[ Smellið til að sjá stærri mynd ]

Árni Sigurður Guðmundsson frá Neðri-Fitjum í Víðidal fæddist 9. júní 1936. Hann lést 23. júní 2020.

Guðrún Ástvaldsdóttir frá Þrastarstöðum í Kjós fæddist 8. ágúst 1940. Hún lést 17. júlí 2024.

Þau hjónin hófu búskap á æskuheimili Sigga á Neðri-Fitjum.

Þau eignuðust þrjú börn, þau Kristbjörgu Helgu, f. 13. júlí 1961, Elínborgu, f. 11. september 1965, og Guðmund, f. 27. maí 1975. Öll börnin eru gift og komin með myndarlegar fjölskyldur.

Guðrún og Sigurður hættu búskap 1974 og fluttu til Reykjavíkur. Guðrún var alla tíð húsmóðir en Sigurður vann sem bílstjóri hjá Hreinsunardeild Reykjavíkurborgar.

Útfarir þeirra fóru fram í kyrrþey.

Mig langar að minnast tveggja yndislegra manneskja og mikilla vina, Guðrúnar Ástvaldsdóttur sem dó í júlí síðastliðnum og eiginmanns hennar Sigurðar Guðmundssonar, sem dó í júní 2020. Þau hjónin dóu eftir stutt veikindi. Í daglegu tali voru þau kölluð Gunna og Siggi.

Ég kynntist þeim þegar ég var sjö ára, þá kom ég til þeirra í sveit að Neðri Fitjum. Ég var hjá þeim frá apríl og fram í október ár hvert þar til ég var 13 ára og leið mér mjög vel hjá þeim, það var ekki annað hægt, þau sýndu mér ávallt mikla góðmennsku. Hjá þeim bjuggu foreldrar Sigga, bróðir og systir. Ekkert rafmagn var hjá þeim né rennandi vatn, vatninu var dælt með höndum í stóra tunnu inni í bænum, ég man hve erfitt það var en varð að gera. Kerti og olíulampar voru notuð sem ljósmeti. Ég hef oft hugsað hvernig það hafi verið fyrir unga stúlku að byrja sinn búskap þar sem engin þægindi voru. Torffjós var á jörðinni og tvisvar á dag fór Gunna í fjósið og handmjólkaði hana Skjöldu sína sem þau fengu í brúðargjöf.

Mikill gestagangur var á bænum og fylgdi því mikill bakstur og matseld ofan í gröfu- og ýtumenn sem voru þar öll sumur í mat og gistingu, matur eldaður á glókolaeldavél í eldhúsinu og var kynt allan sólarhringinn. Allur matur var ýmist saltaður eða reyktur því enginn kælir eða frystir voru til.

Siggi var mikil og góð grenjaskytta og fór meirihluti sumars í að liggja á grenjum. Það var mikið verk að útbúa mat fyrir þessar ferðir hans sem oft tóku 5-10 daga. Ég dáðist að Gunnu við matarlagninguna, svo þurfti að leggja á hestana og koma öllu fyrir. Ég hef stundum hugsað til þess ef þessir menn hefðu haft ekki nema brot af þeim útilegubúnaði sem til er í dag, þá hefðu grenjaskytturnar ekki þurft að liggja í botnlausu tjaldi, alveg rennandi blautir og allur kosturinn þeirra líka. Ég heyrði Sigga aldrei kvarta eða að reyna að koma sér undan þessum verkum. Í mínum huga var Siggi hetja, duglegur og góður maður. Guðmundur faðir Sigga og annað heimilisfólk sá um heyskapinn og þau verk sem inna þurfti af hendi. Guðmundur var hjartahlýr og mátti ekkert aumt sjá og rétti öllum hjálparhönd sem á þurftu að halda.

Gunna hafði gaman af lestri, las mikið og Guðrún frá Lundi var í uppáhaldi hjá henni og undirrituð gat spjallað lengi við hana um persónur þeirra bóka. Gunna elskaði ketti og var yfirleitt köttur á heimili hennar og sá síðasti dó um svipað leyti og Gunna. Mig langar að minnast á eitt stórt áhugamál Sigga en það voru laxveiðar og ljómaði hann allur ef laxveiðar bar á góma.

Eftir að þau brugðu búi 1974 tók Siggi að sér fjárflutninga og akstur mjólkurbíls, en þá voru notaðir 50-60 lítra mjólkurbrúsar, þetta var erfiðisvinna.

Gunna og Siggi eignuðust þrjú börn Helgu, Elínborgu og Guðmund, barnabörn og barnabarnabörn eru orðin mörg.

Nú hafa þessi elskulegu hjón kvatt okkur og hist aftur. Ég vil þakka þeim fyrir alla góðvildina og skemmtilegheitin. Ég votta allri fjölskyldunni mína dýpstu samúð.

Birna Sigmundsdóttir.