Sigurður Guðmundsson fæddist á Háeyri í Vestmannaeyjum 17. maí 1931. Hann lést á Landspítalanum við Hringbraut 28. ágúst 2024.

Foreldrar hans voru hjónin Guðmundur Jónsson skipasmiður, f. 14. október 1888, d. 27. nóvember 1976, og Jónína Steinunn Sigurðardóttir húsfreyja, f. 1890, d. 1970. Börn þeirra Þórarinn Anton Jóhann, Árni Guðmundur, Sigurást Þóranna, Hermann Óskar og Ágúst Ingi eru látin.

Hinn 25. desember 1957 giftist Sigurður Elsu Guðjónu Einarsdóttur, f. 30. janúar 1936, d. 26. febrúar 2009. Foreldrar hennar voru Sigurlaug Guðmundsdóttir og Einar Björnsson. Börn Sigurðar og Elsu eru: 1) Elísabet, f. 1953, maki Jón Ó. Karlsson. Dætur a) Brynja, f. 1974, b) María f. 1977, maki Smári Einarsson, og c) Eyrún, f. 1980, sambýlism. Ívar Örn Helgason. 2) Einar H., f. 1959, maki Ursula Sigurðsson. Synir a) Lars Oliver, f. 1994, maki Alysha Sigurðsson, b) Niels Kristofer, f. 2001, og c) Björn Skyler, f. 2004. 3) Árni, f. 1965, maki Andrea Sigurðsson. Börn a) Kristín Elísa, f. 1992, sambýlism. Sveinbjörn Már Bergmann, og b) Stefán Ingi, f. 1998, sambýlisk. Robyn Hager. 4) Jónína, f. 1975, maki Guðmundur T. Axelsson. Börn a) Embla Rán Jónínu, f. 2002, b) Elsa Björg, f. 2005, c) Emil Aron, f. 2008, og d) Karolína Ósk, f. 2009. Sigurður átti áður Ástu, f. 1950, og Heimi, f. 1951, maki Gróa Pétursdóttir. Dætur Ástu eru a) Anna Lilja Sævarsdóttir, f. 1969, maki Unnsteinn E. Jónsson, og b) Hildur Lind Sævarsdóttir, f. 1983. Börn Heimis eru a) Unnur María, f. 1971, maki Vidar Brennodden, b) Sigríður Nanna, f. 1976, maki Sighvatur Ó. Kristinsson, c) Arnþór, f. 1977, maki Alicja Yee-Bin Lei, og d) Pétur Oddbergur, f. 1984. Samtals átti Sigurður 24 barnabarnabörn.

Sigurður var ávallt kallaður „Siggi á Háeyri“. Sigurður og Elsa byggðu sér heimili að Austurhlíð 5, sem fór undir hraun í gosinu 1973. Þau bjuggu lengst af á Bröttugötu 35 og síðar í Þverbrekku 4, Kópavogi, til æviloka. Sigurður lauk gagnfræðiprófi og lærði húsasmíðameistarann og starfaði við það mestan hluta ævi sinnar. Einnig var hann lærður fiskmatsmaður og starfaði í sjávarútvegi um árabil. Hann var starfsmaður Viðlagasjóðs í Eyjum í gosinu og gaf út bókina Undir hraun árið 2013.

Hann var virkur í félagsstarfi, var þ. á m. formaður Lionsklúbbs Vestmannaeyja og svæðisstjóri Suðurlands. Hann byrjaði að spila á trommur 14 ára með Lúðrasveit Vestmannaeyja, undir leiðsögn Oddgeirs Kristjánssonar, og lauk síðar prófi hjá FÍH sem trommuleikari. Sigurður spilaði með ýmsum hljómsveitum, má þar nefna Sextett HG, hljómsveit Guðjóns Pálssonar og hljómsveit Árna Elvars. Í seinni tíð spilaði hann með Harmonikkufélagi Reykjavíkur og léttsveit félagsins, Grundarbandinu og Lóu og lundunum. Sigurður átti langan tónlistarferil að baki, hann spilaði á trommur í hátt í 80 ár. Hann var áhugamaður um knattspyrnu, æfði með Tý og var stuðningsmaður Arsenal.

Útför Sigurðar fer fram frá Kópavogskirkju í dag, 9. september 2024, klukkan 13. Athöfninni verður streymt, hlekk á streymi má nálgast á: www.mbl.is/andlat

Í dag kveðjum við elsku pabba okkar, sem lést eftir stutt en erfið veikindi.

Þú varst Eyjamaður af lífi og sál og tengingin var alltaf sterk, þrátt fyrir að hafa flutt upp á land í kringum aldamótin. Þú fórst eins oft og þú gast til Eyja með fjölskyldu og félögum.

Þú varst öðlingur og jákvæður, vildir öllum gott gera, ljúfur og alltaf tilbúinn að hjálpa hvort sem var við smíðar eða barnapössun. Þú varst með mikið jafnaðargeð og aldrei sáum við þig skipta skapi, sama hvað gekk á hjá okkur eða í lífi ykkar mömmu. Góðmennska þín og umhyggjusemi sýndi sig vel í veikindum mömmu, þú reyndist henni afar vel.

