Anna Gísladóttir fæddist 30. desember 1924. Hún lést 25. ágúst 2024. Útför fór fram 6. september 2024.

Í hárri elli hefur Anna Gísladóttir nú kvatt eftir langvarandi veikindi. Ung hélt hún við stríðslok árið 1945 út í óvissuna til Bandaríkjanna og lauk þar háskólanámi með glæsibrag. Síðan gerðist hún frumkvöðull á sviði heimilisfræða hér á landi. Á löngum starfsferli vann hún við kennslu og fræðistörf. Afraksturinn var meðal annars sú merka bók, Við matreiðum, sem hún samdi ásamt Bryndísi Steinþórsdóttur og hefur verið handbók leikra sem lærðra um áratugi.

Anna Gísla giftist Sigurði móðurbróður mínum, og þessi góðu hjón voru frá fyrstu tíð afar náin fjölskyldu minni. Samskiptin voru dagleg milli okkar í Snekkjuvogi 3 og þeirra í Karfavogi 36 þar sem synir Önnu og Sigga ólust upp. Það var farið „út í hús“, á hvorn veginn sem var. Það styrkti þetta samband að Maren amma mín bjó hjá Önnu og Sigga, og ekki hefði gamla konan getað óskað sér betri tengdadóttur enda einkenndist samband þeirra af virðingu og væntumþykju.

Höfðingjabragur var yfir matarveislunum í Karfavoginum. Og svo þessi hlýhugur í garð ættingja og vina. Minnisstætt er mér þegar Vala systir mín fæddist sumarið 1963 og móðir mín var veikburða um tíma á eftir. Þá kom Anna á hverjum morgni í Snekkjuvoginn og leiddi ömmu mína sér við hönd. Nágrannar veittu þessari hugulsemi eftirtekt og sögðu að litla stúlkan hlyti að verða skírð Anna Maren.

Þessi indæli tími í Vogunum tók breytingum þegar Anna fluttist úr hverfinu við skilnað þeirra hjónanna. En mikið varð móðir mín glöð þegar Anna kom aftur í Austurbæinn allmörgum árum síðar og settist að í Ljósheimum 10. Vinátta þeirra tveggja styrktist með hverju ári. Og eftir að mamma var orðin ekkja og slæm til heilsu fékk Anna hana til að koma og spila bridds með skólasystrum sínum úr menntaskóla, Herdísi Vigfúsdóttur og Sigríði Ingimarsdóttur, þeim bráðskemmtilegu kvenskörungum. Þetta var ómetanlegt vinarbragð. Og fleira gerði Anna til að stytta móður minni stundir. Hún dreif hana í gönguferðir um Vogahverfið og Laugardalinn og þurfti stundum að beita sannfæringarkrafti til að þetta mætti verða. En gönguferðirnar með Önnu voru auðvitað sannkölluð upplyfting og heilsubót.

Með þakklæti og virðingu kveðjum við Finna okkar góðu vinkonu og minnumst margra ánægjustunda í návist hennar.

Baldur Hafstað.

