Jarðminjalisti Staðir sem hafa mikilvægt alþjóðlegt vísindagildi.
Jarðminjalisti Staðir sem hafa mikilvægt alþjóðlegt vísindagildi. — Morgunblaðið/RAX
Reykjanes og Vatnajökull eru komin á lista Alþjóðajarðfræðisambandsins (IUGS) um 100 jarðminjastaði á jörðinni. Þetta var kynnt á alþjóðlegri jarðfræðiráðstefnu sem haldin var nýverið í Busan í Suður-Kóreu og Náttúrufræðistofnun greinir frá á heimasíðu sinni

Óskar Bergsson

oskar@mbl.is

Reykjanes og Vatnajökull eru komin á lista Alþjóðajarðfræðisambandsins (IUGS) um 100 jarðminjastaði á jörðinni. Þetta var kynnt á alþjóðlegri jarðfræðiráðstefnu sem haldin var nýverið í Busan í Suður-Kóreu og Náttúrufræðistofnun greinir frá á heimasíðu sinni.

Markmið með útgáfu jarðminjalista er að vekja athygli á mikilvægi jarðminja til fræðslu og þekkingar og stuðla að varðveislu merkra jarðminjastaða.

Þetta er í annað sinn sem IUGS tekur saman lista yfir merka jarðminjastaði. Ráðgert er að listar IUGS verði þrír og mun sá þriðji birtast á árinu 2026. Til að komast á jarðminjalista IUGS þurfa jarðminjastaðir að hafa mikið alþjóðlegt vísindagildi.

Náttúrufræðistofnun tilnefndi eldstöðina Reykjanes á jarðminjalista IUGS sem alþjóðlegan mikilvægan jarðminjastað vegna tengingar hans við Mið-Atlantshafshrygginn.

Alþjóðlegt samband landmótunarfræðinga tilnefndi Vatnajökul sem alþjóðlega mikilvægan jarðminjastað vegna samspils jökuls og eldvirkni. Jökulhlaup og sandar eru fágæt fyrirbæri í heiminum og við Vatnajökul finnast dæmi um þau sem eru á meðal þeirra bestu.

Vatnajökull er þjóðgarður og á heimsminjaskrá UNESCO.