Ólafur Magnússon fæddist 5. október 1930. Hann lést 14. júlí 2024.

Útför fór fram í kyrrþey 25. júlí 2024.

Ólafur Magnússon Lionsfélagi okkar lést 14. júlí sl. Hann var ávallt kenndur við fæðingarhúsið sitt Höskuldarkot og kallaður Óli í Koti. Óli var sonur þeirra merkishjóna Magnúsar Ólafssonar og Þórlaugar Magnúsdóttur í Höskuldarkoti. Magnús var einn stærsti útvegsmaðurinn í Njarðvík á fyrri hluta síðustu aldar og lét byggja fyrir sig báta erlendis á kreppuárunum sem þótti mjög athyglisvert á þeim tíma. Var hann forgöngumaður um ýmis framfaramál, m.a. hafnargerð í Ytri-Njarðvík. Þegar Ungmennafélag Njarðvíkur og Kvenfélag Njarðvíkur, bæði stofnuð árið 1944, keyptu herbragga undir félagsstarf sitt, en fengu hvergi lán fyrir kaupunum, þá lánaði Magnús þeim fyrir kaupverðinu 30 þúsund krónur að því er fram kemur í Sögu Njarðvíkur. Húsið var síðar kallað Krossinn og varð það einn þekktasti samkomustaðurinn á Suðurnesjum. Óli í Koti hefur því ungur kynnst athafnalífinu og stóð sjálfur á eigin fótum alla tíð og stofnaði ásamt fleirum Steypustöðina í Njarðvík sem var þá sú eina á Suðurnesjum. Þegar undirritaður flutti í Njarðvík 1990 blasti Steypustöðin við úr skrifstofuglugganum á bæjarskrifstofunni á Fitjunum í Njarðvík.

Ég kynntist Óla í Koti fljótlega eftir að ég gekk í Lions. Ég tók fljótt eftir því að hann var mikill Lionsmaður og tók þátt í starfinu af einurð. Þegar klúbburinn byrjaði að fjármagna styrkveitingar sínar til góðgerðarmála með sölu jólahappdrættis var Óli duglegur að safna vinningum. Hann var einnig fyrstur til að selja sinn skammt af happdrættismiðum og seldi líka fyrir ýmsa aðra. Var hann söluhæsti félaginn lengi vel, með fastan kúnnahóp. Óli var mjög hjálplegur og vildi leysa hvers manns vanda. Þegar ég fór í hnéaðgerð og var nokkuð haltur á eftir kom Óli að máli við mig og vildi gefa mér ráð til að lina verkina. Hann hafði sjálfur átt í vandamálum með hnén á sér og sagðist hafa látið lækni sprauta hanakambi í bæði hnén. Það virkaði mjög vel að sögn Óla og gat hann hjólað eftir það um allan bæ án þess að finna til. Ég bar þessa reynslusögu undir lækninn minn sem fannst þetta ekki mjög líkleg aðferð til árangurs. Ég ég vildi þó fara að ráðum Óla og lét sprauta þessu í hnén á mér sem er efni í fljótandi formi unnið úr hanakambi. Viti menn, þetta virkaði fljótlega og hef ég getað spilað golf verkjalaus nú 13 árum síðar. Óli var sæmdur Melvin Jones-merkinu árið 2000 og gerður ævifélagi árið 2008. Óli var formaður Lionsklúbbs Njarðvíkur 2006-2007 og ritari 1974-1975. Óla í Koti er minnst af félögum sínum sem afskaplega trausts félaga sem var ávallt fyrstur til þegar rétta þurfti hjálparhönd. Óli var kvæntur Guðbjörgu Stefaníu Daníelsdóttur. Þau áttu fallegt heimili og voru bæði létt í skapi og þóttu höfðingjar heim að sækja. Að leiðarlokum vilja Lionsfélagar þakka Óla í Koti fyrir hans farsælu störf fyrir Lionsklúbb Njarðvíkur. Jafnframt vottum við Guðbjörgu, afkomendum og öðrum ættingjum hans og vinum okkar dýpstu samúð. Drottinn blessi minningu Óla í Koti.

F.h. Lionsklúbbs Njarðvíkur,

Kristján Pálsson.