„Það er einhver varanlegur skaði á auga og vinstri hendi en ég hef jafnað mig að mestu leyti,“ segir Rushdie.
„Það er einhver varanlegur skaði á auga og vinstri hendi en ég hef jafnað mig að mestu leyti,“ segir Rushdie. — Ljósmynd/ Rachel Eliza Griffiths
Eftir árásina varð mér hins vegar ljóst að eina leiðin til að geta komist yfir hana var að fara í gegnum hana – ég þurfti að skrifa um árásina áður en ég gat farið að hugsa um eitthvað annað.

Rithöfundurinn Salman Rushdie tekur á móti Alþjóðlegum bókmenntaverðlaunum Halldórs Laxness í Reykjavík föstudaginn 13. september. Verðlaunin eru veitt annað hvert ár þekktum alþjóðlegum rithöfundi sem hefur átt þátt í endurnýjun frásagnarlistarinnar.

Í rökstuðningi valnefndar segir að skáldsögur Rushdies séu „heillandi heimspekilegar og upplýsandi sögur fyrir lesendur sem eru tilbúnir að uppgötva nýja heima“. Rushdie hafi orðið „táknmynd hugrekkis og óbeygjanlegs vilja“ eftir að hafa haldið áfram að skrifa bækur þrátt fyrir dauðadóm frá klerkastjórninni í Íran og banatilræði fyrir tveimur árum.

Rushdie, sem er 77 ára, er höfundur á þriðja tug bóka. Þekktastar eru Miðnæturbörn og Söngvar Satans sem báðar hafa komið út á íslensku. Miðnæturbörn var önnur skáldsaga Rushdies og vann Booker-verðlaunin árið 1981. Bæði þegar haldið var upp á tuttugasta og fimmta og fertugasta afmæli verðlaunanna var skáldsagan valin besta vinningsskáldsaga í sögu verðlaunanna. Söngvar Satans var bönnuð í um tuttugu löndum þar sem hún var talin innnihalda guðlast og hún kallaði yfir Rushdie dauðadóm frá sjálfum Khomeini, æðsta klerki Írans, árið 1989.

Nýjasta bók Rushdies er Hnífur en þar skrifar hann um banatilræðið sem honum var sýnt í Chautauqua í New York-ríki, þar sem hann var á sviði tilbúinn í umræður um öryggi rithöfunda. Bókin var að koma út á íslensku hjá Forlaginu í þýðingu Árna Óskarssonar.

Blaðamaður náði stuttlega tali af Rushdie og spurði hann fyrst hvernig heilsa hans væri nú tveimur árum eftir banatilræðið. „Mér líður betur, takk. Það er einhver varanlegur skaði á auga og vinstri hendi en ég hef jafnað mig að mestu leyti,“ svarar hann.

Þú ákvaðst að skrifa um árásina og bókin Hnífur kom út í apríl á þessu ári. Hnífur er ákaflega persónuleg, auk þess að vera uppgjör við morðtilraunina. Fyrir árásina hafðirðu haldið einkalífi þínu fyrir þig. Af hverju ákvaðstu að stíga inn í sviðsljósið með þessum hætti?

„Ég hef lifað allt of miklu af lífi mínu sem rithöfundur í sviðsljósinu, svo það er ekkert nýtt. En það er rétt hjá þér að ég vann hörðum höndum að því að halda einkalífi mínu fyrir mig þrátt fyrir athyglina. Í sjálfsævisögulega verkinu Joseph Anton, sem ég skrifaði tíu árum fyrir tilræðið, fór ég þá leið að nota sem mest þriðju persónu um sjálfan mig. Eftir árásina varð mér hins vegar ljóst að eina leiðin til að geta komist yfir hana var að fara í gegnum hana – ég þurfti að skrifa um árásina áður en ég gat farið að hugsa um eitthvað annað. Svo hér er bókin!“

Mikilvægt að skrifa Hníf

Rushdie var í öndunarvél og illa særður eftir árásina, en hann hlaut þrjú alvarleg stungusár á hálsi og var stunginn fimmtán sinnum í brjóst og líkama. Stuttu fyrir árásina dreymdi hann að ráðist væri á sig með hníf. Merkilegur fyrirboði, segja einhverjir. Rushdie er trúlaus en sagt hefur verið að það hafi verið kraftaverk að hann skyldi lifa af. Telur hann sjálfur að einhver yfirnáttúrulegur kraftur hafi komið honum til bjargar?

„Nei, nei. Ég skil ekki þetta tal sem hefur orðið um hönd Guðs í þessu máli. Góðir læknar, heppni og ástrík umönnun eru algjörlega fullnægjandi skýringar.“

Í bókinni Hnífur skrifar þú um manninn sem réðst á þig og hvernig tilfinningar þínar í garð hans hafa breyst með tímanum. Þú fréttir að hann hefði aðeins lesið tvær blaðsíður af skrifum þínum og þá fannst þér hann næstum óverðugur til að gera þetta tilræði. Í bókinni átt þú ímyndað samtal við hann (mann sem þú nefnir aldrei á nafn). Hvernig hugsarðu um hann núna?

