Kauphöll: Yfirtökutilboð
Kauphöll: Yfirtökutilboð — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Matafjölskyldan, eða réttara sagt félag í eigu systkinanna Guðnýjar Eddu, Eggerts Árna, Halldórs Páls og Gunnars Þórs Gíslabarna, fjölskyldna og tengdra aðila, heldur nú á yfir 30% af bréfum í Eik fasteignafélagi

Matafjölskyldan, eða réttara sagt félag í eigu systkinanna Guðnýjar Eddu, Eggerts Árna, Halldórs Páls og Gunnars Þórs Gíslabarna, fjölskyldna og tengdra aðila, heldur nú á yfir 30% af bréfum í Eik fasteignafélagi. Það þýðir að þau eru tilboðsskyld gagnvart öðrum hluthöfum og hefur félag þeirra í samræmi við það lagt fram yfirtökutilboð í félagið í heild sinni.

Það er í sjálfu sér ekki ný frétt en það sem vekur athygli er að tilboð fjölskyldunnar til annarra hluthafa, sem hljóðar upp á 11 krónur á hlut, er undir því verði sem þeim sjálfum bauðst að selja félagið á fyrir ekki svo löngu siðan, þegar Heimar (áður Reginn) gerðu tilboð í allt hlutafé Eikar. Það á að minnsta kosti við þegar litið er til núverandi gengis hlutabréfa Heima sem hefur hækkað mikið og þá í samhengi við upphaflegt skiptigengi tilboðsins.

Fjölskyldan hafnaði tilboðinu þar sem hún taldi virði félagsins metið allt of lágt í þeim viðskiptum. Sjálfsagt gæti einhver sagt að það sé ekki alveg sanngjarnt að horfa svo einfalt á gengi félaganna, en það er þó hægt að færa rök fyrir því að tilboðið nú sé töluvert lægra miðað við gengi Heima og upphaflegt skiptigengi.

Þeir aðilar sem ViðskiptaMogginn hefur rætt við telja áhugavert að fjölskyldan sé að verðmeta félagið mun lægra í sínu yfirtökutilboði og ljóst er að það verður áhugavert að fylgjast með framhaldinu. Félagið virðist eiga töluvert meira inni ef horft er til þróunar á hlutabréfaverði Heima.

Ekkert er þó gefið á markaði.