Það gengur á ýmsu fyrir norðan. Davíð Hjálmar Haraldsson lenti í hífandi roki á morgungöngunni: Í fárviðrinu fauk allt jarðfast grjót - fannst þó aftur nyrst á Látraströnd – af blágreni kom barrið eins og spjót og boraðist í gegnum vinstri hönd

Pétur Blöndal

p.blondal@gmail.com

Það gengur á ýmsu fyrir norðan. Davíð Hjálmar Haraldsson lenti í hífandi roki á morgungöngunni:

Í fárviðrinu fauk allt jarðfast grjót

- fannst þó aftur nyrst á Látraströnd –

af blágreni kom barrið eins og spjót

og boraðist í gegnum vinstri hönd.

Gunnar Hólm Hjálmarsson yrkir að gefnu tilefni:

Þær sem í stjórnmálum standa,

stefnu og málefni vanda,

en vilja í tískunni tolla

tala nú ekki við Bolla.

Gunnar J. Straumland kastar fram úrvals gangnamannabrag. Enda er kominn þessi tími árs. Víða um land byrja göngur um næstu helgi:

Útsynningur afli beitir yfir sveitir.

Ofsaveður engu breytir,

ennþá fara menn í leitir.

Hetjulund að hausti býr til heljarmenni

sem brjótast uppá brún og enni

og berjast þó að rigni og fenni.

Yfir fallvötn, undir fossa og upp um heiðar,

fara þeir með fjör til reiðar,

finna slóð og renna greiðar.

Svo þeir finna sauðahjörð er sumir kenna.

Ærnar sem á undan renna

aukakalóríum brenna.

Lambið sem við lindir beit og lá og skeit

fer nú heim í sína sveit.

Síðan ekkert meira veit.

En brátt af okkar barningsmönnum berast fréttir.

Gangnamenn í lundu léttir

loksins komast svo í réttir.

Fræknir menn sem fákum upp um fjöllin ríða

og syngja í fjallasölum víða.

Sumir jafnvel detta í'ða.

Því gangnamenn svo gjarnan finna glaðar stundir.

Soltnir bændur sækja í hrundir.

Sitthvað mun nú koma undir.

Magnús Kr. Gíslason orti hringhendu á sínum tíma:

Vítt til beggja veggja er enn.

Vegur seggja ei þröngur.

Fjöllin eggja fríska menn

fram að leggja í göngur.