Ásta Katrín Ólafsdóttir, eða Ásta Kata eins og hún var oft kölluð, fæddist í Vestmannaeyjum 25. desember 1958. Hún lést 24. ágúst 2024 á gjörgæsludeild Landspítalans við Hringbraut.

Foreldrar hennar voru Ólafur Haraldur Oddgeirsson frá Vestmannaeyjum, f. 30. mars 1929, d. 12. ágúst 1998, og Ragna Lísa Eyvindsdóttir (Góa) frá Siglufirði, f. 6. mars 1934, d. 25. febrúar 2006.

Systkini Ástu Kötu eru Eyvindur, f. 25. desember 1952, Hjörtur, f. 18. ágúst 1955, Hlynur, f. 12. ágúst 1956, Lilja Björk, f. 19. ágúst 1962, og Elva Ósk, f. 24. ágúst 1964.

Fjölskyldan bjó fyrst á Kirkjuvegi 82 í Vestmannaeyjum en flutti síðan í nýtt hús á Heiðarvegi 68. Á sumrum vann Ásta Kata flest hefðbundin störf sem unglingum buðust; barnapössun, unglingavinnu, fiskvinnslu ásamt því að starfa í Eyjabæ í nokkur ár. Skólagangan var hefðbundin og útskrifaðist hún úr Gagnfræðaskóla Vestmannaeyja árið 1975. Síðar lauk hún námi við Skrifstofu- og ritaraskólann með hæstu einkunn og eftir það tók við vinna við ýmis störf ásamt barnauppeldi. Ásta Kata starfaði í yfir 30 ár hjá Prentsmiðjunni Odda við innflutning og tollvinnslu og síðustu árin starfaði hún hjá Húsasmiðjunni við sambærileg störf.

Ásta Kata giftist 7. apríl 1979 Jóhannesi Wirkner Guðmundssyni (Jonna), f. 28. október 1958, d. 27. maí 2023. Foreldrar hans voru Guðmundur Gíslason, f. 12. júlí 1932, d. 7. júlí 2019, og Ingibjörg Friðriksdóttir, f. 22. desember 1929, d. 2. júlí 2023.

Börn Ástu Kötu og Jonna eru: 1) Rósa Konný, f. 11. janúar 1982, gift Einari Páli Péturssyni, f. 16. október 1968. Börn þeirra eru Rakel Lea, f. 1. maí 2007, og Þórey Lilja, f. 7. október 2011. 2) Daníel Örn Wirkner, f. 17. maí 1984. Börn hans eru Viktoría Tea, f. 13. janúar 2003, Emilía Mist, f. 16. desember 2004, og Aron Ragnar, f. 12. september 2008.

Ásta Kata og Jonni bjuggu fyrstu árin sín saman í Áshamri og seinna í Foldahrauni í Vestmannaeyjum en fluttust svo ásamt börnum sínum til Reykjavíkur, nánar til tekið í Grafarvoginn, þar sem þau bjuggu lengst af í Laufrima.

Þau Jonni elskuðu að ferðast bæði innanlands og utan og áttu stóra og góða vinahópa bæði úr Vestmannaeyjum og Reykjavík og má þar nefna sem dæmi góða félaga úr Skátafélaginu Faxa úr Vestmannaeyjum auk samstarfsfélaga í gegnum árin og annarra góðra vina. Einnig var systkinahópur Ástu Kötu, ásamt mökum, einkar samheldinn og voru þau í gegnum tíðina einnig þeirra bestu vinir.

Útför Ástu Kötu hefur farið fram í kyrrþey að hennar eigin ósk.

Elsku Ásta Katrín systir mín andaðist núna um daginn, allt of skyndilega og fljótt. Ekki nema 65 ára og er andlát hennar mér mikið áfall. Það verður skrítið að geta ekki hringt í hana og spjallað um daginn og veginn, hvernig gangi hjá henni eða börnunum hennar, fá fréttir eða um garðinn hennar sem hún elskaði að dunda í. Spyrja hvernig jarðarberjaplöntunum vegni og hvað sé best að rækta í rokinu á svölunum mínum.

