Sigurbjörg er amma, lestrarhestur og leikskólakennari.
Sigurbjörg er amma, lestrarhestur og leikskólakennari.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ég hlustaði á Risaeðlur í Reykjavík eftir Ævar Þór Benediktsson með barnabörnunum, frábær bók, spennandi og skemmtileg. Við hlógum oft og skemmtum okkur vel. Bókin fjallar um sjö bandóðar risaeðlur sem leika lausum hala í Reykjavík

Ég hlustaði á Risaeðlur í Reykjavík eftir Ævar Þór Benediktsson með barnabörnunum, frábær bók, spennandi og skemmtileg. Við hlógum oft og skemmtum okkur vel. Bókin fjallar um sjö bandóðar risaeðlur sem leika lausum hala í Reykjavík. Vinahópur finnur egg sem klekjast út og reynast það vera risaeðlur. Fljótlega fer allt úr böndunum og þau þurfa að vinna vel saman til þess að ná stjórn á ástandinu.

Ég las svo Steininn eftir Ragnheiði Gestsdóttur, en bókin fjallar um konu sem fær óvænta sjötugsafmælisgjöf frá fjölskyldunni sinni. Gjöfin verður til þess að hún ákveður að rífa af sér alla fjötra fyrra lífs og leita uppi ný ævintýri. Mér finnst bókin vel skrifuð og hún kom mér skemmtilega á óvart, aðalsöguhetjan var loksins orðin sinnar eigin gæfu smiður og ákvað að nýta sér það.

Ég er mjög mikill aðdáandi Freyju og Frikka-bókanna eftir Felix Bergsson og hef margoft hlustað á þær allar með barnabörnunum. Allt á hvolfi í Ástralíu er sú nýjasta og gerist þar. Enn á ný lenda þau systkin í spennandi ævintýrum sem þau takast á við og leysa í sameiningu. Bókin er full af húmor og hlýju auk þess sem hún er fræðandi. Ég vona sannarlega að það komi út fleiri bækur um Freyju og Frikka.

Minningaskrínið eftir Kathryn Hughes er góð bók sem gaf fyrri bók hennar Bréfinu ekkert eftir. Bókin fjallar um konu sem finnur að tíminn er að renna frá henni og hún þarf að klára óuppgerð mál. Inn í söguna fléttast vinátta við unga konu sem nýtur hennar leiðsagnar. Vel skrifuð og hélt mér alveg við efnið.

Valskan eftir Nönnu Rögnvaldardóttur er mjög vel skrifuð bók, skáldsaga með vísan í líf forfeðra höfundar. Nanna nær að lýsa vel lífskjörum fólks á þessum tíma. Mikil fátækt var á þessum tíma og var áhugavert en um leið sorglegt að lesa um t.d. um stöðu kvenna og hversu ótrúlega dapurleg réttindi þeirra voru. Barnadauði var algengur og kjörin almennt mjög bág. Ég hlakka til að lesa meira eftir Nönnu og vonandi koma fleiri bækur eftir hana á næstunni.

Uppáhaldsbók sumarsins er Sumarblóm og heimsins grjót eftir Sigrúnu Ölbu Sigurðardóttur. Bókin fjallar um Sóleyju, sem á átakanlega ævisögu og fæðist í fátækt. Þessi bók hélt mér alveg og vakti mig til umhugsunar um margt, ekki síst um það hvað kynjajafnréttið er mikilvægt. Virkilega góð bók og vel skrifuð, vonandi kemur meira frá þessum höfundi.