Kristrún Agnarsdóttir fæddist 24. febrúar 1973. Hún lést 21. ágúst 2024.

Útför fór fram 6. september 2024.

Elsku stelpan mín. Hún var ljósið í lífi okkar, alltaf brosandi og glöð, með hjarta fullt af kærleika og umhyggju fyrir öðrum. Hún var einstök í sinni nálgun á lífið, alltaf tilbúin að rétta hjálparhönd, jafnvel þegar hún þurfti á hjálp að halda sjálf.

Við munum alltaf muna hana fyrir hennar einstaka æðruleysi og dugnað. Þessar minningar munum við geyma í hjörtum okkar, því þær eru áminning um þann kærleika sem hún færði í líf okkar allra.

Það er ómögulegt að fylla tómið sem hún hefur skilið eftir sig. Þó að við vitum að hún er á betri stað, þá er sársaukinn sem fylgir því að missa barnið sitt ólýsanlegur. Við hugsum um alla þá drauma sem hún átti eftir að láta rætast, alla þá hluti sem hún átti eftir að upplifa, og hjörtu okkar brotna.

Ég vil biðja ykkur að minnast dóttur minnar, ekki í sorg, heldur með gleði, eins og hún hefði viljað.

Hvíldu í friði, elsku Didda mín. Við munum elska þig að eilífu og geyma minningarnar um þig dýpst í hjörtum okkar.

Með ást!

Þinn faðir,

Agnar og Snædís.

Elsku stóra systir mín.

Ég átti alltaf pláss á heimili þínu, og þegar kom að matartíma var alltaf aukasæti fyrir mig enda upplifði ég mig alltaf sem eina af hópnum þínum. Þegar mamma og pabbi fluttu upp í bústað fékk ég að halda til hjá þér þegar mig langaði, vinkonur mínar voru alltaf líka velkomnar á þitt heimili og tókstu okkur sem jafningjum.

Ég lærði margt af þér, hvernig á að reka stórt heimili, orðið hjálpsemi settir þú í annað samhengi og gera það besta úr öllu. Þú varst snillingur í að koma með lausnir, vandamál voru til að leysa þau og hindranir voru í þínum augum til að fara yfir.

Við áttum einstakt systrasamband og hjálpuðumst að í gegnum lífið. Þú varst svo dugleg að gefa hrós, sást alltaf það besta í fólki, snertir marga.

Ég man þig á göngu með barnavagn, hlaupa inn og út af leikskóla, vorhátíðir í leikskólanum, rúnta um með góða tónlist og diet-kók í gleri með okkur Sigrúnu mágkonu, allt fólkið sem heimsótti þig, kynningar í sparistofunni, bústaðarferðir til mömmu og pabba, 17. júní-skemmtanir, á pallinum í Lambhaga, Portúgalsferðin með fjölskyldunni, Færeyjaferðin með Norrænu, fjölskylduferðin á Hótel Dyrhólaey, heimsóknir á Sléttuveg, allar veislurnar, vinnustundirnar í Suðurlandsvídeói þar sem þú kenndir mér ofurþjónustulund og ef beðið var um ákveðna mynd sem var ekki inni þá varst þú snillingur í að benda fólki á aðra góða í staðinn.

Þú kenndir mér svo margt sem ég tek með mér út í lífið. Ef þér leið illa þá settir þú á lag og hækkaðir í græjunum og dansaðir.

Aðdáunarvert hefur verið að fylgjast með þér ala upp börnin þín, þau búa svo vel að því alla ævi að hafa haft þig sem móður. Börnin þín hafa alltaf fengið að vera þau sjálf og ólust upp með hvatningu frá þér um að láta drauma sína rætast og fylgja hjartanu. Þú varst svo spennt að verða amma, varst besta amma í heimi fyrir ömmustelpurnar þínar sem þú dáðir og dýrkaðir. Elskaðir að njóta tíma með þeim og stjana í kringum þær, alltaf boðin og búin að stökkva til. Búseta ykkar saman á Sléttuvegi gerði ykkur gott, sá tími er ómetanlegur í dag, þið mynduðuð enn sterkari tengsl.

