Jóhanna Margrét Öxnevad fæddist 22. maí 1936 í Stafangri í Noregi. Hún lést í Reykjavík 30. ágúst 2024.

Foreldrar hennar voru Lovísa Margrét Þorvarðardóttir, f. 1893 í Skaftholti í Gnúpverjahreppi, og Jörgen Johan Öxnevad, f. 2. febrúar 1883 í Stafangri. Margrét var yngst níu alsystkina. Hin eru: Erling, f. 30. mars 1916, Rasmus, f. 7. júlí 1920, Henrik, f. 7. júlí 1920, Thorbjörg, f. 6. október 1922, Thorbjorn, f. 1923, Thorvard, f. 10. febrúar 1924, Bödvar, f. 11. janúar 1927, og Svanhild Margrete, f. 9. september 1929. Thorbjorn lést á barnsaldri og Thorvard á 17. aldursári í heimsstyrjöldinni síðari þegar skipi sem hann var á var sökkt af Þjóðverjum. Hin systkinin komust öll á fullorðinsár og er frændgarðurinn stór. Margrét sem var yngst lifði systkini sín öll.

Hálfsystkini Margrétar samfeðra voru Sverre, f. 22. júlí 1908, Assa Henrikke, f. 27. september 1909, og Rolf Henrik, f. 17. febrúar 1912.

Margrét flutti til Íslands árið 1958. Árið 1960 giftist hún Erlendi Jóhannssyni, f. 10. október 1913 á Hamarsheiði, d. 2001. Dætur þeirra eru þrjár: Björg Eva, f. 1960, maki Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, Vigdís, f. 1963, og Margrét, f. 1966, maki Guðrún Erlingsdóttir.

Barnabörn Margrétar eru Logi Pálsson, kvæntur Ernu Þóreyju Jónasdóttur, Edda Pálsdóttir, gift Pétri Sólmari Guðjónssyni, og Iðunn Pálsdóttir, maki Ari Ásgeir Guðjónsson. Barnabarnabörnin eru orðin fimm talsins, þau Jóhanna Margrét, Edda Katrín og Bjarki Þór Logabörn og dætur Eddu þær Eva María Pétursdóttir og Heiðrún Erla Pétursdóttir. Iðunn og Ari eiga von á dóttur nú í september.

Margrét vann við skrifstofustörf í Noregi í upphafi starfsferils síns. Fyrst eftir að hún kom til Íslands var hún um skeið vinnukona í Mástungu í Gnúpverjahreppi. Eftir að leiðir þeirra Erlendar lágu saman tók við margvíslegt annríki sem fylgir því að vera húsmóðir í sveit. Hjónin voru samhent við uppeldi dætra sinna en þegar þær uxu úr grasi tók hún um árabil að sér barnagæslu og sinnti ýmsum öðrum störfum utan heimilis. Hún starfaði í Búrfelli til margra ára, allt þar til hún flutti til Reykjavíkur árið 2006 þar sem hún bjó til æviloka.

Útför Margrétar fer fram frá Stóra-Núpskirkju í Gnúpverjahreppi í dag, 7. september 2024, klukkan 13.

Margrét Öxnevad tengdamóðir mín var ekki stór og mikil manneskja hvað snerti líkamlegt atgervi. Hún var svo nett og neyslugrönn að hún nánast sveif yfir jörðinni eins og ójarðnesk vera.

En hún hafði stóra sál og eitt er víst, að allt það litla sem hún keypti eða henni áskotnaðist í lífinu, hvort sem það voru föt, húsgögn, tónlist eða bækur, bar vott um fágaðan smekk, allt í kringum hana var fallegt og ekta, hvort sem hún var að hlusta á tónlist, lesa bækur eða rækta blóm og tré. Það var engin ofgnótt en allt átti sinn stað, sinn tíma, í fallegu samhengi allra hluta.

Hún kom hingað til lands, eftir stríð, barn að aldri, ásamt móður sinni, sem var að heimsækja æskustöðvar sínar í Gnúpverjahreppi. Örlögin höguðu því þannig að hún átti eftir að setjast hér að, giftast Erlendi Jóhannssyni, sem var 23 árum eldri, og verða húsmóðir í íslenskri sveit. Hún hafði miklar og sterkar tilfinningar til nýja landsins en hennar norsku rætur voru jafnframt sterkar. Söknuðurinn eftir heimalandinu var alltaf til staðar í sálinni og þannig var hljómmikil norskan undirliggjandi stef í tjáningu hennar, íslenskan tók hana aldrei yfir. Og hún var ávallt unga og nýjungagjarna konan á Hamarsheiði, þótt hún væri orðin aldursforseti og eldra fólkið hefði fyrir löngu kvatt.

