Einar Jónsson hefur komist að samkomulagi við handknattleiksdeild Fram um að þjálfa karlalið félagsins áfram til sumarsins 2026. Hann þjálfaði bæði karla- og kvennalið Fram á síðasta tímabili og hefur þjálfað karlaliðið frá árinu 2021

Einar Jónsson hefur komist að samkomulagi við handknattleiksdeild Fram um að þjálfa karlalið félagsins áfram til sumarsins 2026. Hann þjálfaði bæði karla- og kvennalið Fram á síðasta tímabili og hefur þjálfað karlaliðið frá árinu 2021. Hann mun jafnframt halda áfram afreksþjálfun og þjálfun yngri flokka.

KR-ingar hafa fengið til liðs við sig lettneska körfuboltamanninn Linards Jaunzems en hann kemur til Vesturbæjarliðsins frá Ventspils þar sem hann hefur leikið undanfarin þrjú ár. Jaunzems er 28 ára gamall framherji, tveir metrar á hæð, og hefur leikið allan sinn feril í sameiginlegri úrvalsdeild Lettlands og Eistlands. Hann var valinn besti leikmaður deildarinnar á síðasta tímabili.

Grindvíkingar skoða möguleika á að kvennalið þeirra í knattspyrnu sameinist öðru félagi fyrir næsta tímabil en Haukur Guðberg Einarsson formaður knattspyrnudeildar félagsins staðfesti við mbl.is í gær að viðræður um það væru farnar af stað. Grindavík leikur í 1. deild og er öruggt með áframhaldandi sæti þar fyrir lokaumferðina sem er leikin í dag.

Handknattleiksmaðurinn reyndi Ólafur Gústafsson leikur ekki með FH næstu fjórar til sex vikurnar vegna meiðsla í hné en handbolti.is skýrði frá þessu í gær. Ólafur kom til FH eftir tólf ára fjarveru í sumar en hann hefur spilað með KA undanfarin fjögur ár.

Ítalir unnu góðan útisigur á Frökkum í París, 3:1, í fyrstu umferð A-deildar Þjóðadeildar karla í fótbolta í gærkvöld. Bradley Barcola kom samt Frökkum yfir á fyrstu mínútu leiksins en Federico Dimarco, Davide Frattesi og Giacomo Raspadori svöruðu fyrir Ítali.

Kevin De Bruyne skoraði tvö mörk fyrir Belga sem sigruðu Ísraelsmenn, 3:1, og Youri Tielemans skoraði eitt mark. Mark Ísraels var sjálfsmark.

Framherjinn Baris Yilmaz fékk rauða spjaldið þegar Tyrkir gerðu jafntefli í Wales, 0:0, í riðli Íslands og verður í banni gegn Íslandi. Þá meiddist tyrkneska ungstirnið Arda Güler í leiknum.