Það var áþreifanlegt þegar þú varðst ástfangin af Kidda þínum, það birti yfir þér og varst þú á bleiku skýi. Þið ferðuðust um allt, og hamingjan og ástin geislaði úr augum ykkar. Þú tókst strax ástfóstri við börnin hans og talaðir um þau af mikilli ást og umhyggju. Það er ekki sjálfgefið að kona geti elskað annarra manna börn en það fórst þú sko létt með enda einstakt hjartalag. Ég er mikið þakklát honum Kidda fyrir að gefa þér þessi góðu hamingjuríku ár og hugsa svona vel um þig.

Það huggar mig, þótt sárt sé, að þú kvaddir þessa tilveru hamingjusöm og ástfangin, áhyggjulaus og stolt af þínum.

Ég kveð þig að sinni mín elskulega systir, þakka þér fyrir að taka mér eins og ég er og elska mig skilyrðislaust. Þakka þér fyrir að hafa alltaf verið þú sjálf og aldrei látið aðra segja þér hvernig á að lifa lífinu.

Ég elska þig að eilífu.

Þín systir,

Ásdís Helga Agnarsdóttir.

Elsku Didda mín.

Mikið er sárt að kveðja þig, elsku frænka, sem alltaf hefur verið mér svo kær. Hjarta mitt er fullt af þakklæti fyrir ótal minningar en fyrst og fremst fyrir að eiga fyrirmynd eins og þig. Margar af mínum bestu æskuminningum leiða til þín enda varði ég ótal stundum á stóra heimilinu þínu, þar sem ég var ávallt velkomin. Í minningunni var húsið þitt alltaf fullt af börnum en samt var alltaf pláss fyrir fleiri. Mér fannst ótrúlega gaman að fá að vera í kringum þig þar sem ég leit mjög mikið upp til þín og dáðist að hvernig mamma þú varst. Þú hafðir endalausa ást og hlýju að gefa. Þú vildir öllum vel og sást alltaf það góða í öllum. Ég hef alltaf verið stolt að eiga þig sem frænku og alltaf þótt óendanlega vænt um þig. Á unglingsárunum fékk ég gjarnan föt af þér og man sérstaklega eftir einum gellubuxum. Ég var margsinnis spurð að því hvar ég hefði fengið þessar buxur, þegar ég svaraði að Didda frænka hefði gefið mér þær fylltist ég stolti.

Þú hefur í gegnum tíðina margoft sagt við mig hversu stolt þú værir af mér og eins látið mig vita að þú værir alltaf til staðar fyrir mig. Ég hef leitað til þín á erfiðum stundum þar sem þú hefur veitt mér mikinn styrk, fyrir það verð ég þér ævinlega þakklát. Dugnaður þinn og jákvæðni í gegnum lífið er afar aðdáunarvert en stoltust er ég af því hversu vel þér tókst að koma börnum þínum til manns. Í mínum augum ertu sannkölluð hvunndagshetja. Ég mun gera mitt besta í að tileinka mér þitt einstaka jákvæða hugarfar. Engin orð fá því lýst hversu mikið þín verður saknað en minning þín mun lifa að eilífu. Mig langar að þú vitir að ég verð ávallt til staðar fyrir fjölskylduna þína og um leið votta ég henni mína allra dýpstu samúð. Hugur minn er hjá ykkur öllum. Hvíldu í friði elsku frænka.

Þín frænka,

Ester Guðlaugsdóttir.

