„Við unnum mjög vel saman alla vikuna. Við erum búnir að vera að vinna markvisst í sömu hlutum alveg síðan í mars og Sölvi Geir Ottesen á mjög stórt hrós skilið fyrir sína innkomu í þjálfarateymið. Hann einbeitti sér að varnarleiknum og föstu…

Við unnum mjög vel saman alla vikuna. Við erum búnir að vera að vinna markvisst í sömu hlutum alveg síðan í mars og Sölvi Geir Ottesen á mjög stórt hrós skilið fyrir sína innkomu í þjálfarateymið. Hann einbeitti sér að varnarleiknum og föstu leikatriðunum og þau skiluðu sér svo sannarlega í kvöld,“ sagði Åge Hareide landsliðsþjálfari eftir sigurinn gegn Svartfjallalandi en Sölvi Geir kom inn í þjálfarateymið fyrir leikinn.

„Þetta sýnir okkur svart á hvítu að ef þú vinnur nógu lengi í ákveðnum hlutum, þá gerast góðir hlutir. Þeir sem komu inn á stóðu sig líka vel, sem er mjög mikilvægt fyrir okkur því við þurfum leikmenn á bekknum sem geta breytt leikjunum fyrir okkur,“ sagði Hareide.

„Ég var virkilega ánægður með þetta mark. Þetta var smá óvænt en gaman,“ sagði Jón Dagur Þorsteinsson sem fagnaði sínu fyrsta skallamarki fyrir landsliðið með því að taka dans til heiðurs Alfreð Finnbogasyni sem lagði landsliðsskóna á hilluna á dögunum.

„Alfreð gerði þetta á móti Úkraínu og ég spilaði í treyjunni hans í fyrsta skipti í dag. Við töluðum um það fyrir leikinn að það væri kominn tími á sigur í þessari keppni og það hafðist. Við höfðum beðið lengi eftir sigri í Þjóðadeildinni. Auðvitað getum við spilað aðeins betur. Aðstæður buðu kannski ekki upp á einhvern svakalegan leik en við vorum þéttir og flottir í dag,“ sagði Jón Dagur.