Þingsalurinn Ráðherrastólarnir eru komnir á sinn stað. Ráðherrar setjast í þá við þingsetningu á þriðjudaginn.
Þingsalurinn Ráðherrastólarnir eru komnir á sinn stað. Ráðherrar setjast í þá við þingsetningu á þriðjudaginn. — Morgunblaðið/Eyþór
Ráðherrar og þingmenn setjast í nýja stóla þegar Alþingi Íslendinga, 155. löggjafarþingið, verður sett með hefðbundnum hætti næstkomandi þriðjudag, 10. september. Þingsetning er ávallt á öðrum þriðjudegi septembermánaðar

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Ráðherrar og þingmenn setjast í nýja stóla þegar Alþingi Íslendinga, 155. löggjafarþingið, verður sett með hefðbundnum hætti næstkomandi þriðjudag, 10. september. Þingsetning er ávallt á öðrum þriðjudegi septembermánaðar.

Þetta verður fyrsta þingið sem Halla Tómasdóttir, nýkjörinn forseti Íslands, setur.

Fyrir hvert þing eru gerðar breytingar og lagfæringar á þingsalnum og umbúnaði hans. Oftast eru þær smávægilegar. En að þessu sinni er um að ræða verulegar og sögulegar breytingar.

Gólfið er nýpússað, gluggatjöld hrein og og gluggar lakkaðir. Stærsta breytingin er sú að nýir stólar fyrir þingmenn og ráðherra verða teknir í notkun. Þeir leysa af hólmi stóla sem hafa verið í notkun frá árinu 1987. Nýju stólarnir eru hannaðir af Erlu Sólveigu Óskarsdóttur og nefnist hönnunin Spuni. Einnig er nýtt leður í borðplötum.

Sem fyrr prýðir skjaldarmerki Íslands ráðherrastólana. Nú er það ekki stimplað heldur saumað í þá hjá saumastofunni Óla priki.

Morgunblaðið fékk upplýst hjá Alþingi að þingið ætlaði að eiga gömlu stólana áfram.

Sumarið 1987 voru gerðar breytingar á sal Alþingis. Ný borð þingmanna voru sett upp og nýir stólar teknir í notkun. Þá var nýtt teppi sett í þingsalinn, blátt að lit.

Fyrst settust ráðherrar og alþingismenn í nýju stólana, nú gömlu stólana, við setningu 110. löggjafarþingsins 10. október 1987. Fyrstur til að setjast í nýja forsætisráðherrastólinn var Þorsteinn Pálsson formaður Sjálfstæðisflokksins. Það kemur í hlut Bjarna Benediktssonar formanns Sjálfstæðisflokksins að setjast fyrstur í nýja forsætisráðherrastólinn.

Orð sem á sér langa sögu

Aðrir ráðherrar í ráðuneyti Þorsteins Pálssonar voru Steingrímur Hermannsson, Jón Baldvin Hannibalsson, Birgir Ísleifur Gunnarsson, Friðrik Sophusson, Guðmundur Bjarnason, Halldór Ásgrímsson, Jóhanna Sigurðardóttir, Jón Helgason, Jón Sigurðsson og Matthías Á. Mathiesen.

Í ræðu og riti er oft talað um að menn setjist í ráðherrastóla, en aldrei í þingmannastóla. En hve gamalt er þetta orð, ráðherrastóll?

Elsta dæmið sem finna má á timarit.is er úr blaðinu Suðra 10. desember 1885: „Vér getum ætíð huggað oss við það, að hr. Estrúp og lir. Nellemann sitja ekki eilíflega á ráðherrastólum Danmerkur.“ Blaðið Suðri var gefið út í Reykjavík. Ritstjóri var Gestur Pálsson rithöfundur. Útgáfunni var hætt 1886.

Elsta dæmið í ritmálasafni Árnastofnunar er úr Alþingistíðindum frá 1907: Þar stendur: „Slíkar aðdróttanir til einstakra þingmanna sjeu illþolandi frá öllum og ekki sízt frá ráðherrastólnum.“

Elsta dæmið sem finna má í Morgunblaðinu er frá 23. júlí 1914.

Fyrirsögn fréttarinnar var: Frá Alþingi. Síðan sagði: „Þá talaði landritari, sem nú situr ráðherrastól um sinn, og hjó til beggja handa, svo að ekkl kann sá er þetta ritar skil á því, hvort hann studdi frekar meiri eða minni hl., en ólmur var hann með einum eftirlitsmanni.“

Landritari var Klemenz Jónsson. Hann flutti til Reykjavíkur 1904 og varð landritari og þar með í raun næstvaldamesti maður landsins á eftir ráðherranum og staðgengill hans á ýmsum sviðum.

Því embætti gegndi Klemenz þar til það var lagt niður árið 1917.

Höf.: Sigtryggur Sigtryggsson