Á leið í Landmannalaugar
Á leið í Landmannalaugar — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Ekkert forsetaefni eða forseti hefur setið undir öðrum eins ákærum og ásökunum og Donald Trump hefur þolað í aðdraganda kosninganna sem nú fara fram. Þeir, sem helst héldu um spottana á brúðuheimili Hvíta hússins, lögðu svo sannarlega sitt af mörkum. Engu var líkara en þeir tryðu því, að ef dómsmálaráðuneytið, svo vel mannað sem það er, ákvæði eitthvað, þá væru því allir vegir færir og hreint aukaaðriði hvort aðgerð væri lögleg eða ekki.

Þá er þessi lokalota hafin vestra, og verður ekki aftur snúið, enda aðeins örfáar vikur til kjördags, þann 5. nóvember nk. Og það er næstum sama hvert litið er, þegar horft er á þetta pólitíska brask, sem er óneitanlega og iðulega „ljót sjón lítil“, en á móti kemur, að sumt verður stundum allt að því skemmtilega skrítið, þótt það hafi ekki endilega staðið til.

Óvæntur fundur, en þó ekki með öllu óvæntur

Í vikunni hélt dómsmálaráðherra Bandaríkjanna „óvæntan“ og fjölmennan blaðamannafund og var með forstjóra FBI, hinnar frægu og fjölmennu alríkislögreglu, við hlið sér, auk nokkurra pótintáta, sem lögðu fátt til mála, en voru sjálfsagt hafðir til skrauts og til að ýta undir þá tilfinningu að málið væri alvarlegt, sem blasti ekki endilega við.

Mörgum varð sjálfsagt á að segja sem svo, við sjálfa sig: „Hef ég ekki séð þetta leikrit nokkrum sinnum áður?“ Og það var mikið rétt, því að svipað háttalag hafði verið haft í frammi eftir kosningarnar 2016.

Donald Trump vann þær forsetakosningar það sinnið, þótt naumlega væri það. En nú síðast var Trump orðinn frambjóðandi á ný. En þá fór nú yfirgangurinn og misnotkun bandaríska dómsmálaráðuneytisins algjörlega út fyrir öll fyrri mörk. Hin persónulega ástæða ráðherrans, Merricks B. Garlands, er aðallega talin stafa frá einu sérstöku atriði. Merrick Garland hafði sóst fast eftir því að verða einn af níu dómurum í Hæstarétti Bandaríkjanna, þegar þar losnaði staða, en þegar þau atvik komu upp, þá var mjög skammur tími til loka kjörtímabils. Repúblikanar vonuðust til að vinna Hvíta húsið 2016 og vildu láta á það reyna. Tíminn til að hefja hefðbundnar yfirheyrslur um dómaraefni var skammur og þegar ljóst var Hillary Clinton varð að láta í minni pokann fyrir Donald Trump varð augljóst að Garland hafði þar með misst af sínu tækifæri og hann tók því vægast sagt ekki vel.

Eftir þessa atburði þá virðist það hafa orðið eins konar meinloka eða kækur að óhætt væri og viðeigandi að siga mætti hinu opinbera kerfi, dómsvaldinu sem öðru, á Donald Trump með miklum fjölbreytileika og raunar allt að því takmarkalausri ósvífni í valdbeitingu. Og svo hefur þetta orðið eins konar kækur, í aðdraganda kosninga á fögurra ára fresti, þegar Trump er fórnarlambið, og yfirgengilega langt var gegn honum farið. En þó einkum og oftast þegar pótintátarnir og stjórnendur þeirra telja ástæðu til að ætla, eða öllu heldur, að raunveruleg ógn og hætta gætu bent á, að úrslitin yrðu hugsanlega önnur en að var stefnt, og fyrrgreindir höfðu gengið út frá.

Ekkert forsetaefni eða forseti hefur setið undir öðrum eins ákærum og ásökunum og Donald Trump hefur þolað í aðdraganda kosninganna sem nú fara fram. Þeir, sem helst héldu um spottana á brúðuheimili Hvíta hússins, lögðu svo sannarlega sitt af mörkum. Engu var líkara en þeir tryðu því, að ef dómsmálaráðuneytið, svo vel mannað sem það er, ákvæði eitthvað, þá væru því allir vegir færir og hreint aukaaðriði hvort aðgerð væri lögleg eða ekki.

