„Ég hef gaman að myndum sem hafa dýnamísk samtöl og ég hneigist að því að gera myndir sem láta fólki vel. Mér er í lófa lagt að skrifa mannlegar gamanmyndir,“ segir leikstjórinn Snævar Sölvi Sölvason.
„Ég hef gaman að myndum sem hafa dýnamísk samtöl og ég hneigist að því að gera myndir sem láta fólki vel. Mér er í lófa lagt að skrifa mannlegar gamanmyndir,“ segir leikstjórinn Snævar Sölvi Sölvason. — Morgunblaðið/Ásdís
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
En aðalmarkmiðið er samt sem áður að gera mynd sem lætur fólki líða betur með sjálft sig og lífið. Þetta er „feel good“ mynd.

Í kvikmyndinni Ljósvíkingar eru mannlegar tilfinningar í brennidepli; gleði, sorg, ótti, kærleikur, hugrekki og brennandi ástríða. Á hátíðarfrumsýningu í vikunni var oft mikið hlegið en myndin kallaði líka fram tár á hvörmum. Sagan er um djúpa vináttu, stöðu okkar sem þjóðar og trans mál og er óhætt að segja að blaðamanni hlýnaði um hjartaræturnar við áhorfið.

Bolvíkingurinn Snævar Sölvi Sölvason sýnir nú stærstu mynd sína til þessa. Hann notar fólk úr sínu nærumhverfi á Ísafirði sem fyrirmyndir einhverra persónanna, auk þess sem hann sækir eldivið í eigin reynslu af störfum í veitingageiranum og sjávarútvegi.

„Ég var snöggur uppvaskari, enda vanur að vinna í akkorði þegar ég vann við að slægja,“ segir Snævar og brosir.

Hugmyndina að sögunni sjálfri fékk Snævar fyrir rúmum áratug, löngu áður en trans mál voru í umræðunni.

Kvikmyndir hafa heillað Snævar allt frá þriggja ára aldri en þá fór hann í fyrsta sinn í kvikmyndahús á Ísafirði. Hann hlakkar til að sýna landsmönnum myndina og er sérstaklega spenntur að frumsýna mynd sína einmitt í þessu sama gamla kvikmyndahúsi fyrir vestan sem hefur ekkert breyst öll þessi ár.

Úr verkfræði í kvikmyndir

Vestfirðingurinn naut æskunnar í Bolungarvík til hins ýtrasta og segist hafa stundað allar heimsins íþróttir á sumrin og skíðamennsku á veturna. Öll sumur vann hann í fiski og þénaði oft vel á því að flaka, beita og slægja. Hann fór í menntaskóla á Ísafirði og flutti svo suður um tvítugt til að fara í háskóla, en fyrir valinu varð fyrst efnaverkfræði og síðar fjármálaverkfræði.

„Fyrirmyndirnar í kvikmyndagerð voru ekki til staðar og ég átti engin tæki. En kvikmyndir voru alltaf mitt helsta áhugamál og það var í raun alltaf mín ósk að gera kvikmynd, þótt ég vissi varla hvað leikstjóri var. Átta ára gamall var ég farinn að lesa Moggann því það voru svo margar greinar um kvikmyndir, um spólur og aðsóknartölur kvikmyndahúsanna. Ég man þetta enn þann daginn í dag,“ segir Snævar og telur upp ártöl og aðsóknartölur kvikmynda frá níunda ártugnum.

„Í menntaskóla var stuttmyndakeppni og vinur minn átti græjur, þannig að ég skrifaði handrit og við filmuðum og tókum aftur þátt ári síðar. Þá sá ég að það vafðist ekki fyrir mér að setja niður á blað það sem ég sá fyrir mér í höfðinu,“ segir Snævar og segist í raun ekki hafa vitað að það væri í boði að læra kvikmyndagerð og því skráði hann sig í verkfræðina.

„Í háskólanum var verið að gera árshátíðarmyndbönd og ég kom mér í þær nefndir. Þegar ég lít til baka sé ég að það var engin spurning hvað togaði endalaust í mig. Og allt annað var í öðru sæti,“ segir Snævar en eftir útskrift og vinnu í banka, dreif hann sig loks í Kvikmyndaskóla Íslands þar sem hann fann sína hillu.

„Ég gerði svo mína fyrstu mynd árið 2011, Slay Masters, sem var gamanmynd um stráka sem unnu í fiski,“ segir Snævar sem síðar gerði myndina Albatross.

Sögur tengdapabba

Í gegnum tíðina hefur Snævar unnið ýmis störf, eins og kennslu í menntaskóla þar sem hann kenndi handritagerð, á Sjóminjasafninu á Ísafirði og á fiskveitingastaðnum Tjöruhúsinu, auk áðurnefndu fiskvinnslustarfa. Hann hefur nú síðustu tvö ár eingöngu helgað sig kvikmyndagerð, en Snævar vann að gerð heimildaþáttanna Skaginn og að nýjustu kvikmynd sinni, Ljósvíkingum.

Öll reynsla kemur til góða þegar gera á persónulega kvikmynd og ekki leitaði Snævar langt yfir skammt hvað varðar umhverfið. Ramminn utan um söguna eru gömul hús á Ísafirði sem eiga sér langa og merkilega sögu.

„Mér fannst stemmningin í þessum gömlu húsum svo heillandi, en þau hafa staðið óbreytt í tvö hundruð ár,“ segir Snævar, en tengdafaðir hans heitinn, Jón Sigurpálsson, var lengi safnstjóri byggðasafnsins og átti stóran þátt í að varðveita og byggja upp húsin, meðal annars hús Tjöruhússins sem átti upphaflega að vera vélageymsla.