Heyra aldrei rödd þína framar er óraunverulegt fyrir mér. Þér var mjög umhugað um alla í kringum þig og vildir öllum svo vel, varst alltaf reiðubúin að gefa góð ráð. Og það var virkilega gott að leita ráða hjá þér og eins að vera í kringum þig því það var alltaf stutt í hláturinn. Þú varst fyrsta systirin sem við bræðurnir eignuðumst, svo smá, fín og pen en ótrúlega kraftmikil, við vorum svo stoltir af þér og elskuðum þig. Enda fékkstu að þvælast með okkur um allt og taka þátt í flestum okkar uppátækjum.

Þegar þú síðan hittir Jonna þinn, stóru ástina í lífi þínu og sálufélaga, þá var yndislegt að fylgjast með þér verða fullorðin, stofna heimili og síðan eignast Rósu Konný og Daníel Örn sem búin eru að missa mikið. Því það er ekki nema rúmt ár síðan að Jonni andaðist eftir erfið veikindi. En í hans veikindum stóðstu eins og Heimaklettur við hlið hans sem minnti mig á allan kraftinn sem þú hafðir sem barn. Þú misstir mikið kæra systir þegar hann dó, þú misstir sálufélaga og stóru ástina í lífi þínu.

Við andlát þitt er mikið skarð komið í systkinahópinn okkar og ég mun alltaf sakna þín.

Þinn bróðir

Hjörtur.

Elsku fallega góða systir. Hvernig er hægt að sætta sig við það að þú sért farin og horfin úr lífi okkar að eilífu? Það er ekki hægt.

Allar stundirnar sem við höfum átt saman er það sem lifir, minningin um labbitúrana, trúnóin, hlátursköstin, gleðina …

Það var alltaf stutt í hláturinn hjá þér, svo full af léttleika og bjartsýni, þrátt fyrir ýmislegt sem kom upp á í lífinu.

Eftir heimsókn í Laufrima var okkur alltaf fylgt til dyra. Þú stóðst í dyrunum, brostir og veifaðir bless. Yndislegur siður sem gaf alltaf hlýju í hjartað og fullvissu um að þú vektir yfir okkur.

Elsku systir, þú hefur alltaf verið okkar stoð og stytta, stóri kletturinn, þótt þú værir minnst af okkur systkinunum. Þú varst límið sem hélt okkur saman eftir fráfall foreldra okkar, allir sumar- og jólafjölskylduhittingarnir sem þið Jonni stóðuð fyrir eru mikilvægir og ógleymanlegir. Við tökum við því kefli með mikilli gleði og þakklæti. Fjölskyldan er jú það dýrmætasta sem við eigum.

Við sjáum þig fyrir okkur í faðmi Jonna þíns, umlukta fallegum blómum úr garðinum, með rauðvínsglas í hendi og sól í hjarta.

Elsku Ásta Kata okkar, við þökkum þér tímann sem við höfum fengið að eiga með þér. Við systkinin, samheldin sem fyrr, munum halda utan um fólkið ykkar.

Endum þetta á áminningunni sem þú hélst að okkur eftir að þú misstir Jonna þinn:

Lífið er núna!

Þínar systur,

Lilja Björk og Elva Ósk.

Við erum þrjár á skrifstofu og árið er 2006 á okkar allra besta vinnustað, Prentsmiðjunni Odda. Kata mætir hress og kát, með nesti frá Jonna sínum og veit aldrei hvaða ost hann hafði sett í nestisboxið. Alltaf var Kata jafn spennt að skoða hvað væri í boxinu þann daginn frá Jonna sínum. Á meðan vorum við að deyja úr kulda því Kötu var alltaf heitt og varð að hafa alla glugga opna.

