Þrenna Sóknarmaðurinn Kristall Máni Ingason fagnar einu af þremur mörkum sínum gegn Danmörku á gamla heimavellinum sínum í gær.
Þrenna Sóknarmaðurinn Kristall Máni Ingason fagnar einu af þremur mörkum sínum gegn Danmörku á gamla heimavellinum sínum í gær. — Morgunblaðið/Eyþór
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Íslenska 21 árs landslið karla í fótbolta vann glæsilegan sigur á dönskum jafnöldrum sínum í undankeppni EM á Víkingsvelli í gær. Urðu lokatölur í skemmtilegum leik 4:2. Kristall Máni Ingason stelur fyrirsögnunum, þar á meðal á þessari grein, því…

Í Fossvogi

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Íslenska 21 árs landslið karla í fótbolta vann glæsilegan sigur á dönskum jafnöldrum sínum í undankeppni EM á Víkingsvelli í gær. Urðu lokatölur í skemmtilegum leik 4:2.

Kristall Máni Ingason stelur fyrirsögnunum, þar á meðal á þessari grein, því hann skoraði þrjú mörk og varð í leiðinni markahæsti leikmaðurinn í sögu U21 árs landsliðsins með 11 mörk í 18 leikjum.

Byrjaði illa

Það byrjaði ekki byrlega fyrir íslenska liðið. Sóknarmaðurinn William Osula, sem Newcastle keypti á dögunum frá Sheffield United á 15 milljónir punda, skoraði fyrsta markið á 16. mínútu.

Eftir markið voru Danir líklegri til að bæta við, en íslenska liðið sýndi gríðarlega mikinn styrk í að leggja ekki árar í bát og það skilaði jöfnunarmarki á 27. mínútu er Kristall Máni Ingason vann boltann af varnarmanni og skoraði.

Ari Sigurpálsson, liðsfélagi Kristals hjá Víkingi árið 2022, kom íslenska liðinu svo yfir á 40. mínútu með góðri viðstöðulausri afgreiðslu í teignum og voru hálfleikstölur 2:1.

Víti og rautt

Danska liðið var sterkara í upphafi seinni hálfleiks og Mathias Kvistgaarden, sem á 80 leiki í dönsku úrvalsdeildinni, jafnaði á 52. mínútu.

Eftir það var leikurinn mjög jafn, fram að 70. mínútu er vendipunkturinn átti sér stað. Hilmir Rafn Mikaelsson var felldur innan teigs og Sebastian Otoa, sem hafði komið inn á sem varamaður skömmu áður, fékk beint rautt spjald.

Kristall skoraði úr vítinu og bætti síðan við þriðja marki sínu og fjórða marki Íslands skömmu síðar er hann fylgdi á eftir skoti frá Andra Fannari Baldurssyni sem var varið og þar við sat.

Kristall var að sjálfsögðu maður leiksins en fleiri spiluðu vel. Hinn 19 ára gamli Daníel Freyr Kristjánsson heillaði mjög en hann fór ungur að árum til Midtjylland frá Stjörnunni. Hann tók hvað eftir annað hættulega spretti upp vinstri kantinn og verður gaman að fylgjast með honum í framtíðinni.

Úrslitaleikur í Danmörku?

Með sigrinum komst Ísland í góða stöðu. Danmörk er enn á toppnum með ellefu stig, eins og Wales. Þau hafa hins vegar leikið sex leiki hvort. Ísland er í þriðja sæti með níu stig eftir fimm leiki. Vinni íslenska liðið þá leiki sem eftir eru fer Ísland á lokamótið í Slóvakíu næsta sumar.

Ísland á eftir heimaleiki við Wales og Litáen og útileik við Danmörku. Íslenska liðinu líður vel á heimavelli og með tveimur sigrum þar gæti beðið úrslitaleikur við Danmörku ytra 15. október.

Höf.: Jóhann Ingi Hafþórsson