Dómsmálaráðuneyti blæs út ákærur sem ekki er fótur fyrir

Og dómsmálaráðuneytið brást ekki vondum málstað og lét blása til ákæru í hinum og þessum ríkjum gegn Donald Trump og myndi, að auki, leggja til, eða skaffaði svo lítið bæri á, helstu ákærendur úr ráðuneytinu, til að standa á hliðarlínunni, en þeir sem minna gætu yrðu látnir vinna óverðugri verkin.

Bersýnilega gátu helstu stjórnendur í dómsmálaráðuneytinu og samstarfsmenn þeirra í Hvíta húsinu ekki ímyndað sér, að Donald Trump stæði af sér slíkar ákærur, þar sem óbilgjarnar kröfur yrðu gerðar um að hann, sem var bundinn við kosningabaráttu eins og andstæðingurinn, yrði að flundrast um allt, en væri jafnframt skikkaður til að sitja í dómssal í miðri baráttu sinni, sem bitnaði rækilega á henni. En ekki síst var talið, að ef það mundi takast með afli ráðuneytisins að niðurlægja þennan fyrrverandi forseta landsins myndi það stórskaða möguleika hans til að vinna að kosningunum. Það var dæmi um vinnubrögðin og kuldann að fyrrverandi forseta var gert skylt að mæta í hrörlegt fangelsi, svo taka mætti af honum hefðbundna mynd af glæpamanni. En almenningur spurði sjálfan sig og opinberlega: Er þetta það brýnasta, að láta Trump fara um langan veg til að fá þessa niðurlægingu? Af hverju þarf að fá þessa einu mynd? Þarna á í hlut mest ljósmyndaði maður landsins!

En Joe Biden sagði að með þessari sérstöku myndatöku mætti í framhaldinu kalla Trump hinn sakaða glæpamann (felon) eða annað þess konar. Biden byrjaði á þessu, en fékk þannig viðtökur, að hann snautaði til að hætta því. Þegar Trump ók úr fangelsinu þá röðuðu Bandaríkjamenn sér, og þá ekki síst blökkumenn, og fylltu gangstéttirnar og fögnuðu „forsetanum sínum“. Hinum kærða glæpamanni! En það var eitt og annað sem þessir háttsettu embættismenn, undir forystu dómsmálaráðherrans, höfðu ekki reiknað með að gæti gerst. Fyrrverandi forsetinn mætti í hið hrörlega fangelsi. Myndin, sem átti að gera út af við hann, var tekin og birt í þeim fjölmiðlum, þar sem aðalefnið var daglegur hræðsluáróður um Donald Trump. En dómsmálaráðuneytinu og hinum fjölmennu pótintátum þar gat ekki dottið í hug að Trump hafði fengið eintak af glæpamannsmyndinni, lét stækka hana og prenta á boli og skyrtur og selja í hundraða þúsunda tali og myndirnar runnu út eins og heitar lummur og stækkuðu kosningasjóð Trumps verulega!

Bjálfaréttarhöldin hjálpa líka

En þótt Trump væri skikkaður til að sitja undir bjálfaréttarhöldum daginn inn og út, þá fór hann í lok þessara ónýtu daga á opna fundi síðdegis, sem urðu sífellt fjölmennari. Og þessar ósvífnu ásakanir, og óstöðvandi ferðalög hans út um allar koppagrundir, urðu til þess að skoðanakannanir sýndu öran vöxt á fylgi við myndaða manninn, sem átti að drepa.

Og nú skulu nefnd síðustu tilbrigðin, sem búið er að nota svo oft, að Trump sé í bandalagi við Pútín forseta Rússlands og nú bætist enn við bjálfatalið þegar fullyrt er, að þeir „bræður“ myndu tryggja þeim bandaríska sigur í þeim kosningum sem þá voru efstar á baugi! Ein síðasta tilraunin til að sanna þennan fáránleika var að fá Robert S. Mueller í verktöku, en hann hafði áður gegnt forstjórastöðu í FBI í 12 ár, og var sem sagt gamall og virtur forstjóri FBI. Hann fékk fjölmennt rannsóknarlið með sér, til að sitja yfir því, í tvö heil ár, við það að rannsaka þetta mál svo „alvarlegt sem það væri“.

Það gerði málið tortryggilegt í augum sumra, að Mueller réð helst og jafnvel eingöngu hatursmenn forsetans til að aðstoða sig við „rannsóknina“. En eftir full tvö ár komst fyrrverandi forstjóri FBI að því, að hann, með öllu sínu liði, gæti ekki fundið eitt eða neitt, sem passaði við innihald ímyndunarveikinnar.

