Skálm Jökulhlaupið í sumar olli miklu tjóni á þjóðvegi 1 og segir oddviti Skaftárhrepps mikla heppni að brúin yfir Skálm hafi ekki orðið undir.
Skálm Jökulhlaupið í sumar olli miklu tjóni á þjóðvegi 1 og segir oddviti Skaftárhrepps mikla heppni að brúin yfir Skálm hafi ekki orðið undir. — Morgunblaðið/Hákon Pálsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Birta Hannesdóttir birta@mbl.is

Baksvið

Birta Hannesdóttir

birta@mbl.is

Sveitarstjórn Skaftárhrepps kallar eftir því að stjórnvöld bregðist við yfirvofandi hættu á þjóðvegi 1 vegna landbreytinga við Leirá sem varð m.a. til þess að jökulhlaup braust fram í ánni Skálm í sumar. Þetta kemur fram í ályktun í fundargerð hreppsins.

Jökulhlaupið í Leirá kom af fullum þunga í farveg Skálmarinnar og yfir nærliggjandi landsvæði 27. júlí sem olli miklu tjóni á þjóðvegi 1 og á túnum bænda á svæðinu. Á meðan flóðið stóð sem hæst þurfti að loka fyrir umferð og stóðu viðgerðir á veginum yfir í marga daga. Litlu mátti muna að brúin yfir Skálm yrði undir í flóðinu. Jóhannes Gissurarson, bóndi á Herjólfsstöðum og oddviti í Skaftárhreppi, segir í samtali við Morgunblaðið að mikil heppni hafi verið að brúin hafi staðið flóðið af sér.

Í ályktun sem sveitarstjórnin samþykkti á fundi í lok ágúst kom fram að afleiðingar hlaupsins hefðu verið gríðarlegar en að þær myndu ekki koma að fullu í ljós fyrr en í haust. Sveitarstjórnin lýsti yfir áhyggjum sínum í bókuninni og hvatti viðeigandi stofnanir og stjórnvöld til tafarlausra aðgerða til að bæta vöktun og viðbragð við slíkum náttúruhamförum.

Sveitarstjórnin leggur meðal annars til að settur verði upp vatnshæðarmælir við Leirá til að auka viðbúnað við jökulhlaup en í ályktuninni segir að fyrstu vísbendingar um jökulhlaupið hafi orðið vart þegar vatn flæddi yfir þjóðveg 1, í 25 kílómetra fjarlægð frá upptökum hlaupsins.

„Ljóst er, þrátt fyrir hvers kyns mæli- og vöktunarbúnað, að litlar sem engar vísbendingar gáfu til kynna hvers vænta mætti,” segir í ályktuninni.

„Ekki er annað hægt en að hugleiða hvað [gerist] ef stærri atburðir á borð við Kötlugos myndu bresta á. Má ætla að rík ástæða sé til þess að bæta vöktun, m.a. með með uppsetningu vatnshæðarmælis nærri upptökum Leirár, uppfæra rýmingaráætlun vegna jarðhræringa í Kötlu (síðast uppfærð 2017) og þá jafnframt að hún innihaldi endurskoðað plan B, varðandi rýmingu íbúa í Álftaveri og í raun á öllu svæðinu milli Múlakvíslar og Kúðafljóts,“ segir þar jafnframt.

Sendir á hættusvæði

Í ályktuninni er vakin athygli á því að samráði við viðbragðsaðila við skipulag lokunarpósta hafi verið ábótavant. Þá voru viðbragðsaðilar sendir á skilgreind hættusvæði þar sem takmarkað fjarskiptasamband er. Telur sveitarstjórnin að nauðsynlegt sé að bæta samráð við viðbragðsaðila og efla fjarskiptabúnað á svæðinu.

Þá er einnig vakin athygli á því að boðunarkerfi almannavarna hafi verið ábótavant. Jóhannes segir að dæmi séu um að þeir íbúar á svæðinu sem voru ekki á skrá björgunarsveita hafi frétt af atburðinum í gegnum fjölmiðla. Hann segir það vera í umsjá almannavarna að láta fólk á svæðinu vita ef hætta steðjar að. Þá eru dæmi um að SMS-skilaboð séu send út til fólks á svæðinu í slíkum aðstæðum og spyr Jóhannes hvort hafi ekki verið þörf á í þessu tilfelli.

Jóhannes segir að ef eins stór atburður og Kötlugos verði sé nauðsynlegt að boðunarkerfi almannavarna séu í lagi. Hann segist þó frekar hafa áhyggjur af ferðamönnum á svæðinu í slíkum tilfellum þar sem íbúar þekki ágætlega til hvernig bregðast eigi við Kötluhlaupi eða -gosi.

Þá vill sveitarstjórnin að innviðir á svæðinu, eins og löggæsla og heilbrigðisþjónusta, verði efldir til að tryggja öryggi íbúa og ferðamanna. Jóhannes segir að mikill fjöldi sé á svæðinu og að ferðamenn séu talsvert fleiri en íbúar. Þá segir hann að fjármagnið og mannafli sem heilsugæslan og löggæslan er með á svæðinu sé engan veginn í takt við þann mannfjölda sem er þar allan ársins hring. Sveitarstjórnin kallar einnig eftir því að Fjallabaksleið nyrðri verði betrumbætt svo hægt sé að nýta hana sem varaleið fyrir þjóðveg 1 „sem er lífæð samgangna í héraðinu“.

Miklar landbreytingar

Farvegur Leirár hefur fyllst að gríðarmikilli aurkeilu undan jökli sem beinir ánni nú út úr sínum aldagamla farvegi. Landbreytingarnar hafa orðið til þess að meginflóðbylgja hlaupsins í júlí kom fram í farvegum Skálmar, en gríðarleg landeyðing er á áhrifasvæði Skálmar/Leirár, hvort sem það er vegna þessa hlaups eða sífelldra breytinga á farvegum jökulvatnsins.

Í ályktun Skaftárhrepps er því haldið fram að um 6.000 til 7.000 hektarar landsins séu nú þegar innan verulegra áhrifa og fer það svæði stækkandi. Þá segir að stutt sé í að beinna áhrifa fari að gæta á þjóðvegi 1 á svæðinu á milli Skálmar og Kúðafljóts. Heimamenn í Álftaveri hafa varað viðeigandi stofnanir, Landgræðsluna og Vegagerðina, við þessari þróun landbreytinga án nokkurra viðbragða.

Höf.: Birta Hannesdóttir