„Þetta er elsta húsaþyrping á Íslandi og eru húsin mjög sérstök og með mikla sögu. Tengdapabbi var myndlistarmaður og mikill áhugamaður um sagnfræði. Hann barðist líka fyrir verndun báta og náði að byggja upp flotta starfsemi þarna,“ segir hann, en innblástur að aðalsöguhetju myndarinnar er sóttur í persónu Jóns.

„Allt sem var tengt safninu, veitingarekstri, björgun gamalla báta, hver við erum sem þjóð og sögu Íslands notaði ég í myndinni, en tengdapabbi sagði mér margar sögur. Jón gerði ofboðlega mikið fyrir menninguna á svæðinu, en lét lítið á sér bera. Hann var hvunndagshetja. Ég man að hann sagði eitt sinn: „Við erum og urðum þjóð af því við kunnum að veiða fisk.“ Ég skrifaði þessa setningu niður, en hann hafði ekki hugmynd um það að ég var að punkta niður margt sem hann sagði. Ég hafði því úr miklu að moða og það er mikið frá honum sem fer inn í myndina.“

Að láta fólki líða vel

Um hvað er myndin Ljósvíkingar?

„Þetta er saga um vináttu og kærleika, en líka um breytingar. Björn Jörundur leikur Hjalta sem rekur Sjóminjasafnið og fiskveitingastað með besta vini sínum Birni og berst líka fyrir verndun gamalla báta,” segir Snævar og bætir við að hjónaband Hjalta mætti vera á betri stað.

Hjalti kemst svo sannarlega að því að allt er breytingum háð í þessu lífi.

„Besti vinurinn kemur út úr skápnum sem trans kona,“ segir Snævar, en bæði Hjalti og Björn, síðar Birna, þurfa að takast á við þær stóru breytingar.

„Og finna ljósið. Titillinn Ljósvíkingar vísar í það; eins og víkingar sem fóru í víking í leit að betra lífi eru þarna vinir sem berjast fyrir því góða í tilverunni; ljós og birtu. Hjartslátturinn í myndinni er vináttusambandið,“ segir Snævar.

„Markmið mitt var að búa til mynd sem skemmtir áhorfendum og heldur þeim í spennu að vita hvað gerist næst. En aðalmarkmiðið er samt sem áður að gera mynd sem lætur fólki líða betur með sjálft sig og lífið. Þetta er „feel good“ mynd,“ segir Snævar og vonast til að heyra hlátur í salnum, enda er myndin oft ansi spaugileg.

„Ég vildi hafa skemmtilega leikara sem láta mig hlæja bara með því að vera til,“ segir Snævar sem segist hafa verið með óskalista yfir þá leikara sem hann sá fyrir sér í myndinni.

„Ég fékk alveg níutíu prósent af þeim sem voru á listanum. Ólafía Hrönn var mjög upptekin síðasta haust en sagðist vilja vera með því hún sagði þetta vera „mannbætandi sögu“. Ég var ánægður að heyra það og vissi þá að ég væri með eitthvað gott í höndunum,“ segir Snævar.

„Ég var alltaf með Björn Jörund í huga fyrir aðalhlutverkið. Ég vildi hafa einhvern sem væri náttúrulega skemmtilegur og gæti fengið fólk til að brosa án þess að þurfa að segja brandara. Hann er orðsnjall með eindæmum og hann tálgaði stundum til setningar í handritinu.“

Draumahlutverk Örnu

Arna Magnea Danks leikur annað aðalhlutverka, vininn Björn sem síðar verður Birna. Arna Magnea er sjálf trans kona og kemur því með mikla persónulega reynslu í hlutverkið.

„Hún treysti sér fyrst ekki í hlutverkið, enda er það mjög krefjandi. Ég held að það hafi aldrei verið gert áður í kvikmynd að trans kona leiki trans konu sem þarf að fara „til baka“ og búa til kallinn áður en komið er út úr skápnum,“ segir Snævar og segir Örnu Magneu á endanum hafa ákveðið að slá til, enda frábært innlegg í umræðu um trans fólk á Íslandi.

„Hún sagði að hún gæti ekki sleppt því að þiggja hlutverkið, enda draumahlutverk,“ segir Snævar og segir sem leikstjóra að sér finnist áhugavert að trans kona leiki trans konu og að það hafi alltaf verið draumurinn.

Snævar segir samtölin skipta sig miklu máli þegar gera eigi kvikmynd og hefur sérstakan áhuga á gamanmyndum.

„Ég hef gaman að myndum sem hafa dýnamísk samtöl og ég hneigist að því að gera myndir sem láta fólki líða vel. Mér er í lófa lagt að skrifa mannlegar gamanmyndir.“

Hlegið á réttum stöðum

Snævar er að vonum spenntur að frumsýna Ljósvíkinga og heyra hvað þjóðinni finnst.

„Við höfum sýnt í lokuðum hópum og fengið rosalega góð viðbrögð. Það var hlegið á réttum stöðum og almenn ánægja. Fólki fannst myndin falleg,“ segir Snævar og segir myndina fyrst og fremst um vináttu og kærleik.

„Nú erum við vongóð að komast á hátíðir erlendis því að málefnið er svolítið það sem heimurinn er að spá í núna. Í myndinni er fjallað um hver við erum sem þjóð, en líka um trans málin. Og einhvers staðar á milli er kærleikurinn.“

Höf.: Ásdís Ásgeirsdóttir