Þið mamma genguð í gegnum margt, meðal annars misstuð þið húsið ykkar í Austurhlíð 5 í Eyjagosinu 1973. Fljótlega eftir gosbyrjun fórst þú til Eyja að vinna hjá Viðlagasjóði við að bjarga verðmætum. Aldrei kom neitt annað til greina en að flytja aftur til Eyja og þá í nýja húsið okkar á Bröttugötu 35.

Þú varst sérstaklega fróður og minnugur um öll heimsins mál. Við leituðum oft til þín þegar okkur vantaði upplýsingar um hitt og þetta eins og ættfræði, íslenska tungu og málshætti. Þér þótti vænt um Eyjarnar og Háeyri og þín æskuár þar, má þar nefna Lautina og fótboltann, og þú hafðir gaman af að segja sögur frá þeim tíma.

Félagsskapur var þér mikilvægur. Þú hafðir gaman af að vera innan um annað fólk og þér þótti vænt um vini þína. Þú hittir Reynisbræður í göngu í Fífunni á morgnana og svo var farið í Reynisbakarí þar sem mikið var spjallað. Þetta var þér mikilvægt og hélt þér gangandi.

Tónlistin var stór hluti af lífi þínu og þú naust þess að spila fyrir fólk með þeim hljómsveitum sem þú spilaðir með í gegnum árin. Þú elskaðir djass og hlustaðir reglulega á hann allt fram á síðasta dag. Við minnumst þess að heyra djass á plötuspilaranum frá unga aldri og við nutum þess að fara á djasstónleika saman.

Við söknum þess að geta ekki hist og spjallað, horft saman á fótboltann, þá sérstaklega Arsenal, og rætt um leikina og dómgæsluna. Þú hafðir mikinn áhuga á íþróttum og fylgdist með íþróttaiðkun barnabarnanna og naust þess að horfa á leiki með þeim.

Í dag kveðjum við þig elsku pabbi og þökkum fyrir allt sem þú hefur gert fyrir okkur. Vonandi líður þér vel núna eins og þú vildir ávallt að okkur liði.

Minning þín lifir.

Þín

Elísabet, Einar, Árni og Jónína.

Þegar ég kynntist eiginkonu minni, Jónínu, dóttur Sigga á Háeyri, eignaðist ég ekki einungis tengdaföður heldur góðan vin. Siggi var alltaf jákvæður og hress, hafði gaman af góðu spjalli og þá sérstaklega að segja skemmtilegar sögur frá Eyjum. Við deildum ýmsum áhugamálum, svo sem íþróttum og tónlist, þá sérstaklega djassi. Ég hafði erft áhuga á djassi frá föður mínum og náði ég að deila þeim áhuga mínum með Sigga sem vissi allt um gömlu snillingana svo sem Stan Getz, Dave Brubeck, Miles Davis, Charlie Parker og alla hina. Oftar en ekki sátum við saman, drukkum kaffi, hlustuðum á djass og spjölluðum. Við sóttum stundum djasstónleika með íslenskum flytjendum og sat þá Siggi og trommaði allan tímann með höndunum á hnén í takt við tónlistina. Við horfðum oft saman á enska boltann og fórum á völlinn, þá sérstaklega ef ÍBV var að spila.

Siggi var einstakur maður, hjartahlýr og fór hann aldrei í manngreinarálit. Hann hafði mikla samkennd með þeim sem minna máttu sín og má segja að það hafi endurspeglað stjórnmálaskoðanir hans í gegnum tíðina. Hann var alla tíð mikill pælari og listamaður en það geta ekki allir státað af því að hafa spilað á trommur í 80 ár eins og hann.

Þegar fjölskyldan stækkaði og börnin komu hvert af fætur öðru í heiminn þá var Siggi alltaf til í tuskið, leika við krakkana og eiga með þeim gæðastundir sem eru þeim ógleymanlegar. Hann var alltaf til í ferðalög sama hvort það var að skreppa í sumarbústað, til Eyja, Akureyrar eða Ameríku.

Siggi var frábær afi, tengdapabbi og síðast en ekki síst vinur. Elsku Siggi þín verður sárt saknað. Ást að eilífu.

Guðmundur Tómas og Embla Rán Jónínu.

Nú ertu farinn elsku afi. Ég á fullt af góðum minningum með þér og þú munt alltaf eiga stað í hjarta mínu. Þú varst alltaf í góðu skapi og komst manni til að hlæja. Þú varst jákvæður og góður við allt og alla. Það var gaman að gera alls konar hluti saman, eins og að fylgjast með boltanum. Þú komst alltaf að horfa á mig keppa þegar þú gast og mér þótti mjög vænt um það. Þú hvattir mig alltaf áfram og hrósaðir mikið. Þú hjálpaðir og studdir mig alltaf í boltanum.

