Guðni Ágústsson
Guðni Ágústsson
Fréttamaðurinn kallaði fyrir landbúnaðarráðherra og mætti ofjarli sínum.

Guðni Ágústsson

Oft minnist ég þess hversu mikill ríkisútvarpsmaður ég var á mínum ungdómsárum. Nú eru farnar að renna á mig tvær grímur og velti ég oft fyrir mér þeirri miklu lögvörðu einokunaraðstöðu sem Ríkisútvarpið hefur á sístækkandi fjölmiðlamarkaði. Og æ oftar finnst mér fréttamenn RÚV brjóta hlutleysishlutverkið sem þeim er fyrirskipað í lögum að halda. Bergsteinn Sigurðsson er vaskur maður og minnir á Skarphéðin og fer oft óvarlega með Rimmugýgi, beitir öxinni fast og heggur á báða bóga.

Í Kastljósþætti á miðvikudagskvöld tók hann fyrir nýsett búvörulög og vandaði Alþingi ekki kveðjurnar og fór frjálslega með staðreyndir málsins. Hann kallaði fyrir landbúnaðarráðherra Bjarkeyju Olsen og mætti ofjarli sínum. Bjarkey var sannfæringin uppmáluð og hvert högg Rimmugýgjar geigaði og fyrir rest stóð spyrill einokunarstöðvarinnar eftir með kjánalegt glott á vörum. Það var ljóst að Bergsteinn var illa að sér hver tilgangur búvörulaganna er og ekki hafði hann hugmynd um að mjólkuriðnaðurinn og kúabændur sóttu sér þennan rétt árið 2004 að mega hagræða bæði neytendum og bændum til ávinnings. Ekki hafði hann hugmynd um að ESB hafði notað svipaða löggjöf gagnvart sínum landbúnaði um svipað leyti. Fréttamaðurinn talaði um einhverja risa á kjötmarkaði. En hann er í þjónustu ofurrisans á fjölmiðlamarkaði, er í húsi kattarins og litlu mýsnar mega vara sig. Fréttamaðurinn talaði við ráðherrann eins og um glæpamál væri að ræða og lét liggja að því að Þórarinn Ingi Pétursson alþingismaður hefði verið að misnota sína aðstöðu. Fram kom að Búsæld fyrirtæki bændanna var ekki beysnara en svo að á hverju hausti urðu fátækir sauðfjárbændur að breyta hluta af afurðaverði í hlutafé. Ef fréttamenn RÚV yrðu nú hjá Risanum að breyta hluta af launum sínum í hlutafé svo RÚV lifði af, hvað þá. Mjólkuriðnaðurinn hagræddi og MS er í dag með sex afurðastöðvar í stað átján áður. Kannski er ekki markaður til að reka nema eitt Sláturfélag fyrir sunnan og annað fyrir norðan. Bændur þessa lands eru ekki útsmognir af klækjum eða gróða fíkn en þeir þurfa að koma sínum afurðum á markað á sanngjörnu verði um það snýst þeirra líf. Þar skiptir engu máli hvað trúbræður í Samkeppniseftirlitinu, Viðskiptaráði og Neytendasamtökunum segja. Svo segja bissnessmenn og komast upp með það að segja að það sé bara pláss fyrir eitt flugfélag á Íslandi og eitt Ríkisútvarp, það er fámennið sem er okkar akkilesarhæll. Fréttamaðurinn var utan gátta og sneri öllu á haus í þessu Kastljósi.

Höfundur er fyrrverandi alþingismaður og ráðherra.

Höf.: Guðni Ágústsson