Þegar Björg Eva kynnti mig fyrir Margréti mömmu sinni fyrir rúmum tveimur áratugum hreif það mig strax hversu stolt hún var af lífi sínu og afkomendum, hvað hún var ungleg, lifandi og áhugasöm, klár og vel að sér. Og hún var skemmtileg, fyndin á sinn ísmeygilega hátt og sagnabrunnur þegar kom að lífinu í Stavanger og örlögum eldri bræðra hennar í stríðinu.

Oft hefur það sjálfsagt verið einmanalegt hlutskipti að vera norska konan í afskekktri sveit, unga konan í hópi roskinna sveitamanna eins og dálítið viðkvæmnisleg, litrík en þó furðulega harðgerð jurt í hrjóstrugum, sérviskulegum blómagarði efst á íslenskri heiði. En allir sem þekkja til vita að einmitt þetta sérstaka blóm tilheyrir þessum garði, og þótt það blási stundum um það kaldir vindar vill það hvergi annars staðar vera.

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir.

Jóhanna Margrét Øxnevad eða amma Margrét eins og við barnabörnin hennar kölluðum hana var fædd í Stafangri en valdi ung að árum að setjast að á Hamarsheiði með Erlendi Jóhannssyni afa okkar. Við höfum oft hugsað til þess og þá sérstaklega núna þegar við skoðum gamlar myndir og minnumst okkar einstöku ömmu, hvað þessi ákvörðun að flytja úr fremur stórri borg í Noregi upp á Hamarsheiði í Gnúpverjahreppi var stór. En þannig var amma. Hún var óhrædd við að taka stórar ákvarðanir og barðist fyrir betra samfélagi og þá sérstaklega réttindum kvenna. Hún tókst á við hlutina með húmor og mikilli skerpu. Hún hafði líka húmor fyrir sjálfri sér og því þegar litlu hversdagslegu hlutirnir uxu henni í augum.

Ömmu fannst gaman að tala og fólki fannst gaman að tala við hana. Hún átti vini á öllum aldri því hún náði til fólks og þó hún lægi almennt ekki á skoðunum sínum var hún ekki dómhörð þegar kom að persónum og því gott að treysta henni fyrir vandamálum. Hún sparaði aldrei hrósið við okkur og hvatti okkur áfram. Hún talaði oft um dætur sínar þrjár sem hún var mjög stolt af.

Við vorum alin upp með annan fótinn á Hamarsheiði og við eigum svo margar góðar minningar tengdar ömmu. Amma var óhefðbundin í ýmsum skilningi og við börnin tókum eftir því hvað hún var alltaf glæsileg, vel til höfð og fínt heima í höllinni eins og nýi bærinn Hamarsheiði 2 var gjarnan kallaður. Hún bakaði bestu brauð og bollur sem hægt var að fá, færði okkur súkkulaðirúsínur í fallegri glerskál. Garðurinn hennar var heill ævintýraheimur, gróðurhús með jarðarberjum og fallegar fjólur skreyttu steintröppurnar sem leiddu upp að húsinu.

Amma var hugrökk og tók baráttur sem aðrir lögðu ekki í en hún var hrædd við mýs og myrkur. Þannig kom til að kötturinn Pétur Øxnevad flutti inn á Hamarsheiði. Hann fékk matarsendingar úr Búrfelli sérmerktar honum og við fengum það hlutverk að gefa honum að borða í kjallaranum meðan amma stóð og lýsti leiðina með vasaljósi.

Amma tók bílprófið seint og keyrði um á bláum Daihatsu sem fékk viðurnefnið Bláa hættan í sveitinni. Amma lagði helst af stað í bílferðir þegar morguntraffíkin, það er að segja mjólkurbíllinn, var farinn hjá. Bílferðirnar voru skemmtilegar en um leið aðeins óttablandnar því amma keyrði iðulega vel undir hámarkshraða, gjarnan á miðjum vegi og átti það til að flauta á hestamenn til að heilsa þeim.

Þó við söknum ömmu, hláturskastanna, samtalanna og hlýjunnar þá er þakklæti sú tilfinning sem stendur upp úr. Þakklæti fyrir þessa mögnuðu og sterku konu sem átti sér óvenjulegt lífshlaup og var okkur mikil fyrirmynd. Hún bjó yfir andstæðum sem hún náði að sameina og þó að lífið á Hamarsheiði hafi stundum reynst henni krefjandi var enginn staður í heiminum henni eins kær. Hún kenndi okkur þrautseigju, sýndi fram á mikilvægi þess að fara okkar eigin leiðir, og að standa með sjálfum okkur. Hún kenndi okkur að láta okkur málin varða, krefjast breytinga þegar þeirra er þörf en gera það með mildi, húmor og án fordóma.

Takk fyrir allt elsku amma Margrét.

Edda Pálsdóttir,
Iðunn Pálsdóttir.

