Hinn ástríðufiulli bókaormur Warren Buffett og Barack Obama á fundi í Hvíta húsinu.
Hinn ástríðufiulli bókaormur Warren Buffett og Barack Obama á fundi í Hvíta húsinu. — AFP/Pete Souza
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Margir snillingar eru þekktir fyrir að einangra sig í vinnu eða á heimili þar sem þeir hugsa í ró og næði.

Snillingar eru vissulega á meðal okkar og hafa alltaf verið. Sérfræðingar telja sig hafa komist að því hvað einkennir þá og nefna til sögunnar sjö atriði.

Venjulega hefur það þótt nokkuð skrýtið að tala mikið við sjálfan sig, það hefur jafnvel verið talið merki um geðbilun. Sérfræðingar segja að það að tala við sjálfan sig geti verið mikið greindarmerki og leitt til betra minnis og aukið sjálfstraust og einbeitingu.

Ýmislegt þykir einnig benda til að nátthrafnar séu að jafnaði með hærri greinarvísitölu en aðrir. Það að kjósa helst að vinna um nætur og fram á morgun og fara seint að sofa og vakna seint getur leitt til betra minnis og einbeitingar. Í fjölmennum hópi nátthrafna eru Charles Darwin, James Joyce, Winston Churchill, Toulouse-Lautrec og Bob Dylan.

Einhverjir kunna að sjá það sem tóma tímaeyðslu að láta sig dreyma dagdrauma, enda verður mönnum lítið úr verki á meðan. Vísindamenn segja það hins vegar merki um greind og sköpunargáfu, enda sé slíkt góð æfing fyrir heilabúið.

Það þykir æskilegt að hafa hluti í röð og reglu en það er nokkuð sem margir snillingar eru víst lítið gefnir fyrir. Sérfræðingar segja suma einstaklinga finna frelsi í óreiðunni og það ýti undir að þeir sjái hluti í öðru ljósi en aðrir og séu fyrir vikið frumlegir. Þeir sem eru mikið fyrir röð og reglu eru hins vegar gefnir fyrir að hugsa á hefðbundinn hátt og velja öruggasta kostinn standi þeir frammi fyrir vali.

Spurult fólk getur vissulega verið þreytandi, en ýmislegt bendir til að einstaklingar sem spyrja ótal spurninga sé fluggáfaðir. Forvitni er einfaldlega greindarmerki og bendir til að hugurinn sé stöðugt að reyna að skilja umhverfið. Þetta leiðir einnig til þess að einstaklingar eru ætíð að læra nýja hluti og afla sér nýrra upplýsinga. Því fleiri spurningar sem einstaklingur spyr því meir eykst skilningur hans. Eins og snillingurinn Einstein sagði: „Ég hef enga sérstaka hæfileika. Ég er einungis óendanlega forvitinn.“

Það að vera innhverfur getur verið snillingsmerki. Margir snillingar eru þekktir fyrir að einangra sig í vinnu eða á heimili þar sem þeir hugsa í ró og næði. Þessar manngerðir hugsa oft dýpra og á gagnrýnni hátt en aðrir og leita oft í störf sem reyna á hugann, sökkva sér þá í lestur eða rannsóknir sem stuðla að vitsmunalegum þroska.

Úthverfir einstaklingar eru líklegri en innhverfir til að einbeita sér að því sem er að gerast í kringum þá, enda eru þeir mannblendnir. Þeir sjá það sem er, meðan innhverfir spyrja hvað ef?

Fjölmargir snillingar eru bókaormar. Bókaormar eru stöðugt að sanka að sér nýjum upplýsingum um leið og þeir efla orðaforðann og kynnast ólíkum sjónarhornum. Lestur hjálpar til við að auka einbeitingu, auðgar ímyndunaraflið og eflir hæfileika okkar til að sýna öðrum samkennd. Lestur er eins og fimleikar fyrir heilabúið. Sérfræðingar segja bókaorma líklega til að vera með háa greindarvísitölu.

Abraham Lincoln Bandaríkjaforseti kenndi sér sjálfur að lesa og gekk langar vegalengdir til að komast á bókasöfn. Meðal uppáhaldsbóka hans voru Róbinson Krúsó og dæmisögur Esóps. Winston Churchill sagði að bókmenntir hefðu mótað stjórnmálaskoðanir sínar og hann nýtti öll möguleg tækifæri til að eiga samskipti við rithöfunda. Ein af uppáhaldsbókum hans var 1984 eftir George Orwell. Auðjöfurinn Warren Buffett gætti eytt deginum í að telja peningana sína en kýs í þess stað að eyða næstum átta tímum á dag í lestur.