Á flugvellinum í Fljótavík má sjá Árna ganga um með bensínbrúsa.
Á flugvellinum í Fljótavík má sjá Árna ganga um með bensínbrúsa.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Fljótavík ríkir kyrrðin ein og náttúrufegurðin blasti við hvert sem litið var á þessum fallega síðsumarsdegi.

Ljósmyndir

Árni Sæberg

saeberg@mbl.is

Snemma morguns á fimmtudegi í liðinni viku hringdi Árni Gunnnarsson vinur minn og tjáði mér að hann og vinur hans, Geir Björnsson, væru að fara í Fljótavík á tveimur fisvélum að renna fyrir fisk, en Geir á þarna fjölskylduhús. Mér var boðið með og var ekki lengi að þiggja þetta góða boð. Við rétt náðum að skjótast á milli lægða, en Árni sagði einmitt þetta hafi verið eini veðurglugginn á þessu svæði því von var á enn einni lægðinni um kvöldið.

Ég dreif mig af stað og var kominn stuttu síðar upp á Hólmsheiði á flugvöll Fisfélagsins. Þar biðu tvær litlar fisvélar, klárar að komast í loftið. Vélar þessar höfðu komið til landsins frá Bretlandi í þremur kössum hvor og settu þeir félagar þær saman sjálfir. Vélarnar, sem heita Sky Ranger, hafa fjögurra tíma flugþol og vega aðeins tæpt hálft tonn, með farþegum.

Árni og Geir tóku vel á móti mér og voru búnir að skoða veðurkort og plana flugið vestur. Var áætlað að tvo tíma tæki að fljúga í Fljótavík, sem er fyrir norðan Aðalvík á Hornströndum.

Góður landafræðitími

Farið var í loftið upp úr níu og stefnan tekin á Vestfirði. Það er ótrúlegt hvað þessi fis búa yfir góðum flugleiðsögubúnaði og var flugið eins og góður landafræðitími. Er við nálguðumst Fljótavík hafði bætt í vindinn og lentum við í ókyrrð, en Árni nafni minn er vanur svifflugmaður og kann að lesa vindinn við fjöll. Flugið gekk vel og veðrið róaðist þegar komið var í þessa paradís.

Í Fljótavík ríkir kyrrðin ein og náttúrufegurðin blasti við hvert sem litið var á þessum fallega síðsumarsdegi. Þeir félagar héldu til veiða en ég fór að fylgjast með sumarbústaðaeigendum sem voru í óða önn að gera hús sín klár fyrir veturinn. Rakst ég þar á skemmtilegt fólk sem gaman var að spjalla við, og að sjálfsögðu voru þau mynduð.

Lægðin mætti á svæðið fyrr en áætlað var og fórum við aftur í loftið um miðjan dag. Er komið var í Hvalfjörð var skyggnið farið að versna og í eitt augnablik hélt ég að höfuðborgarbúar væru komnir á nagladekkin og „hamfarasvifryksmengun“ héngi yfir borginni. En það reyndist vera gosmengun sem lá yfir öllu.

Árni stýrði vélinni af einskærri snilld og lentum við heilir á höldu á Hólmsheiði. Ég endaði kvöldið heima yfir hamfarafréttum í sjónvarpinu eftir dýrðlegan dag fyrir vestan.