Flestir geta eflaust rifjað upp augnablik þegar þeir hittu í fyrsta sinn manneskju sem er einhvern veginn þannig um sig að maður skynjar strax að kynnin verða lærdómsrík og gefandi. Þannig manneskja var Jóhanna Margrét Öxnevad.

Það var eitthvað drottningarlegt við hana Margréti, hún var mikill „lífskúnstner“, vakti eftirtekt hvar sem hún kom og ávallt glæsilega til fara. Hún var með hárfínan og skarpan húmor, hafði næmt auga fyrir hinu spaugilega í lífinu og sagði skemmtilega frá. Margrét var víðlesin og áhugasöm um samfélagsmál og pólitík. Þá var saga og lífshlaup Margrétar eins og upp úr ævintýralegri sögubók með gleði og sorgum eins og í öllum góðum sögum.

Og það er þetta með að vera „lífskúnstner“ sem er svo lærdómsríkt. Að kunna að njóta stundarinnar, vera áhugasöm og forvitin um lífið, njóta samvista við fólk á öllum aldri og ekki síst að sjá hið spaugilega í lífinu, er svo dýrmætt og til eftirbreytni.

Í mínum augum var Jóhanna Margrét heimspekingur í sér og hafði áttað sig á þeim sannindum að maður á að fljóta með lífinu en ekki berjast gegn því.

Guðrún Erlingsdóttir.

Ég kynntist Margréti Öxnevad fyrst fyrir langalöngu, eftir að við Margrét dóttir hennar settumst saman á skólabekk í Menntaskólanum við Sund. Það leiddi fljótt til margra og góðra heimsókna okkar Bolla á Hamarsheiði og kynna af heiðurshjónunum Margréti og Erlendi. Alltaf var þar tekið vel á móti þessum ungmennum frá Reykjavík. Okkur sýndur einlægur áhugi og gestrisni og spjallað vítt og breitt um heima og geima. Það var líka gaman fyrir okkur ungt fólk á mótunarárum að kynnast heimilinu á Hamarsheiði og þeim myndarbrag sem þar var á öllu og andblæ af einhverju stærra samhengi. Víðsýnt bæði í raun og anda. Það endurspeglaði auðvitað karakter þeirra hjóna beggja, en þar spiluðu líka stóra rullu þeir menningarstraumar sem Margrét tók með í farteskinu frá uppvexti í öðru landi sem birtust í smekkvísi, músík, bókmenntum og samfélagsáhuga sem einkenndu heimilislífið og umræður í eldhúskróknum.

Við Bolli eigum margar góðar minningar um Margréti frá heimsóknum fyrr og síðar á Hamarsheiði – fyrst úr eldhúskróknum í „Höllinni“ og síðar frá setum í Smiðjunni og innlitum í nýja bústaðinn uppi á Tranti. Ein slík minning er frá því þegar við Bolli sátum ásamt Möggu með þeim hjónum í eldhúsinu á Hamarsheiði og biðum í eftirvæntingu fregna frá Noregi af fæðingu fyrsta barnabarnsins, Loga. Og svo bárust loksins gleðitíðindin og þá var sko fagnað.

Og húmorinn skorti ekki. Margrét var sérlega skemmtileg kona. Mikil sögukona, vildi gjarnan hafa orðið, lengi, og sagði skrautlega og skemmtilega frá, á sinni einstöku mállýsku – létt norskuskotinni en orðmargri íslensku.

Og alltaf sýndi hún okkur Bolla og strákunum okkar einlægan áhuga og hlýhug. Margrét var í huga okkar og strákanna okkar þegar þeir voru að vaxa úr grasi eins og kær en óskyld frænka, sem okkur varðaði um og lét sig okkur varða.

Við vinkonurnar sem eigum vel skap saman og hugsum líkt um margt vorum lengi búnar að hugsa að við þyrftum að leiða þær saman, mæður okkar. Við létum loks verða af því og fórum saman fjórar í indælisreisu til Kaupmannahafnar. Höfðum kannski dregið þessi áform fulllengi, því mæðurnar voru farnar að reskjast, sérstaklega móðir mín, sem glímdi um árabil við heilabilun. En þetta voru ánægjulegir dagar fyrir okkur dæturnar í fylgd þessara flottu kerlinga og dýrmæt minning fyrir okkur vinkonurnar um fróðar og skemmtilegar fyrirmyndir. Mamma mín kvaddi þennan heim fyrir allmörgum árum. Og nú hefur Margrét líka lokið sinni vist hérna megin.

Takk fyrir kynnin Margrét. Samúðarkveðjur til allra þinna.

Hlökk.

„Hvers vegna talar þú ekki eins og aðrar mömmur?“ Sú elsta okkar systranna furðaði sig á þessu þegar hún komst á skólaaldur og fór að kynnast öðrum börnum.

