Jóhann L. Helgason
Jóhann L. Helgason
Sjálfstæðisflokkurinn hefur fjarlægst mjög fólkið í landinu með margvíslegum hætti, og þarf alveg bráðnauðsynlega að byrja á því að tala við þjóð sína á því tungumáli sem hún skilur.

Jóhann L. Helgason

Á fundi Sjálfstæðisflokksins um daginn komst ráðherrann Guðlaugur Þór einkennilega að orði í ræðupúltinu vegna slæmrar stöðu Sjálfstæðisflokksins í skoðanakönnun stuttu áður, eða 13,9% fylgi. Einhvern veginn svona orðaði ráðherrann setninguna: Vandamál Sjálfstæðisflokksins í dag er ekki því ágæta fólki að kenna sem er á þessum fundi hér og undir þessu þaki. Það er nefnilega það.

Hvað sagði litla gula hænan í ævintýrinu, nefnilega „ekki ég“. Eins og ráðherrann orðaði það óbeint, „ekki ég“. Og sama er það með hænuna og Guðlaug, þau hafa rangt fyrir sér.

Ef yfirmenn á skipi stýra skipi sínu upp á sker eru þeir alfarið ábyrgir fyrir atvikinu, og þá sérstaklega skipstjórinn sem ber höfuðábyrgðina. Stjórn Sjálfstæðisflokksins ber höfuðábyrgð á hruni hans, sem sat öllu undir þessu sama þaki á þessu augnabliki, og þá Guðlaugur Þór meðtalinn.

Eða geta kannski Guðlaugur Þór og félagar bent okkur hinum á einhverja aðra sem hafa valdið þessu hruni Sjálfstæðisflokksins? Ég held ekki.

Um daginn mætti í sjónvarpsviðtal vegna lakrar stöðu Sjálfstæðisflokksins stór maður og mikill um sig, mikið hvíthærður, og alveg í bráðskemmtilegum stuttbuxum, pólitískur spekingur og held ég að hann heiti Ólafur.

Var þessi maður með allnokkuð furðulega skýringu á þessu hruni Sjálfstæðisflokksins á undanförnum mánuðum og árum, og svona í leiðinni gaf hann uppáskrifaðan lyfseðil fyrir flokksstjórnina að gleypa til að hressa við fylgi flokksins, en lyfið hljóðaði upp á að Sjálfstæðisflokkurinn ætti að innleiða stefnumál Miðflokksins.

Persónulega held ég að Sjálfstæðisflokkurinn þurfi ekkert að læðupokast í vopnabúr Miðflokksins til að næla sér í hugmyndir hans, heldur snúa sér að eigin innanhússvandamálum og brýna sverðin.

Hver getur fullyrt að öll stefnumál Miðflokksins séu eitthvað til fyrirmyndar þótt honum gangi sæmilega þessa dagana? En sjálfsagt eru þar góð mál inni á milli, eins og hjá öðrum flokkum, sem eru þá oftast falin undir teppinu og líta aldrei dagsins ljós.

En hinn pólitíski spekingur missir alfarið af því hvað það raunverulega er sem hefur komið þessum stóra flokki í þessa stöðu, þótt skýringin sé að allflestu leyti mjög sýnileg.

Og hún er sú að Sjálfstæðisflokkurinn hefur fjarlægst mjög fólkið í landinu með margvíslegum hætti, og þarf alveg bráðnauðsynlega að byrja á því að tala við þjóð sína á því tungumáli sem hún skilur, og ekki síður að hlusta á rödd hennar sem hefur lengi hrópað eftir lagfæringum og breytingum í eftirfarandi málum:

Húsnæði er í miklum og hömlulausum verðhækkunum, sem er afleit staða, unga fólkið er úti í kuldanum og getur hvorki keypt né leigt.

Íslenska íbúðalánakerfið er algerlega ónothæft og hefur verið lengi, enda ekki líkt neinu kerfi sem nágrannalönd okkar nota, og hér borgar fólk margfalt hærri vexti og afborganir en tíðkast annars staðar. Íslenska íbúðalánakerfinu má líkja við opinbera rányrkju úr veski almennings.

Virkjunarframkvæmdir hafa verið í frosti þó nokkuð lengi og það hefur valdið þjóðinni miklum búsifjum.

Næstum óheft hælisleitendaflæði inn í landið, langt umfram það sem tíðkast erlendis.

Hin dýra matarkarfa er að sliga heimilin í landinu og margt eldra fólk flýr Ísland.

Tel ég nú ekki meira upp, en af nógu er að taka, og hvað hafa íslensk stjórnvöld verið að gera fyrir þjóð þessa síðastliðin sjö ár sem jákvætt getur talist?

Það er eins og orðið frelsi sé hið einna og sanna lífsmynstur sem við mennirnir þurfum á að halda að mati Sjálfstæðisflokksins. Óheft frelsi getur ótamið fljótt leitt til ófrelsis og hörmunga mannanna. Frelsi innan ramma laga og regluverks getur leitt af sér gott samfélag ef skynsamlega er haldið á spilunum. Án skipulags og lýðræðislegra stjórnarhátta verður aldrei til neitt annað en óreiða og óréttlæti.

Mitt ráð til Sjálfstæðisflokksins er að byrja að hlusta á lág- og millistéttina, það er hópurinn sem er og hefur verið að yfirgefa Sjálfstæðisflokkinn. En töpuðu fylgi er erfitt að ná til baka þegar traustið og tiltrúin eru farin, og þar munu stefnumál Miðflokksins ekki bjarga neinu.

Höfundur er eldri borgari.

Höf.: Jóhann L. Helgason