Gunnar fæddist á Hjalla við Grenivík 28. ágúst 1947. Hann lést 28. ágúst 2024.

Foreldrar hans voru þau Kristinn Jónsson, bóndi á Hjalla á Látraströnd, síðar kennari og skólastjóri á Grenivík, og Steingerður Kristjánsdóttir, húsfreyja á Hjalla og Grenivík, seinni kona Kristins.

Gunnar var ókvæntur og barnlaus. Hann tók stúdentspróf frá Menntaskólanum á Akureyri vorið 1968. Gunnar starfaði við ýmislegt á Grenivík, m.a. í fiski. Mest vann hann þó við búskap og bjó með nokkrar kindur á Hjalla og ræktaði þar kartöflur. Skömmu eftir stúdentsprófið fór hann til Noregs til að kynna sér minkarækt. Hafði hann hugmyndir um að setja upp minkabú í Eyjafirði en aldrei varð þó af því enda margir aðrir á undan honum með bú. Hann vann þó við minkabú um skeið þar.

Á menntaskólaárunum stundaði Gunnar frjálsíþróttir og þó mest hlaup. Stundum hljóp hann úr skólanum á Akureyri og alla leið heim til Grenivíkur og blés vart úr nös. Hann tók þátt í landsmótum.

Útför hans fer fram frá Grenivíkurkirkju í dag, 7. september 2024, klukkan 14.

Við Gunnar áttum stundum samleið úr MA og niður í bæ, stundum kom hann með á Kaffi-Teríuna undir Hótel KEA. Hann var bindindismaður bæði á vín og tóbak og stundum predikaði hann yfir mér fyrir hvort tveggja. Urðum við ágætir mátar.

Gunnar byggði forláta einbýlishús á Grenivík, sem Vífill Magnússon arkitekt teiknaði fyrir hann. Aldrei bjó hann þó í því húsi heldur alla tíð í Sólvangi, æskuheimili sínu, með Steingerði móður sinni.

Á síðustu árum fór að bera á sjónleysi hjá Gunnari og endaði það með því að hann varð alveg blindur. Hann naut umönnunar geðdeildar á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri og lést þar á sjötíu og sjö ára afmælisdaginn.

Ég heimsótti hann ásamt konu og dóttur er hann bjó á Hjalla og einstaka sinnum gistum við í Sólvangi. Var þá alltaf vel tekið á móti okkur og hlaðborð bæði kvölds og morgna. Var gaman að kynnast Steingerði. Við Gunnar héldum sambandi lengst af en slitrótt var það þó orðið að lokum eins og gerist.

Ég votta ættingjum samúð mína og kveð Gunnar með þakklæti fyrir góðar samverustundir.

Hrafn Andrés.