Það var ekkert hefðbundið við Margréti á Hamarsheiði. Hún var útlenska konan á pinnahælunum, lestrarhestur, tónlistarunnandi og fagurkeri, feminísti, friðarsinni, húmoristi, sósíalisti, baráttukona með sterka réttlætiskennd, óhrædd við yfirvaldið. Hún var margslunginn persónuleiki. Á lífsferli sínum tók hún margar stórar ákvarðanir og stóð við þær allar. Hún átti auðvelt með að aðlaga sig breytingum í lífinu og sá hæfileiki kom henni að góðum notum. Sjálf hafði hún sterk áhrif á þá sem kynntust henni. Hún breytti Hamarsheiðinni, stofnaði fjölskyldu, efndi til vináttu, ræktaði skóg og gerði íslenska umhverfið að sínu.

Hún var sterk. Hún tók pláss. Hún talaði ekki eins og aðrar mömmur.

Hennar verður saknað.

Björg Eva, Vigdís og Margrét Erlendsdætur.

„Stelpur, það er kominn matur.“ Margrét Öxnevad ljómar þegar hún rifjar upp hvernig drengurinn sem var kominn í sveit til hennar varð bara hluti af stelpnahópnum á Hamarsheiði og svaraði alltaf: „Já, við komum!“

Ég sem var þessi drengur minnist þess að það var ekki ónýtt að fá að vera hluti af þeim góða hópi. Þegar matur var á borð borinn þá var hann alltaf ótrúlega góður. Í kaffitímum þegar Margrét bar fram kökur voru þær nánast alltaf nýbakaðar. Og hvernig gat skúffukakan verið mikið betri hjá henni en öllum öðrum? Ég varð orðlaus þegar hún var einhverju sinni að þeyta eitthvað og ég spurði hvað þetta ætti að vera og þá reyndist hún vera að búa til majónes en það hélt ég fengist bara úti í búð. Margrét tók bílpróf seint en ég man hvað hún var ánægð þegar hún kom með matarpakka til okkar út á tún á gamla jeppanum í miðjum heyskap. Og sjálfur upplifði ég þá sendingu nánast eins og við værum í útlendri bíómynd því hún gerði allt svo einstaklega smekklega. Matreiðslan var ekki það eina sem hún gerði vel því að heimili hennar var svo ótrúlega hreint og fínt og eins og klippt út úr flottustu tískutímaritum þess tíma. Það sama má líka segja um hana því þótt hún væri satt að segja frekar hlédræg og tranaði sér aldrei fram þá var hún alltaf svo glæsileg, hún hefði leikandi getað verið hefðarfrú í Mónakó alveg jafnt og í Gnúpverjahreppi.

En í Gnúpverjahreppi fann hún draumaprinsinn sinn hann Erlend bónda sem var ekki bara stór, sterkur og myndarlegur heldur var hann líka ótrúlega duglegur og svo skemmdi ekki að hann var einstaklega skemmtilegur og hlýr og svolítið stríðinn. Þau áttu mjög vel saman. Hún af norsku bergi brotin og hann ekki einangraðri en það að hann hafði lært þýsku sjálfur og kom útlendum gestum á óvart með að bjóða upp á samræður á því máli. Mjög vel gefin og samhent hjón. Við krakkarnir elskuðum þegar þau smöluðu okkur öllum upp í gamla jeppann og brunuðu eitthvað í ferðalag, stundum bara inn í Þjórsárdal en svo var líka farið í lengri ferðir. Mér eru mjög minnisstæðar langar ferðir þar sem við vorum tvö aukabörn, öll í einum litlum jeppa og einu litlu tjaldi. Samt einhvern veginn alveg fullkomið.

Fyrir ungan strák var ekki alltaf auðvelt að vera hluti af stelpuhópnum á Hamarsheiði því þær þorðu hærra upp í votheysturninn, hlupu hraðar og voru ekki hræddar við mannýgu beljuna. En Margrét varði drenginn og varaði við að henni væri að mæta ef einhver stríddi honum! Eftir á að hyggja átta ég mig á að hún gaf mér margs konar slaka sem aðrir á heimilinu fengu ekki. Ég var t.d. ekkert hræddur við að verða skítugur eða að detta í bæjarlækinn því hún dæsti bara góðlátlega á meðan dæturnar hefðu verið skammaðar.

Margréti þótti mjög vænt um sitt fólk og hafði mikinn metnað fyrir hönd dætra sinna og ég er stoltur af að hafa fengið að vera dálítill partur af þessari frábæru fjölskyldu á uppvaxtarárum mínum. Það var mér dýrmætur skóli.

Ég samhryggist innilega systrunum, mökum þeirra og afkomendum öllum.

Guð blessi minningu Margrétar Öxnevad.

Eggert Stefán K. Jónsson.