Elsku Didda mín, orð geta ekki lýst því hvað missirinn er mikill síðan þú kvaddir okkur. Síðan ég var lítil hef ég alltaf litið á þig sem mömmu númer tvö. Minningin þín lifir með okkur öllum, þú snertir svo ótal mörg hjörtu og verður skrítið að hafa þig ekki lengur hjá okkur. Ég mun ala upp dóttur mína við það að sýna henni myndir af Diddu frænku og segja henni hversu frábær og yndisleg manneskja þú varst, alltaf jákvæð og dæmdir engan, tókst öllum eins og þau voru opnum örmum. Við elskum þig og söknum þín mikið, elsku fallegi engillinn okkar.

Helga Rún Róbertsdóttir.

Það er svo skrítið að sitja og skrifa minningargrein. Ósanngjarnt og erfitt. Símtalið þegar þú hringdir í okkur og sagðir að þú værir komin með krabbamein lýsir best hvernig manneskja þú varst. Þú varst svo jákvæð og huggaðir okkur hin. Þegar ég kynntist þér fyrir rúmum 30 árum tókstu mér opnum örmum og töluðum við saman næstum daglega öll þessi ár. Þegar við bjuggum öll í Lambhaganum var mikill samgangur á milli húsa og öll börnin okkar ólust eiginlega saman upp þar. Þú varst fyrirmynd okkar og dætra okkar og reyndist okkur öllum svo vel og verðum við þér ævinlega þakklát. Þú varst nefnilega þannig að þú varst alltaf jákvæð og þú dæmdir engan. Alltaf hörkudugleg í öllu, sama hvað það var. Börnin þín öll eru vel upp alin og sterkir einstaklingar og þú varst svo stolt af hópnum þínum og ömmustelpunum enda máttu vera það. Elsku Didda okkar. Takk fyrir allt. Við söknum þín svo sárt. „Love you.“

Róbert (Robbi) og Sigrún.

Það er sárt að missa, það er sárt að sakna. Þig hef ég misst úr lífi mínu. Ég er full af eftirsjá og söknuði og vildi óska þess að ég gæti bara sótt þig en ég get það því miður ekki. Takk svo mikið fyrir okkar vinskap Kristrún mín, þú varst besta vinkonan og líka klárasta vinkonan og þótt víðar væri leitað. Hvað var það bara ekki sem þú gast ekki gert? Þú gast leyst ótrúlegustu hluti, alveg frá því að skrúfa saman heilu innréttingarnar eða bara parketleggja, ekkert mál ef þú áttir í hlut. Þú áttir líka mjög auðvelt með að vera sætasta skvísan, það verður ekki af þér tekið, þú áttir líka mjög auðvelt með að vera bara sú allra besta, þú varst svo sterk í gegnum þessi ömurlegu veikindi að ég á engin orð. Þú varst ótrúleg og mikið jákvæð, þú varst ótrúlega opin við mig með akkúrat allt varðandi þín veikindi. Og lífið. Við gátum deilt akkúrat öllu og talað í marga marga klukkutíma, fórum létt með það enda áttum við sko samleið ég og þú og það kemst akkúrat enginn á milli mín og þín. Okkar vináttu þótti okkur báðum vænt um og þótti mér vænt um að heyra það frá systur þinni að þú hefðir sagt henni hvað þér þótti vænt um okkar vináttu. Mig langaði miklu meira að vera með þér Kristrún mín undir það síðasta, ég var bara að reyna að drekkja þér ekki, ég veit að þú hafðir orð á því að ég hefði komið sjaldnar, þetta er ástæðan elsku besta mín. Þetta var líka það sem ég óttaðist að þú myndir halda en ég var bara að hugsa um þig. Eitt er víst, að þú munt alltaf eiga stað í mínu hjarta og ég mun aldrei gleyma þér.

Og ég veit að þú munt vera með þinn væng yfir okkur öllum. Ég vona að þér líði betur.

Hversvegna er leiknum lokið?

Ég leita en finn ekki svar.

Ég finn hjá mér þörf til að þakka

þetta sem eitt sinn var.

(Starri í Garði)

Elska þig.

Þín vina,

María Antonía.