Stefán Gunnar Sveinsson
sgs@mbl.is
Volodimír Selenskí Úkraínuforseti sagði í gær að Úkraínumenn þyrftu fleiri vopn frá bandamönnum sínum til þess að reka Rússa af úkraínsku landi. Selenskí lét ummæli sín falla á fundi helstu bandalagsríkja Úkraínu á Ramstein-herflugvellinum í Þýskalandi, þar sem vopnaþörf Úkraínumanna var rædd.
Selenskí hvatti bandamenn Úkraínu til þess að senda fleiri F-16-orrustuþotur til landsins, auk þess sem farið væri að bera á skorti á eldflaugum. Ítrekaði Selenskí jafnframt kröfu sína um að fá langdrægar eldflaugar og leyfi til þess að beita þeim innan landamæra Rússlands.
Fulltrúar um fimmtíu ríkja mættu til fundarins í Ramstein og nýttu þeir tækifærið líkt og á fyrri Ramstein-fundum til þess að tilkynna opinberlega næstu sendingar sínar af hernaðaraðstoð til landsins.
Lloyd Austin, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna og gestgjafi fundarins, greindi t.d. frá því að Bandaríkjastjórn myndi senda hergögn sem metin væru á um 250 milljónir bandaríkjadala, eða sem nemur tæpum 34,6 milljörðum íslenskra króna, og að í þeim pakka yrði reynt að mæta þörfum Úkraínumanna á vígvellinum.
John Healey, sem nýlega tók við embætti varnarmálaráðherra Bretlands, greindi frá því að Bretar myndu senda Úkraínumönnum 650 „léttar eldflaugar“ sem hluta af aðstoðarpakka, sem metinn væri á um 162 milljónir sterlingspunda, eða um 29,4 milljarða íslenskra króna.
Eldflaugarnar hafa um sex kílómetra drægi, en þeim er sérstaklega ætlað að stemma stigu við drónaárásum Rússa á borgir Úkraínu. Sagði Healey að flaugarnar myndu styrkja loftvarnir Úkraínumanna svo um munaði.
Selenskí ræddi svo sérstaklega við Olaf Scholz Þýskalandskanslara að fundi loknum, en Þjóðverjar tilkynntu fyrr í vikunni að þeir hygðust senda fleiri IRIS-T-loftvarnakerfi til Úkraínu. Boris Pistorius varnarmálaráðherra bætti um betur á Ramstein-fundinum, en þar tilkynnti hann að Þjóðverjar myndu einnig senda tólf fallstykki til Úkraínu. Selenskí þakkaði Þjóðverjum sérstaklega fyrir veitta aðstoð á fundi sínum með Scholz.
Telja sig hafa stöðvað sóknina
Oleksandr Sirskí, yfirmaður allra herja Úkraínu, sagði í gær að Kúrsk-sókn Úkraínumanna hefði náð tilætluðum árangri, en mánuður er nú liðinn frá því Úkraínumenn réðust inn í héraðið. Ráða þeir enn yfir um 1.300 ferkílómetrum af rússnesku landsvæði og um það bil 100 þorpum og bæjum.
Sirskí sagði að einn tilgangur innrásarinnar hefði verið sá að koma í veg fyrir liðssafnað Rússa í héraðinu, sem hann sagði að hefði verið ætlað að ráðast inn í Súmí-hérað Úkraínu. Þá mætti einnig sjá árangur Kúrsk-sóknarinnar í því að hún hefði neytt Rússa til að draga úr sóknarþunga sínum á austurvígstöðvunum.
„Undanfarna sex daga hefur óvinurinn ekki sótt fram um svo mikið sem einn metra í áttina að Pokrovsk. Með öðrum orðum, þá er heráætlun okkar að ganga upp,“ sagði Sirskí í viðtali við CNN-fréttastofuna.
Vladimír Pútín Rússlandsforseti lýsti því yfir í fyrradag að Kúrsk-sóknin hefði mistekist, og að þess í stað hefði hún einungis veikt varnir Úkraínu í Donbass-héruðunum tveimur, Donetsk og Lúhansk. Sagði Pútín að hertaka héraðanna tveggja væri helsta markmið Rússa í styrjöldinni.
Úkraínuher tilkynnti svo í gær að Asov-stórfylkið hefði náð aftur fótfestu í bænum New York í Donetsk-héraði, en bærinn féll í hendur Rússa fyrr í sumar. Er þetta fyrsti ávinningur Úkraínumanna í héraðinu frá því sókn Rússa á austurvígstöðvunum hófst síðasta vetur.