Tilnefnd Glódís Perla Viggósdóttir hefur verið sem klettur í vörn íslenska landsliðsins og Bayern München þar sem hún stígur vart feilspor.
Tilnefnd Glódís Perla Viggósdóttir hefur verið sem klettur í vörn íslenska landsliðsins og Bayern München þar sem hún stígur vart feilspor. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Glódís Perla Viggósdóttir, fyrirliði íslenska landsliðsins í knattspyrnu og þýska stórliðsins Bayern München, var á miðvikudag tilnefnd til Gullboltans, Ballon d’Or, sem eru ein virtustu einstaklingsverðlaun knattspyrnunnar

Gullboltinn

Gunnar Egill Daníelsson

gunnaregill@mbl.is

Glódís Perla Viggósdóttir, fyrirliði íslenska landsliðsins í knattspyrnu og þýska stórliðsins Bayern München, var á miðvikudag tilnefnd til Gullboltans, Ballon d’Or, sem eru ein virtustu einstaklingsverðlaun knattspyrnunnar.

Glódís Perla er ein af 30 leikmönnum sem er tilnefnd í kvennaflokki og skráði um leið nafn sitt í sögubækurnar þar sem hún er fyrsti Íslendingurinn sem er þess heiðurs aðnjótandi að vera tilnefnd til Gullboltans.

„Tilfinningin er ótrúlega góð. Þetta er mikill heiður og gaman að fá að vera í svona sterkum hópi einstaklinga,“ segir hin 29 ára gamla Glódís Perla í samtali við Morgunblaðið.

Hefur ekkert truflað mig

Hún hefur verið í fremstu röð í sinni stöðu, miðverði, í heiminum mörg undanfarin ár. Glódís Perla hefur vart stigið feilspor með lands- eða félagsliði og sýnt af sér fáséðan stöðugleika. Af þeim sökum hafa einhverjir, þeirra á meðal ofanritaður, furðað sig á því að sjá nafn hennar ekki fyrr á lista yfir tilnefnda hjá Gullboltanum.

Sjálf hefur Glódís Perla ekki velt sér mikið upp úr því.

„Nei, alls ekki. Þetta er ekki eitthvað sem ég er mikið að spá í, einhver svona einstaklingsverðlaun. Það sem mér finnst skemmtilegast við fótbolta er að það er liðsíþrótt.

Þannig að nei, þetta er ekkert sem hefur verið að trufla mig en auðvitað mikill heiður að vera á þessum lista. Þetta eru náttúrlega risaverðlaun og þetta er ótrúlega skemmtilegt,“ segir hún.

Ekki mikið tillit til kvenna

Athygli hefur vakið að verðlaunahátíðin hefur og mun áfram fara fram á meðan landsleikjagluggi stendur yfir kvenna megin. Ísland mætir Bandaríkjunum í tveimur vináttulandsleikjum ytra 24. og 27. október en verðlaunaafhendingin fer fram í París 28. október.

„Einmitt, þetta er akkúrat í landsleikjaglugga. Þetta er ekki beint skipulagt með miklu tilliti til kvenleikmannanna sem eru tilnefndir,“ segir Glódís Perla.

Spurð hvað henni þætti um þetta skipulag segir Glódís Perla:

„Auðvitað er erfitt að finna tíma sem myndi henta öllum vel en það er svolítið skrítið að setja þetta í landsleikjaglugga þar sem þeir vita að örugglega allir sem eru tilnefndir geta ekki mætt.“

Myndi aldrei segja það sjálf

Af leikmönnunum 30 sem eru tilnefndir eru aðeins tveir miðverðir, Glódís Perla og hin brasilíska Tarciane, sem er 21 árs leikmaður Houston Dash í Bandaríkjunum.

Er þá ekki óhætt að segja þig einn besta ef ekki besta miðvörð heims?

„Þú mátt gera það ef þú vilt en ég mun aldrei segja það sjálf! Ég held að maður sé alltaf að verða betri og það er mikil samkeppni og erfitt að bera einn leikmann saman við annan.

Það er ótrúlega gaman að fá þessa viðurkenningu og vera á þessum lista með heimsklassa leikmönnum en ég myndi aldrei líta þannig á mig,“ segir hún.

Glódís Perla fer ekki ofan af því að hún sé enn stöðugt að bæta sig.

„Já, ekki spurning. Ég legg mikið upp úr því að vera aldrei sátt og aldrei í þægindaramma, að leita að leiðum til þess að bæta mig, bæði innan og utan vallar. Ég held að ég eigi fullt inni og það er margt sem ég get bætt mig og orðið betri í,“ segir Glódís Perla Viggósdóttir að lokum við Morgunblaðið.

Höf.: Gunnar Egill Daníelsson