„Ég er frekar hlutlaus í garð hans. Ég tókst á við það sem ég þurfti að takast á við með því að skrifa Hníf. Nú er ég að snúa mér að nýjum verkefnum og ég er nokkurn veginn búinn að afgreiða árásarmanninn. En til þess varð ég að ímynda mér þetta samtal sem ég ætti við hann og setti í bókina.“

Í sumar var árásarmaðurinn ákærður fyrir að styðja Hezbollah í Líbanon. Hann hefur ekki enn verið dæmdur fyrir morðtilraunina. Spurður hvort hann fylgist með máli hans segir Rushdie: „Réttarhöld vegna morðtilræðisins hefjast í október og já, ég hef áhuga á þeim og mun fylgjast með þeim.“

Tímar ritskoðunar

Í Hnífi veltirðu fyrir þér prívatpersónu þinni og opinberu persónunni með því að nota söguna Skuggann eftir H.C. Andersen sem myndlíkingu fyrir það hvernig einstaklingur getur öðlast sjálfstætt líf í huga almennings.

„Ég held að það sé ekki óeðlilegt að það skapist mynd af fólki í sviðsljósinu sem er ólík þeirri persónu sem viðkomandi er í einkalífi sínu. Ég hef lent í því og ég hef lært að takast á við það, eins og allir verða að gera. En þessi saga um mann sem missir sambandið við skugga sinn er uppáhaldssaga mín eftir H.C. Andersen.“

Myndirðu segja að það væri umsátursástand um bókmenntir í dag? Gamlar bækur eru teknar úr hillum og úr námskrám vegna þrýstings frá hægri og vinstri vegna einhvers sem þeim líkar ekki í þeim. Móðgumst við of auðveldlega?

„Umsátursástand er of sterkt hugtak. En þetta eru tímar ritskoðunar og sumir finna styrk í því, og finnst það efla sjálfsmyndina, að hneykslast yfirgengilega vegna einhvers sem stendur í bókum. Það er nauðsynlegt að berjast gegn öllu þessu. Þá fyrst reynir á tjáningarfrelsið, þegar þú móðgast.“

Árás Hamas á Ísrael 7. október í fyrra var eins og fleygur inn í vestrænt samfélag. Það hefur ekki aðeins leitt til hryllingsins á Gasa, heldur rótað upp í samfélögum á Vesturlöndum; rektorum nokkurra virtustu háskóla Bandaríkjanna hefur verið sópað í burtu; fleygur hefur verið rekinn í gegnum PEN America, þar sem þú varst einu sinni forseti. Það hefur meira að segja verið gerður listi þar sem rithöfundar, gyðingar og aðrir, eru skilgreindir eftir því hvort þeir eru síonistar eða ekki. Þú munt vera á einum slíkum lista, sagður vera á línunni.

„Ég hef engan áhuga á listum af þessu tagi. Fólk er í uppnámi vegna dauða saklauss fólks og það hefur áhrif á dómgreind þess. Ég er líka miður mín vegna þess, en ég get ekki farið að afsaka Hamas. Eins og allt skynsamt fólk vonast ég eftir vopnahléi mjög, mjög fljótlega.“

Er mikilvægt fyrir bandarískt lýðræði hvort það verður Kamala Harris eða Donald Trump sem sigrar í forsetakosningunum í nóvember?

„Já. Trump væri hörmung. Ég vona að það hafi orðið vatnaskil og að þunginn sem er í kosningabaráttu Harris muni leiða hana til sigurs.“

Hlakkar til Íslandsferðar

Spurður hvort dauðadómur írönsku klerkastjórnarinnar hafi haft áhrif á skrif hans segir Rushdie svo ekki vera. Hann hefur fórnað miklu vegna skrifa sinna en þegar hann er spurður hvort hann hafi einhvern tíma séð eftir að hafa skrifað Söngva Satans svarar hann með áherslu: „Nei, alls ekki.“

Hann segist gleðjast yfir því að hljóta alþjóðleg bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness. „Ég vona að heimsókn mín geti orðið til þess að einhverjir íslenskir lesendur leiti til einhverra þeirra tuttugu og tveggja bóka sem ég hef skrifað, meirihluti þeirra er skáldskapur.

Það er heiður að fá þessi verðlaun. Ég veit að Laxness var stórkostlegur rithöfundur og hef verið að skoða nokkur verka hans og jafnframt fræðast um óvenjulegt líf hans. Ég hlakka til að koma til Íslands og hitta ykkur öll. Þakka þér fyrir.“

Höf.: Karl BlöndalKolbrún Bergþórsdóttir