Edmundo González Urrutia, frambjóðandi Lýðræðisbandalagsins, helsta stjórnarandstöðuflokks Nicholás Maduro forseta Venesúela, hefur flúið land og hlotið pólitískt hæli á Spáni. González var fluttur með aðstoð spænska hersins og flaug með spænskri herflugvél úr landi í gær

Edmundo González Urrutia, frambjóðandi Lýðræðisbandalagsins, helsta stjórnarandstöðuflokks Nicholás Maduro forseta Venesúela, hefur flúið land og hlotið pólitískt hæli á Spáni. González var fluttur með aðstoð spænska hersins og flaug með spænskri herflugvél úr landi í gær. Yfirvöld í Venesúela gáfu út handtökuskipun á hendur González eftir að stjórnarandstaðan dró niðurstöður kosninganna í júlí í efa, sem tryggðu Maduro forsetastólinn að nýju þvert á útgönguspár og fylgiskannanir. González hefur verið í felum í heimalandinu frá því að skipunin var gefin út.

Yfirvöld í Venesúela hafa umkringt sendiráð Argentínu í Caracas, höfuðborg Venesúela, sem hýsir nú sex pólitíska andstæðinga Maduros vegna gruns um að þar fari fram skipulagning hryðjuverka. Sendiráðið, sem og argentínsk hagsmunamál í Venesúela, hafa verið undir umsjá Brasilíu eftir að slitnaði upp úr diplómatískum samskiptum Argentínu og Venesúela í kjölfar forsetakosninganna í Venesúela í sumar.

Stjórnarkreppa hefur ríkt í Venesúela síðan í júlí þegar landskjörstjórn Venesúela lýsti Maduro sigurvegara kosninganna en sterkar vísbendingar eru um að Maduro hafi átt við niðurstöðurnar. Til að mynda er landskjörstjórn Venesúela, sem fer fyrir framkvæmd kosninga í landinu, alfarið skipuð samflokksmönnum hans.

Stjórnarandstaðan hefur mótmælt niðurstöðunum harðlega og kveðst hafa sannanir fyrir því að González hafi unnið með miklum meirihluta atkvæða. Fjölmargir þjóðarleiðtogar, þar á meðal frá Bandaríkjunum, Evrópuríkjum og nokkrum Suður-Ameríkuríkjum, hafa dregið niðurstöðurnar í efa og neitað að viðurkenna Maduro sem réttmætan sigurvegara þar til sundurliðun niðurstaðna kosninganna verði birt. Hafa landsmenn sömuleiðis gengið á götur út til að mótmæla niðurstöðunum og spillingu í landinu og hafa fjölmargir verið handteknir í kjölfarið.

Kjörstjórnin hefur ekki orðið við ítrekuðum áköllum borgara í landinu og alþjóðasamfélagsins um að birta niðurstöðurnar og segir kosningakerfi landsins hafa orðið fyrir netárás, en ekkert gefur þó til kynna að slík árás hafi átt sér stað.