Kata talaði mikið um börnin sín og barnabörn, þau voru henni alltaf efst í huga. Þegar við hugsum um Kötu, þá hugsum við líka um Jonna, þau voru eitt og samrýndari hjón var vart að finna. Allar árshátíðirnar, partíin, skemmtanirnar og elsku Kötu með rauða varalitinn og Jonni henni við hlið. Við ætlum að muna það. Elsku Konný, Danni og fjölskylda, okkar innilegustu samúðarkveðjur. Megi minning Ástu Kötu lifa.

Ingibjörg (Inga) og
Guðlaug (Gulla).

Öllu er afmörkuð stund og lífinu getur lokið skyndilega og án nokkurs aðdraganda. Þetta fáum við að reyna við ótímabært fráfall Ástu Kötu sem starfaði með okkur á skrifstofunni hjá Prentsmiðjunni Odda til margra ára. Þar bundumst við sterkum vinaböndum, konurnar sem þar störfuðum saman, sumar í áratugi eins og Ásta Kata en aðrar skemur. Við gáfum félagsskapnum nafn, og kölluðum okkur Skroddur.

Við höfum brallað margt skemmtilegt saman og m.a. farið í margar bústaða- og menningarferðir innan lands og utan. Við höfum fylgst með gleði og sorgum hver annarrar, hist reglulega, skrafað og hlegið og spurt fregna af börnum og buru. Okkur þykir einfaldlega vænt um félagsskapinn og hver aðra. Við hittumst í vetur þegar fyrrverandi starfsmenn Prentsmiðjunnar Odda komu saman í Iðnó til að rifja upp góða tíma. Við erum þakklátar fyrir að hafa gert mikið úr þeim degi og farið út að borða saman. Það var í síðasta skiptið sem við hittumst allar og í síðasta skiptið sem við hittum Ástu Kötu okkar.

Ásta Kata hafði fallega nærveru á okkar sameiginlega vinnustað Odda. Hún var alltaf kát og glöð og sinnti sínu starfi af samviskusemi og metnaði. Hún kom vel fram við alla og var vinamörg á vinustaðnum, hvers manns hugljúfi. Hún var lausnamiðuð og það var gott að leita til hennar. Dagfarsprúð með sitt glettna augnaráð og breiða bros. Hún hugsaði sitt, en sagði ekki allt. Hún var Eyjastelpa og systkinahópurinn úr Eyjum náinn. Það var ekki laust við að maður öfundaði hana af átthagatryggðinni sem í hjartanu bjó, enda hafði engin okkar frá svipaðri lífsreynslu og hún að miðla, hafandi upplifað sem unglingur gosið í Heimaey og brottflutning upp á land.

Hún var sátt og sæl í einkalífinu og það leyndist engum hvað þau Jonni eiginmaður hennar voru miklir vinir og samstillt og falleg hjón. Jonni lést um aldur fram í fyrra eftir að hafa greinst með krabbamein og núna er Ásta Kata farin til hans, líka langt um aldur fram. Eftir sitja börnin hennar Rósa Konný og Daníel, tengdabörn og barnabörnin í tómarúmi. Það leyndist engum hvað Ásta Kata var stolt af börnunum sínum og barnabörnum sem hún tók á móti með opinn og hlýjan ömmufaðm.

Ásta Kata var að fóta sig í makalausri verönd eftir fráfall Jonna. Hún bar sig vel en undir niðri skynjaði maður hyldjúpa sorgina. Ásta Kata varð bráðkvödd, og það hvarflar að okkur Skroddunum að hjartað hafi bara brostið af harmi og að henni hafi verið ætlað að vera í sumarlandinu með Jonna sínum.

Við kveðjum kæra vinkonu um leið og við vottum fjölskyldunni allri okkar dýpstu samúð.

Hver minning dýrmæt perla að liðnum lífsins degi,

hin ljúfu og góðu kynni af alhug þakka hér.

Þinn kærleikur í verki var gjöf, sem gleymist eigi,

og gæfa var það öllum, er fengu að kynnast þér.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Bára, Bjarndís (Badda), Elísabet (Beta), Erna, Halla, Ingibjörg (Inga), Kristín (Stína) og
Sigríður (Sigga).