Bjartsýni Vinna við lagningu Dalvíkurlínu 2 er hafin, sem er nokkuð óvanalegt án þess að allar heimildir séu í höfn.
Bjartsýni Vinna við lagningu Dalvíkurlínu 2 er hafin, sem er nokkuð óvanalegt án þess að allar heimildir séu í höfn. — Ljósmynd/Verkís
Ólafur Pálsson olafur@mbl.is

Ólafur Pálsson

olafur@mbl.is

Landsneti hefur ekki tekist að ná samningum við alla landeigendur um lagningu jarðstrengs milli Akureyrar og Dalvíkur. Um er að ræða nýjan 66 kílóvolta jarðstreng en í dag liggur loftlína á milli með sömu flutningsgetu, Dalvíkurlína 1. Tvöföld tenging Dalvíkur við kerfið á að viðhalda afhendingaröryggi á Dalvík og tryggja að flutningskerfið standi ekki í vegi fyrir atvinnuuppbyggingu á svæðinu.

Gengið illa að semja

Friðrika Marteinsdóttir, verkefnastjóri framkvæmda hjá Landsneti, segir að illa hafi gengið að semja við landeigendur tveggja jarða í Hörgársveit. „Samningar sem við áttum von á að væru komnir í land reyndust það svo ekki.“ Segir hún ýmsar ástæður liggja að baki og ekki endilega fjárhagslegar. Vinna er hafin við langingu jarðstrengsins en aðspurð segir Friðrika að vaninn sé alls ekki að farið sé af stað með framkvæmdir áður en allir samningar séu í höfn.

Landsneti ber samkvæmt raforkulögum að greiða fullar bætur fyrir það land sem fer undir rafmagnslínur. Friðrika segir að í öllum tilfellum sé reynt að meta hvað sé eðlilegt verð fyrir land. Söluverð sambærilegs lands sé skoðað og mál sem farið hafa fyrir matsnefnd eignarnámsbóta. Alltaf sé reynt að gæta samræmis og verð hækkað ef haldbær rök liggja fyrir slíku. „Við getum ekki boðið bara eitthvert verð.“ Strangar reglur gilda um Landsnet, sem eina fyrirtækið sem flytur raforku hér á landi. Reglur sem meðal annars lúta að því hvað fyrirtækið megi gera og hvaða verð megi greiða.

Heimild til eignarnáms

Fyrirtæki geta sótt um heimild til eignarnáms nái þau ekki samkomulagi við landeigendur vegna framkvæmda á grundvelli raforkulaga. Ráðherra getur þá tekið nauðsynlegt land eignarnámi og önnur réttindi landeigenda að því leyti sem nauðsyn ber til. Ráðherra getur heimilað fyrirtækinu að framkvæma eignarnámið og ber fyrirtækið allan kostnað. Segist Friðrika ekki sérstaklega bjartsýn á að samningar náist við landeigendurna og telur líklegt að sækja þurfi um heimild til eignarnáms. Ef til þess kemur segist hún bjartsýn á að heimild til eignarnáms fáist.

Óánægja með ferlið

Meðal þess sem aftrað hefur samningum við landeigendur eru áform sveitarstjórna á svæðinu um að leggja göngu- og hjólastíg meðfram jarðstrengnum. Þannig þarf strengurinn að fara lengra frá þjóðveginum og skerða land enn frekar. Landeigendur sem Morgunblaðið ræddi við sögðust einnig óánægðir með ferlið, hvernig staðið hefur verið að verkefninu, það kynnt og hve lítið samráð hefur verið haft við þá. Þeir hefðu viljað eiga frekara samtal um verkefnið og ekki síður um heildarskipulagningu á svæðinu sem þeir telja ekki munu verða landbúnaðarsvæði til framtíðar. Eingöngu sé þar stundaður hobbíbúskapur í dag og svæðið muni fara undir byggð á einhverjum tímapunkti.

Friðrika segir hlutum stundum blandað inn í umræðuna sem koma framkvæmdinni ekki við. „Umræðan um hjólastíg hefur verið að flækjast fyrir framkvæmdinni. Meðal annars hefur hún gert okkur erfiðara um vik að fá heimildir að einhverju leyti. Þá hafa eldri framkvæmdir Landsnets einnig tafið fyrir. Ef eitt gildir á einum stað er ekki víst að það gildi endilega á öðrum.“

Kostar rúma tvo milljarða

Ef framkvæmdin stöðvast alfarið og Landsnet fær ekki heimild til eignarnáms segir Friðrika að finna þurfi lausn. Hvort til dæmis sé hægt að leggja strenginn aðra leið, en áætlað er að heildarkostnaður við framkvæmdina nemi rúmum tveimur milljörðum króna.

Dalvíkurlína 2

Sitt sýnist hverjum

Sækja þarf um heimild til eignarnáms ef samningar nást ekki við landeigendur um lagningu Dalvíkurlínu 2 í jörð frá Akureyri til Dalvíkur.

Ef heimild fæst ekki til eignarnáms þarf að kanna hvort hægt sé að leggja strenginn aðra leið.

Framkvæmdir eru hafnar, sem er nokkuð óvanalegt þegar ekki hefur tekist að landa öllum heimildum.

Kostnaður mun nema rúmum tveimur milljörðum króna.