Snorri Hildimar Jónsson fæddist 19. desember 1956 á Skólastíg 15 í Bolungarvík. Hann lést 22. ágúst 2024 á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða.

Snorri var sonur hjónanna Rannveigar Snorradóttur frá Bolungarvík, f. 9.10. 1937, og Jóns Valgeirs Guðmundssonar frá Folafæti, f. 3.4. 1929, d. 19.12. 2012. Systur Snorra eru Elísabet, f. 5.7. 1955, Guðrún Jónína, f. 4.5. 1958, Lára Kristín, f. 21.3. 1964, Selma Guðmunda, f. 29.4. 1968, og Erna, f. 22.5. 1976.

Snorri átti úr fyrra sambandi dótturina Rannveigu, f. 3.9. 1984. Barn hennar er Haukur Hildimar Davíðsson, f. 24.4. 2003. Með eiginkonu sinni, Þórhildi Sigurðardóttur, f. 31.3. 1963, átti Snorri þrjú börn, þau eru: Sara Rut, f. 5.2. 1996, maki hennar er Arnar Ingi Magnússon, f. 4.8. 1993, börn þeirra eru Hildimar Ingi og Aþena Hjördís; Sigurður Aron, f. 5.2. 1996, maki hans er Aldís Huld Höskuldsdóttir, f. 14.11. 1998; Hafþór Smári, f. 11.5. 2000.

Snorri Hildimar ólst upp í Bolungarvík, var glaðvært barn og hafði gaman af hvers kyns útileikjum og fylgdist grannt með ýmsu sem um var að vera í Víkinni. Hann hafði t.d. gaman af því að fylgjast með störfum pabba síns í útibúi Kaupfélags Ísfirðinga í Bolungarvík og einnig með Snorra afa sínum, sem átti litla trillu sem hann reri á. Snorri var þá oftar en ekki mættur á bryggjuna að fylgjast með Snorra afa sínum þegar hann var að koma í land. Hann byrjaði snemma að vinna og 15 ára gamall réð hann sig á Brúarfoss sem messagutta í siglingum milli landa. Snorri fór í kjölfar þess að vinna á fiskibátum og haustið 1979 gekk hann í Sjómannaskólann í Vestmannaeyjum og aflaði sér þar skipstjórnarréttinda.

Hann var alla tíð sjómaður allt þar til veikindi hans settu strik í reikninginn. Á sjónum var hann þekktur fyrir dugnað og elju. Á síðustu árum sjómennsku sinnar var hann á rækjubátnum Sigurborg SH, þar sem hann eignaðist dýrmæta vini sem urðu honum mjög kærir.

Snorri Hildimar hóf sambúð með Birnu Guðbjörgu Hauksdóttur frá Ísafirði árið 1983. Birna átti fyrir soninn Andra Fannar, sem Snorra þótti mjög vænt um. Snorri og Birna eignuðust saman dótturina Rannveigu, áður en samband þeirra leið undir lok árið 1986. Snorri Hildimar kynntist eftirlifandi eiginkonu sinni, Þórhildi Sigurðardóttur, árið 1991, og voru þau saman alla tíð síðan. Þau eignuðust þrjú börn saman, tvíburana Söru Rut og Sigurð Aron, og Hafþór Smára.

Snorri Hildimar greindist með krabbamein árið 2014 og varð að gera hlé á sjósókn sinni, en hélt aftur til sjós snemma árs 2015 fram til ársins 2018 þegar veikindin tóku sig upp á nýjan leik. Snorri hafði hug á að snúa aftur til sjós, en heilsufarið gerði það að verkum að það varð ekki að veruleika. Þess í stað naut hann síðustu ára sinna með fjölskyldunni og fékk þá gæfu að eignast tvö barnabörn til viðbótar og fylgjast náið með barnsárum þeirra.

Útför hans fer fram frá Ísafjarðarkirkju í dag, 7. september 2024, klukkan 14.

Elsku pabbi.

Ég mun alltaf minnast pabba sem góðhjartaðasta manns sem ég hef kynnst. Hann elskaði fólkið sitt svo mikið, og sýndi það allt sitt líf.

Pabbi og mamma skildu þegar ég var einungis tveggja ára en pabbi var ákveðinn í að halda sterku sambandi okkar á milli. Við flutning minn til Namibíu aðeins sex ára gömul borgaði pabbi fyrir flug og fylgd á hverju ári svo ég fengi að eyða mörgum vikum hvert sumar hjá honum og Diddu. Þá varð ég algjör dekurprinsessa og hann keypti fyrir mig alla „reif“-geisladiskana. Við komu til Keflavíkur hvert ár þessi sex ár sem ég var í Afríku gistum við í Reykjavik áður en var haldið vestur. Þá varð Hótel Saga alltaf fyrir valinu því þar var sundlaug. Bara það besta fyrir pabbastelpu sína.

