oftar en nokkur annar íslenskur skákmaður. Lið Íslands í Opna flokknum er þannig skipað í borðaröð:

Vignir Vatnar Stefánsson, Guðmundur Kjartansson, Hannes Hlífar Stefánsson, Hilmir Freyr Heimisson, Helgi Áss Grétarsson. Sá síðastnefndi bauðst til að skipa „heiðurssætið“ á listanum. Greinarhöfundur er liðsstjóri.

Olga Prudnykova varð að hætta við þátttöku af fjölskylduástæðum. Í hennar stað kemur hin 14 ára gamla Guðrún Fanney Briem og verður hún yngsti þátttakandi Íslendinga á ólympíumótum frá upphafi. Hún er ein fjögurra nýliða í hópnum; Vignir Vatnar og Hilmir Freyr eru báðir að tefla á sínu fyrsta ólympíumóti og einnig Iðunn Helgadóttir.

Lið kvenna í Búdapest verður þannig skipað í borðaröð: Lenka Ptacnikova, Jóhanna Björg Jóhannsdóttir, Hallgerður Helga Þorsteinsdóttir, Iðunn Helgadóttir og Guðrún Fanney Briem.

Liðsstjóri er Ingvar Þór Jóhannesson.

Vignir varð einn efstur á Tenerife

Vignir Vatnar Stefánsson varð einn efstur á sterku opnu móti sem lauk á Tenerife á dögunum. Hann átti í harðri keppni um sigurinn en með því að vinna skákir sínar í tveimur síðustu umferðunum hlaut hann 7½ vinning af 9 mögulegum og varð einn efstur. Sigur hans í lokaumferðinni yfir öflugum stórmeistara frá Georgíu skipti þar höfuðmáli en þeir þræddu þvingaða leið í Meran-afbrigði slavnesku varnarinnar. Að sögn Ingvars Þ. Jóhannssonar, sem hefur verið duglegur við að skýra skákir á heimasíðu SÍ, naut Vignir aðstoðar Birkis Ísaks Jóhannessonar, sem vildi þó af hógværð mikilli gera sem minnst úr sínum hlut. Vigni tókst að ná upp örlítið betra endatafli og knúði fram sigur eftir harða baráttu:

Tenerife 2024; 9. umferð:

Vignir Vatnar Stefánsson – Merab Gagunashvili

Slavnesk vörn

1. d4 d5 2. c4 c6 3. Rc3 Rf6 4. e3 e6 5. Rf3 Rbd7 6. Bd3 dxc4 7. Bxc4 b5 8. Bd3 Bb7 9. e4 b4 10. Ra4 c5 11. e5 Rd5 12. 0-0 cxd4 13. Rxd4 Rxe5 14. Bb5 Rd7 15. He1 Hc8 16. b3 Be7

17. Hxe6

Allt saman undirbúningur. Svartur má ekki taka hrókinn vegna 18. Rxe6 Da5 19. Rxg7+ og vinnur.

17. … 0-0 18. Rc6 Bxc6 19. Hxc6 Hxc6 20. Bxc6 R7b6 21. Rxb6 Rxb6 22. Bb2 Bf6 23. Dxd8 Hxd8 24. Bxf6 gxf6 25. Kf1!

Þetta endatafl hentaði vel af ýmsum ástæðum. Hvítur getur teflt til vinnings án þess að taka nokkra áhættu.

25. … Hd2 26. a3 Hc2 27. Bf3 bxa3 28. Hxa3 Hc7 29. Be4 Hc3 30. Ke2 Rc4 31. Ha4 Rd6 32. Bd5 Hc5 33. Bc4 a5 34. Kd3 Hf5 35. Ha2 Kf8 36. Kd4 Hf4+?

Hleypir kónginum inn. Betra var að halda kyrru fyrir en sennilega óttaðist hann 37. g2-g3 ásamt f2-f4. o.s.frv.

37. Kc5 Re4+ 38. Kb6 Rxf2 39. Hxa5 Rg4 40. Ha7 Re5 41. Bd5 f5 42. Kc5 Kg7 43. Kd6 Rg4 44. Hxf7+ Kg6 45. Hb7 Rxh2 46. b4 Rg4 47. b5 Rf6 48. Bc6 Re4 49. Ke5 Hf2

50. Hb8!

Valdar peðið óbeint. Ekki gengur 50. … Kf7 vegna 51. g4! o.s.frv.

50. … Hc2 51. Hg8+ Kg7 52. Bd5+ Ke7 53. b6 Rc5 54. Hg7+ Kf8 55. Hxh7 Hb2 56. b7 Ra6 57. Kf6 Hb6 58. Be6

– og svartur gafst upp.