En allan þann tíma, sem „rannsóknin mikla“ fór fram, þá létu demókratar og fjölmiðlar þeirra, eins og að þetta tæki svo langan tíma og svo marga aðstoðarmenn hefði þurft til, því að svindlið og samsærið af hálfu Trumps væri svo alvarlegt!

En málið koðnaði niður eftir tvö ár með þeirri niðurstöðu, að þrátt fyrir ofurleit og óendanlega peninga, þá hefði ekkert komið í ljós. Og höfðu hatursmennirnir í rannsóknarteyminu þó, svo sannarlega, hvergi sparað sig. Og í liðinni viku var enn reynt að veifa Pútín, enda fer auðvitað vel á því að klappa leikrit upp aftur, einkum þó ef áhorfendur, með ríka samkennd um vegi réttlætisins, fylla sal leikhússins það sinnið. Og það var rækilega gert. Því fyrir fjórum árum, þá mætti hópur manna, sem leit mjög stórt á sig, inn á völlinn. Þetta var nokkrum vikum fyrir forsetakosningarnar 2020. Hver gat efast um að 50 menn úr röðum helstu trúnaðarstofnana spíóna í efstu lögum gætu farið með svona fleipur? Sem dæmi má nefna, að flestir af 50 manna vísdómshópnum höfðu nýlega hætt í „virtustu“ leyniþjónustum Bandaríkjanna, og þeir upplýstu nú um það, að tölvur og harðir diskar frá Hunter Biden hefðu komið úr ætt Pútíns. Um það gæti enginn efast eftir yfirferð snillinganna. Einn af þessum silfurgljáðu mönnum, sem skrifuðu undir ruglandann í plagggarminum, sem var eins falskt og orðið gat, var til að mynda Tony Blinken núverandi utanríkisráðherra! Eftir þessa yfirlýsingu hvarf öll umræða úr flestum fjölmiðlum, en þessir pappírar voru tilkynntir þegar tæpur mánuður var í kosningar. Nokkrum árum síðar viðurkenndi FBI að þeir hefðu allan tímann verið með þessi gögn og tæki í sínum fórum!

Áhugaverður pistill

Ásgeir Ingvarsson skrifaði áhugaverðan pistil í Viðskiptamoggann 4. september síðastliðinn.

Upphafsorðin voru á þessa leið:

„Víða virðist hafa verið búið þannig um hnútana að sjónarmið hægrimanna fá síður að heyrast og marga langar að stýra umræðunni ofan frá.“

Svo sagði: „Nýlega rakst ég á brandara á Facebook sem fangar ástandið nokkuð vel: „Demókratar þurfa nauðsynlega að koma böndum á tjáningarfrelsið, siga réttarkerfinu á andstæðinga sína og hagræða niðurstöðum kosninganna – ef þeim á að takast að bjarga lýðræðinu!“

Tilgangurinn og meðalið

Að undanförnu hafa komið upp nokkur merkileg mál sem ættu að vekja vinstrimenn til umhugsunar um hvernig þeirra eigin herbúðir reyna að fá sínu framgengt. Það má alveg finna nóg af slúbbertum í röðum hægrimanna en mér getur ekki annað en þótt það skrítið hve algengt er að sjá fólk á vinstrivæng stjórnmálanna beita alls konar bolabrögðum og ganga fram af miklu meira vægðarleysi og fantaskap en hægrimenn gera yfirleitt.

Það sem gerir fólskuna hjá vinstrinu sérstaklega sláandi er að vinstrimenn líta einmitt á sig sem uppljómaða málsvara réttlætis og góðmennsku. Trekk í trekk hefur það gerst í mannkynssögunni – og gerist víst enn – að vinstrimenn líta á sinn eigin málstað sem svo afburðagóðan að þeim þykir réttlætanlegt að gera nánast hvað sem er til að gera göfug markmið sín að veruleika.

Er það ekki annars skrítið að það virðist erfitt að koma á samfélagi eftir höfði vinstrimanna öðruvísi en með valdi og þvingunum? Kannski það segi eitthvað um grundvallarmuninn á frjálshyggjunni annars vegar og jafnaðarstefnunni hins vegar, að síðarnefnda stefnan virðist alltaf kalla á að beita fólk hörku.“