Holdgervingur Bræðurnir Nökkvi og Máni Svavarssynir ásamt leikkonunni Katrínu Halldóru Sigurðardóttur.
Holdgervingur Bræðurnir Nökkvi og Máni Svavarssynir ásamt leikkonunni Katrínu Halldóru Sigurðardóttur. — Morgunblaðið/Eyþór
„Þegar Katrín birtist á sviðinu þá litum við hvor á annan og spurðum: „Er mamma mætt hérna allt í einu?““ Þetta segir Nökkvi Svavarsson, sonur Hennýjar Eldeyjar Vilhjálmsdóttur, sem betur er þekkt sem goðsögnin Elly Vilhjálms

Ólafur Pálsson

olafur@mbl.is

„Þegar Katrín birtist á sviðinu þá litum við hvor á annan og spurðum: „Er mamma mætt hérna allt í einu?““ Þetta segir Nökkvi Svavarsson, sonur Hennýjar Eldeyjar Vilhjálmsdóttur, sem betur er þekkt sem goðsögnin Elly Vilhjálms. Sýningin Elly, sem fjallar um ævi og ástir söngkonunnar ástsælu, var aftur sett á fjalirnar í gær. Í sölu hafa verið settar 22 sýningar til áramóta og gert er ráð fyrir að þær verði 16 til viðbótar á því tímabili. Á árunum 2017 til 2019 var sýningin sett upp 220 sinnum og um 100 þúsund miðar seldust.

Nökkva óraði ekki fyrir þeim vinsældum sem sýningin hefur notið og þegar Gísli Örn Garðarsson og Ólafur Egill Egilsson handritshöfundar óskuðu einhvers konar blessunar yfir að fá að setja sýninguna á svið á sínum tíma hafi hann spurt bróður sinn hvers slags bull það nú væri. „Hver heldurðu að vilji sjá mömmu á sviði? Þetta verða fimm sýningar, í mesta lagi tíu,“ hafi hann fullyrt en haft mjög rangt fyrir sér.

Blaðamaður settist niður með leikkonunni Katrínu Halldóru Sigurðardóttur og bræðrunum Nökkva og Mána, sonum tónlistarhjónanna Ellyjar og Svavars Gestssonar.

Taldi sig einan þekkja svipinn

Segir Máni stórmerkilegt að Katrín Halldóra hafi náð að kalla fram á sviðinu litlar hreyfingar og augngotur móður þeirra. „Það var eins og hún tæki inn hvernig hún myndi bera sig eftir að hafa lært hennar sögu. Það voru þessar litlu hreyfingar sem ég skildi ekki hvernig hún hafði náð.“ Katrín Halldóra brosir í kampinn og rifjar upp þegar Máni sagði við hana á frumsýningunni að hún hefði sett upp svip sem hann hafði haldið að hann einn þekkti. Svipinn hefði mamma hans sett upp þegar hún var að skamma hann og þau skella öll upp úr. Nökkvi tekur undir og segir leikkonuna túlka móður þeirra bræðra gríðarlega vel en segir einnig búninga, hárgreiðslu og förðun leika stórt hlutverk. Þá segir Máni eitt af því sem geri sýninguna góða vera hvernig lögin séu notuð til að segja söguna á smekklegan og góðan hátt fremur en að um klassíska söngsýningu sé að ræða.

Telur Máni sýninguna ná sögunni nokkuð vel þótt búið sé að bæta drama inn hér og þar. Katrín Halldóra tekur undir og segir að áhorfendur í dag vilji sjá sögur af fólki. Elly hafi verið karakter sem fái fólk til að hrífast með, spontant og óútreiknanleg á vissan hátt. „Svo var hún bara með þessa persónutöfra sem er erfitt að útskýra,“ segir Katrín.

Nýr ungur leikari

Sýningin tók þroskastökk á þessum þremur árum sem hún var sýnd á sínum tíma að mati Katrínar en að koma að henni aftur nú fimm árum seinna segir hún allt annað. „Núna er ég orðin tveggja barna móðir og get spilað á allt annan tilfinningaskala. Dýptin er miklu meiri og nú er kominn nýr ungur leikari inn, Sigurður Ingvarsson [E. Sigurðssonar, innskot blaðamanns]. Við erum að breyta nokkrum senum þar sem hann kemur og það er svona verið að breyta og bæta. Það dásamlega við leikhúsið er að við getum alltaf bestað sýninguna.“

Höf.: Ólafur Pálsson