Ég var stressuð að tilkynna pabba að ég væri ólétt aðeins 17 ára gömul, og loksins þegar ég hafði safnað kjarki æpti pabbi hátt og skýrt, klappandi höndum: „Ég verð afi!“ Hann var himinlifandi og hefur hann haldið gríðarlega upp á afastrákinn sinn og nafna alla tíð.

Þegar pabbi landaði í Reykjavik gisti hann hjá mér eina nótt í viku og þá vildi hann alltaf aðstoða dóttur sína sem ströglaði í gegnum nám sem einstæð móðir. Það var fyllt bensín á bílinn og splæst í góða Bónusferð. Verst var þó þegar hann stalst til að gefa villiketti ferskan fisk. Þá varð ekki aftur snúið og við Haukur Hildimar urðum óvart kattaeigendur.

Tenerife í 60 ára afmælisfögnuð var algjör hápunktur, þarna naut pabbi sín. Hann var umvafinn ástkærri fjölskyldu sinni, og honum var vel fagnað. Pabbi þekkti mína ævintýragirni og samþykkti það að stökkva fram af kletti í fallhlíf með stórustu stelpunni sinni! Léttirinn á elsku kallinum þegar því var aflýst vegna veðurs var gríðarlegur.

Síðustu 10 ár lífs pabba hefur hann barist við þetta skelfilega mein sem krabbamein er, en aldrei kvartaði hann og tók öllum læknisheimsóknum, lyfjameðferðum og öðrum erfiðleikum með heilindum. Hann hélt alltaf í bjartsýnina, og barðist með kjafti og klóm. Í lokin var það mikil huggun fyrir mig að hafa flutt til Íslands og verið það heppin að pabbi og Didda voru tíðir gestir heima á Bollagötu enda fátt betra en að eyða gæðastundum með þeim. Við pabbi duttum vel í fótbolta saman síðustu ár og ef við vorum ekki að horfa á saman sendum við „live“ textaskilaboð yfir leikjum; pabbi var kannski ekki sá besti að lýsa en hann sendi stutt „yes“ og „neei“ þegar liðin skoruðu. Hann elskaði börnin sín öll svo mikið að hann ákvað að halda með Arsenal (fyrir mig og Hauk) og Tottenham líka (fyrir Sigga og Hafþór).

Pabbi, þú varst sá allra besti pabbi sem mig hefði getað dreymt um og ég sé góðmennsku þína skína í gegnum afastrákinn þinn, Hauk Hildimar, alla daga.

Þín

Rannveig.

Elsku hjartans pabbi minn.

Ég á svo erfitt með að trúa því að þú sért farinn, þetta er svo óraunverulegt. Það róar þó hugann að hugsa að veikindin séu ekki að hrjá þig lengur.

Ég er svo heppin að eiga margar dásamlegar minningar með þér, margar myndir og myndbönd bæði af þér og frá þér, sem ég mun varðveita vel.

Það var svo dásamleg tilfinning að segja þér og mömmu frá því að ég væri ólétt að Hildimar, þú varst svo ánægður. Þú varst löngu farinn að biðja um fleiri afabörn, enda Haukur Hildimar orðinn 15 ára þegar Hildimar fæðist. Frá því við vissum að við ættum von á strák kallaðir þú hann alltaf Hildimar. Þú hafðir samt ekki hugmynd um að við vorum löngu ákveðin í því að hann skyldi heita Hildimar. Ég man sérstaklega eftir því þegar þið mamma komuð á fæðingardeildina daginn sem Hildimar fæddist og þegar þið voruð svo að kveðja segir þú „bless Hildimar minn“. Á þessari stundu fundum við Arnar að nafnið Hildimar væri fullkomið. Fimm dögum síðar fékk hann nafnið sitt og vá hvað þú varðst glaður, maður sá gleðitárin í augunum. Seinna það kvöld breyttirðu nafninu þínu á Facebook úr „Snorri H. Jónsson“ í „Snorri Hildimar Jónsson“, svo stoltur varstu að fá nafna.

Á þessum tíma varstu hættur að vinna vegna veikindanna og varst mikið heima. Þarna byrjaðir þú að vera mikið á snapchat og lifðir fyrir myndir og myndbönd af Hildimar þínum og eins Aþenu Hjördísi eftir að hún fæddist. „More love“ er setning frá þér sem lifir í hausnum á mér, enda ófá skiptin sem þú sagðir þetta þegar þú vildir fá fleiri myndbönd.

Mér þykir mjög vænt um þá dýrmætu stund að fá að vera með ykkur mömmu þegar þið giftuð ykkur í sumar. Það var líka í síðasta skiptið sem þú gistir hjá okkur og verð ég alltaf þakklát fyrir þá samveru. Það var svo gott að geta dekrað við þig meðan þú hafðir það notalegt í horninu þínu í sófanum. Að elda fyrir þig nautalund og béarnaise sem var svo „mjúkt undir góm“ og færa þér sveskjugraut með rjóma í eftirrétt öll kvöld.