Anna frænka hefur lokið farsælli vegferð eftir nærri hundrað ára æviskeið. Á barnsaldri átti ég því láni að fagna að dvelja stundum hjá henni í Karfavoginum og þeir dagar eru ljóslifandi í minni. Ekki vegna þess að Anna frænka hafi verið sérstök barnagæla, heldur vegna þess að hún talaði einmitt við mann eins og viti borna mannveru en ekki eins og fávíst barn. Hún var traust og hlý og bjó yfir mildri ákveðni, sem gerði að verkum að barni fannst það ekki vera að fylgja neinum skipunum þótt hún segði fyrir verkum eða legði til að maður ætti að haga sér frekar á þennan veginn en hinn. Það var heldur að maður liti svo á að maður væri í eins konar samstarfi með henni svo heimurinn gæti haldið áfram að vera þægilegur og öruggur. Það voru tveir hlutir úr eignasafni Gísla, yngri sonar hennar, sem hann hafði stranglega forboðið að yngsti frændi hans hefði hendur á: indíáninn á hestinum, með öllum sínum merkilegu og spennandi fylgihlutum, og Andrésar Andarblaða-safnið, skipulega fært inn í dimmrauðar möppur. Að sjálfsögðu var þetta forboð virt á meðan Gísli var heima, en þegar hann var farinn á vit leikfélaga þótti móður hans einboðið að leyfa mér að handleika þessa dýrgripi, indíánann stórfenglega og hið dýra handritasafn í rauðu möppunum. Um það hafði hún fá orð, en mild og ákveðin, svo ég skildi þegar að ég væri að njóta forréttinda sem ég sjálfur bæri ábyrgð á hvort ég fengi að njóta aftur. Það voru gullnar stundirnar sem ég átti á stofugólfinu í Karfavoginum með indíánanum, hinum fráa reiðskjóta hans og þeim úrvals bókmenntum sem Andrés Önd var í þá daga. Á meðan sat Anna frænka álengdar í stofunni og reykti smávindil. Það fannst mér stórfenglegt að sjá. Ég hafði aldrei séð konur reykja annað en sígarettur, en Anna frænka fór sínar eigin leiðir í þessu sem öðru. Ég heimsótti hana nokkrum sinnum í Ljósheimana þegar hún var um nírætt. Eitt sinn, eftir höfðinglegar veitingar og langt samtal, bað hún mig afsökunar; hún þurfti eiginlega að fara að drífa sig í jógatíma upp á Suðurlandsbraut. Ég bauðst til að aka henni, en það kom ekki til greina, þrátt fyrir slyddu og slabb. Hún var ávallt mikill göngugarpur, sem áreiðanlega átti sinn þátt í því hversu hraust hún var, alveg fram á hinsta dag. Árin sem ég var að vaxa úr grasi hjá móður minni og ömmu kom hin umhyggjusama föðursystir mín iðulega til okkar færandi hendi. Ekki aðeins með pakka fyrir jólin, heldur einnig með kassa af matvælum ásamt fatnaði af ýmsu tagi handa frænda sínum. Ég þakka hinni góðu frænku minni gullnar stundir á bernskudögum, ástúð hennar, tryggð og ræktarsemi alla tíð. Gísli og Guðrún kveðja nú hvort sína móður og tengdamóður með skömmu millibili og einnig barnabarn sitt, litla drenginn Victor Gísla. Það er þungur harmur fyrir unga foreldra hans og fjölskylduna alla. En örugg og kærleiksrík verður fylgdin sem hann fær með langömmum sínum yfir í land hinnar eilífu æsku þar sem sólin aldrei sest. Blessuð sé minning Önnu frænku, Jónínu Guðmundsdóttur og Victors Gísla Danielssonar Syen.

Friðrik Erlingsson.

Þegar ég flutti til Íslands haustið 1988 tók móðursystir mín af mér það loforð að ég setti mig í samband við Önnu vinkonu sína sem ég og gerði. Þær höfðu kynnst í námi í Danmörku og haldið sambandi síðan. Móðursystir mín ferðaðist oft til Íslands í ýmiss konar norrænum verkefnum og var mikill Íslandsvinur. Og hún var svo sannarlega líka Önnuvinur ef svo má segja. Henni fannst mikilvægt að ég ætti einhvern að á Íslandi sem þekkti fjölskyldu mína. Þannig varð Anna fyrsti tengiliður minn hér á Íslandi. Fyrsta matarboðið mitt hjá henni samanstóð af spaghettí og silungi – eða því sem til var í ísskápnum.

Við fjölskyldan minnumst með hlýju notalegra afmælisveislna, kaffiboða, ýmissar samveru sem tengdist börnunum okkar – skírnar, ferminga og útskrifta – og eins þegar móðursystir og mamma mín komu í heimsókn. Anna var hrein og bein og átti auðvelt með að aðlagast öllu þessu mismunandi fólki í kringum mig. Þakklæti er mér efst í huga þegar ég hugsa um velvild hennar í garð minn og fjölskyldu minnar.

Ida, