Friðjón R. Friðjónsson
Friðjón R. Friðjónsson
Kannski þarf að kalla saman ríki, sveitarfélög, Alþingi og vinnumarkaðinn í allsherjarátak um framboð lóða og losun hindrana.

Friðjón R. Friðjónsson

Ágreiningur sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu um vaxtarmörk húsnæðisuppbyggingar er þessa dagana að brjótast upp á yfirborðið. Sú staðreynd að varaborgarfulltrúi Viðreisnar, með færri atkvæði á bak við sig en fjórði varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, fer í reynd með neitunarvald þróunar húsnæðisuppbyggingar á höfuðborgarsvæðinu stendur í mörgum og getur ekki talist lýðræðisleg.

Borgarstjórnarmeirihlutinn í Reykjavík, sem myndaður var um stefnumál Samfylkingarinnar undir forystu oddvita Framsóknarflokksins, vinnur gegn því að framboð á húsnæði verði aukið með meira lóðaframboði. Framsóknarmenn annars staðar á höfuðborgarsvæðinu átta sig á stöðunni og reyna að benda á að nauðsynlegt er að brjóta nýtt land undir byggð. Meira að segja aðstoðarmaður formanns Framsóknarflokksins, sem þar til í vor fór með yfirstjórn skipulagsmála í landinu, sagði á opnum fundi á dögunum að þéttingarstefnan væri allt of dýr og tæki allt of langan tíma.

Aukið lóðaframboð

Húsnæðisliðurinn stendur undir stórum hluta verðbólgu í landinu og þar af leiðandi vaxtastiginu. Allir fagaðilar á markaði eru sammála um að auka þurfi framboð á lóðum. Borgarstjórnarmeirihlutinn er á öndverðum meiði og er fastur í kreddu þéttingarstefnu. Einu sinni hreyktu framsóknarmenn sér af því að þeir væru lausnamiðaðir, þess vegna væru þeir framsóknarmenn. Það er því furða að Framsóknarflokkurinn í Reykjavík sé búinn að kokgleypa stefnu sem ein og sér veldur ómældum skaða á húsnæðismarkaði. Þétting er nauðsyn í bland, en ein og sér í hverfum með sprungna innviði veldur hún skaða. Hún getur ekki verið eina svarið á húsnæðismarkaði með þúsundir íbúða í skuld.

Endurskoðun vaxtarmarka

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu til um miðjan febrúar sl. að hafin yrði vinna við endurskoðun aðalskipulags með hliðsjón af aukinni eldvirkni í námunda við höfuðborgarsvæðið. Þá var lagt til að vaxtarmörk borgarinnar yrðu endurskoðuð með það fyrir augum að útvíkka afmörkun þéttbýlis innan Reykjavíkur og að skilgreining aðalskipulags á uppbyggingarreitum fyrir nýja íbúðabyggð yrði endurskoðuð, meðal annars svo að unnt yrði að auka íbúðamagn á Kjalarnesi og tryggja möguleika á nýrri byggð á svæðum aðliggjandi Sundabraut.

Meirihluti borgarstjórnar samþykkti að vísa tillögum sjálfstæðismanna til starfshóps um húsnæðisátak, en bókuðu þann fyrirvara að ekki stæði til að útvíkka vaxtarmörk höfuðborgarsvæðisins. Borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins mun því að nýju leggja til að vaxtarmörkin verði endurskoðuð hið fyrsta.

Svæðisskipulagið vantelur okkur

Fram kemur í gögnum Samgöngusáttmálans að gert er ráð fyrir að mannfjöldi á höfuðborgarsvæðinu aukist að meðaltali um 1,8% á ári næstu 16 árin. Það þýðir að íbúar höfuðborgarsvæðisins verði 325.284 árið 2040. Það stemmir við síðastliðinn áratug, þegar íbúum á Íslandi fjölgaði að meðaltali um 1,84% á ári og á höfuðborgarsvæðinu um 1,8%, Covid-fækkun og hælisleitendafjölgun meðtalin. Þetta þýðir að við megum búast við því að á höfuðborgarsvæðinu fjölgi okkur um 80 þúsund manns næstu 16 árin.

Svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins og vaxtarmörk þess gera ráð fyrir að okkur fjölgi um 70 þúsund. Þar munar bara einni Árborg, (Selfoss, Stokkseyri og Eyrarbakki fyrir þau okkar sem enn vinna með þau nöfn).

Þessu gati til viðbótar má nefna íbúðaskuldina sem er fyrir, skuld sem ýtir fólki í ósamþykkt og óboðlegt húsnæði. Talið er að óuppfyllt íbúðaþörf á höfuðborgarsvæðinu sé allt að 15 þúsund íbúðir, eða húsnæði fyrir 30 þúsund manns

Við þetta allt bætist síðan að áætlanir Reykjavíkurborgar gera ráð fyrir 15 þúsund manna byggð í Vatnsmýri á næstu 16 árum. Byggð sem augljóslega mun ekki rísa. Sama hvað fólki finnst um flugvöllinn í Vatnsmýri er ljóst að hann verður þar sem hann er að minnsta kosti næstu 16 árin.

Ábyrgðin hvílir hjá Samfylkingunni

Það þarf ekki að leita langt yfir skammt til að finna þá sem bera ábyrgð á þessu ástandi. Þar er lykilþáttur skortstefna Reykjavíkurborgar í húsnæðismálum, húsnæðisstefna Samfylkingarinnar. Sama flokks og ætlar næst að bera ábyrgð á landinu öllu, því svo vel gengur í Reykjavík.

Það blasir við að það þarf að kalla saman ríki, sveitarfélög, Alþingi, atvinnurekendur og verkalýðshreyfinguna í allsherjarátak sem ýtir til hliðar gildandi hindrunum og hefja alvöru húsnæðisátak sem skilar húsum og íbúðum fyrir fólk. Það er frumskylda okkar stjórnmálamanna að vinna fyrir fólk og búa þannig um hnútana að það geti hjálpað sér sjálft. Þak yfir höfuðið er frumþörf, próf sem við erum að falla á. Tími orða og glærusýninga er liðinn. Tími aðgerða er fyrir löngu runninn upp.

Höfundur er borgarfulltrúi og varaþingmaður.

Höf.: Friðjón R. Friðjónsson