Mikið sem ég er þakklát fyrir þig og einstaka sambandið sem við áttum. Ég á eftir að sakna daglegu símtalanna frá þér. Þegar þú hringdir á kvöldmatartíma til að vita hvað væri í matinn, þegar þú hringdir til að tala við krakkana og bara öll símtölin sem voru um allt og ekkert. Ég á eftir að sakna þess að hlæja að ruglinu í þér. Ég á eftir að sakna þess að fá þig í heimsókn í gistingu og gefa þér gott að borða og dekra við þig. Mest af öllu mun ég sakna stundanna með þér, hlátursins þíns, brandaranna og fíflaskaparins.

Börnin mín, Hildimar Ingi og Aþena Hjördís, elskuðu afa Snorra svo mikið. Þér fannst svo gaman að fylgjast með þeim í daglegu lífi. Ég er ótrúlega þakklát fyrir þann tíma sem þau fengu með þér og þú með þeim.

Elsku pabbi minn, ég elska þig svo mikið og mun sakna þín alla tíð.

Ó, pabbi minn, ég dáði þína léttu lund.

Leikandi kátt, þú lékst þér á þinn hátt.

Ó, pabbi minn, hve undursamleg ást þín var.

Æskunnar ómar ylja mér í dag.

(Þorsteinn Sveinsson)

Þín pabbastelpa,

Sara Rut.

Í dag kveð ég ástkæran föður minn, Snorra Hildimar Jónsson, sem er fallinn frá langt fyrir aldur fram.

Faðir minn var einstök manneskja, öflugur og hjartahlýr með sterkan karakter og skemmtilega kímni. Hann var þó fyrst og fremst fjölskyldumaður. Hann átti fjögur börn, tvö tengdabörn og þrjú barnabörn, en fjölskyldan hans var enn stærri því hann átti einnig fimm systur með tilheyrandi börnum, barnabörnum og barnabarnabörnum. Hann elskaði fjölskylduna sína óendanlega og var stoltur af henni allri. Alla tíð fannst mér magnað hversu mikinn kærleik hann bar í brjósti til allra sinna nánustu, vina sinna og þeirra sem sýndu honum virðingu og vinsemd á lífsleiðinni. Hann sá alltaf það góða í fólki og var fjarri því að tala illa um nokkurn mann.

Hann var alltaf reiðubúinn að leggja sjálfan sig til hliðar fyrir fjölskylduna og setti þarfir annarra ávallt í fyrsta sæti. Hann gaf af sér í hverju sem hann tók sér fyrir hendur og lét ekkert stöðva sig í því að sjá fyrir ástvinum sínum. Það var ekki óvanalegt að hann gæfi frá sér það síðasta sem hann átti, ef það gæti veitt fjölskyldunni smá huggun eða þægindi.

Þrátt fyrir að samband okkar hafi ekki alltaf verið auðvelt, þá þróaðist það á síðari árum í náið og sterkt samband. Við feðgarnir hringdumst á oft í hverri viku og gátum spjallað klukkutímunum saman. Í símtölum okkar sagði faðir minn mér sögur úr lífi sínu, sérstaklega frá sjómennskunni, sem ég hafði alltaf gaman af að heyra, jafnvel þótt þær væru sagðar í fjórða eða fimmta sinn. Við höfðum ómælda ánægju af því að ræða saman og vera hvor öðrum til dægrastyttingar.

Faðir minn treysti mér fyrir því nýverið að hans mesta eftirsjá í lífinu væri hvernig samband okkar hafði verið á mínum unglingsárum. Mér var því ómetanlegt að fá tækifæri til að fyrirgefa honum áður en hann kvaddi þennan heim. Það veitir mér mikla huggun að vita að nú er faðir minn laus við þær þjáningar sem fylgdu veikindunum sem plöguðu hann síðustu tíu ár lífsins. Ég trúi því að hann sé nú kominn til föður síns og annarra ástvina sem á undan honum fóru, og fylgist nú með okkur öllum sem honum voru kærir.

Elsku pabbi, ég þakka þér fyrir allt sem þú gafst mér á lífsleiðinni. Við munum hittast á ný hinum megin.

Þó í okkar feðrafold

falli allt sem lifir

enginn getur mokað mold

minningarnar yfir.

(Bjarni Jónsson frá Gröf)

Þinn sonur,

Sigurður Aron.