Þú hafðir mikinn áhuga á íþróttum og horfðum við saman á Ólympíuleikana. Þú sagðir mér oft sögur frá Eyjum og þegar þú varst lítill. Það var alltaf rosagaman að gista hjá þér og ég skemmti mér mjög vel. Við spiluðum oft saman, horfðum á myndir og fórum í ísbúð. Ég elskaði að koma í heimsókn og borða kjötsúpuna þína með fjölskyldunni. Það var mjög gaman á jólunum með þér þegar við spiluðum, borðuðum góðan mat og opnum pakka saman. Það var mjög gaman að ferðast með þér til Eyja, þar sýndir þú okkur margt skemmtilegt, og ferðast saman til Ameríku og á fleiri staði. Þú varst alltaf hjálpsamur og talaðir fallega til okkar og um aðra. Þú hugsaðir vel um okkur systkinin og mér leið mjög vel að hafa þig í kringum mig.

Þú varst með mjög stórt hjarta og gjafmildur. Þú varst mjög duglegur að hreyfa þig, fórst í göngu á hverjum degi, og að hitta vini þína. Þú varst góð fyrirmynd og gafst aldrei upp. Þú spilaðir á trommur í að verða 80 ár og spilaðir á síðasta ballinu 93 ára. Þú varst ótrúlega klár og vissir allt sem ég spurði þig um og þú kenndir mér svo margt, eins og að stokka spilastokk. Við eignuðumst fullt af minningum saman. Ég elska þig afi og þú verður alltaf í uppáhaldi hjá mér.

Elsku besti afi, takk fyrir allt.

Þín

Karolína Ósk.

Ein kjölfesta Harmonikufélags Reykjavíkur hefur nú kvatt okkur. Við kölluðum hann Sigga trommara eða Sigga á Háeyri. Hann hélt starfi félagsins gangandi í ótal mörg ár með taktföstum áslætti og leiddi okkur þannig í gegnum æfingar, tónleika og dansleiki eins og herforingi sem leiðir flokk sinn til orrustu. Flest okkar í félaginu spilum á harmonikku og þekkjum vel hætturnar sem leynast við belgstjórnun á dragspili þegar finna þarf hljómsveitinni hinn „rétta“ hraða og samhæfða hljóm. Leikni Sigurðar fólst einmitt í því að stjórna hljóðfæraleik okkar með trommuslætti sínum og halda þannig aftur af spilahraðanum líkt og nauðsynlegt er í umferðinni „til að hafa stjórn á aðstæðum“. Mikilvægastur var hann á sviðinu, þegar búið var að stilla sveitinni upp. Því einmitt þá, þegar áheyrendur biðu eftir fyrstu tónunum, var mest hætta á því að reykspólað yrði af stað með skelfilegum afleiðingum fyrir flutninginn.

Síðustu árin kom úthald Sigurðar og þolinmæði okkur skemmtilega á óvart. Því fyrir utan það fyrirtæki, að flytja trommurnar á milli staða og stilla upp, fylgdi því álag að berja húðirnar í tvær klukkustundir í senn. Jafnframt þessum félagsskap sinnti hann öðrum hljómsveitum líka sem aldrei virtist trufla hann. Einnig kættumst við yfir því hve iðinn hann var að fylgja okkur um allar koppagrundir, hvort sem var innan höfuðborgarsvæðisins eða á sveitaböllin. Ef til vill hefur þetta puð reynst honum hin besta heilsubót fram á efri ár og gert hann „fjörgamlan“ þ.e. fjörugan gamlan. Sigurður var nefnilega eftirminnilegur fyrir glaðværð og kímni og munum við öll minnast hans fyrir einmitt það hversu góður félagi hann var. Hann sagðist aðeins einu sinni hafa misst trommutaktinn og það vegna gáttaflökts. „Ómögulegt ástand fyrir trommara að missa svona taktinn þannig að ég lét læknana á Landspítalanum kippa því í lag,“ sagð'ann og glotti. Um leið og við þökkum Sigga okkar trommara fyrir samfylgdina og allar góðu minningarnar, þá sendum við fjölskyldu hans innilegar samúðarkveðjur.

F.h. Harmonikufélags Reykjavíkur,

Ólafur Briem.

hinsta kveðja

Elsku besti afi, takk fyrir að vera alltaf svona góður og skemmtilegur. Takk fyrir að vera alltaf til staðar og vera mín helsta fyrirmynd í lífinu. Takk fyrir að styðja mig alltaf í handboltanum. Ég er mjög heppin að eiga þig sem afa og er ég þakklát fyrir að eiga svona margar góðar og fallegar minningar saman. Takk fyrir að vera þú og vera alltaf bestur.

Hvíldu í friði,

Þín

Elsa Björg.

Elsku afi, ég sakna þín mikið. Það var var gott að knúsa þig og vera með þér. Þú ert svo skemmtilegur og alltaf hress. Mér finnst kjötsúpan þín vera góð og það var gaman að spila með þér ólsen ólsen.

Takk fyrir allt afi.

Elska þig, þinn

Emil Aron.