Elsku hjartans uppáhalds og besti bróðir minn er nú fallinn frá eftir 10 ára baráttu við krabbamein. Eini bróðir minn, sem ég hef dýrkað og dáð frá því að ég var lítil stúlka. Á milli okkar Snorra voru 20 ár og vildi Snorri ólmur fá að halda litlu systur sinni undir skírn þegar kom að því að gefa mér nafn. Fyrir skírnina keypti hann sér ný græn jakkaföt því hann ætlaði sko að gera þetta með stæl sem hann og gerði.

Snorri bróðir var alltaf svo góður við mig, dekraði mig upp úr skónum og var alltaf stórtækur hvað gjafir varðaði. Hann fylgdist alltaf vel með öllu fólkinu sínu, vildi öllum vel og allt fyrir alla gera. Hann Snorri bróðir var stoltur af fólkinu sínu og naut þess að hafa það í kringum sig. Ég var svo heppin að fá Snorra oft í heimsókn þegar hann var ýmist á leið á sjó eða á heimleið þegar hann stundaði sjómennskuna frá Siglufirði. Oftar en ekki var hann veðurtepptur svo við fengum að njóta nærveru hans lengur fyrir vikið. Í mars árið 2013 var elsku Snorri veðurtepptur hjá mér en ekki hafði verið flogið frá Akureyri í tvo daga. Að morgni 8. mars vakna ég með hríðar, er eitthvað að kveinka mér inni í herbergi þegar ég heyri hann kalla úr stofunni: „Erna mín, get ég eitthvað hjálpað þér?“ Ég sprakk úr hlátri og sagði honum að ég hreinlega sæi ekki fyrir mér hvernig hann ætlaði að hjálpa mér að koma blessuðu barninu í heiminn! Við rifjuðum þetta oft upp og hlógum saman að þessu. Ég lofaði honum að ég skyldi fæða barnið fyrir hádegi svo hann gæti fengið að sjá það áður en hann færi vestur ef það yrði nú flogið. Ég stóð við mitt loforð og elsku Snorri minn var mættur upp á sjúkrahús að knúsa litlu frænku sína áður en hann flaug af stað vestur. Ástrós Lea mín kallaði svo Snorra bróður alltaf Snorra afa og ekki þótti honum það nú leiðinlegt.

Snorri var alltaf góður við börnin mín, sýndi þeim áhuga og hvatti þau til dáða. Við vorum svo heppin að fá að fara með Snorra og fjölskyldu til Tenerife árið 2016 en það árið urðum við Snorri samtals 100 ára. Ferðin var dásamleg og til allrar hamingju á ég margar myndir frá þeirri ferð sem gott er að ylja sér við í sorginni. Ástrós Lea mín hafði á orði eftir að Snorri okkar lést að nú myndi enginn hringja í heimasímann okkar framar þar sem Snorri var sá eini sem gerði það. Elsku bróðir minn reyndi að hringja í okkur hjónin sólarhring áður en hann dó og mikið vildi ég óska að ég hefði getað svarað í símann. Ég hugga mig þó við að ég veit af hverju hann reyndi að hringja, hann ætlaði að óska okkur til hamingju með nýju íbúðina.

Elsku Snorri minn, það er margs að minnast og margs að sakna. Ég óska þess innilega að þér líði vel í sumarlandinu og efast ekki um að pabbi og Andri Fannar hafi tekið vel á móti þér. Elsku bróðir minn, ég elska þig að eilífu.

Elsku Þórhildur, Rannveig, Sara Rut, Sigurður Aron, Hafþór Smári, mamma og systur mínar. Megi góður guð styrkja okkur öll í sorginni.

Þín litla systir,

Erna.

Okkur setti hljóða um borð í Sigurborgu SH-12 þegar við fréttum af andláti Snorra þann 22. ágúst síðastliðinn.

Snorri Hildimar Jónsson var með okkur á gömlu Sigurborginni frá 2008 til 2017 eða hartnær tíu ár. Hann var duglegur og samviskusamur starfsmaður sem vildi alltaf hafa hlutina í lagi. Einnig var hann einstaklega kappsamur þegar hann leysti af sem stýrimaður og vildi alls ekki vera eftirbátur annarra. Við eigum margar góðar minningar um hann en Snorri var góður félagi og vinur og var oft glatt á hjalla í borðsalnum. Hann var hrekklaus og góðhjartaður maður sem talaði aldrei illa um nokkurn mann. Helst þótti honum gaman að spjalla og oftar en ekki stoppaði hann til að spjalla við ferðamenn á bryggjunni þegar við komum í land. Honum var tíðrætt um börnin sín og fjölskyldu sem honum þótti vænt um.

Snorri átti við heilsuleysi að stríða síðustu ár sem varð til þess að hann þurfti að hætta störfum og var mikill missir að honum. Sendum við eiginkonu hans, börnum og fjölskyldu samúðarkveðjur.

Áhöfnin á Sigurborgu SH-12,

Ómar Þorleifsson,
Guðmann S. Jóhannesson, Ingi Guðni Guðmundsson.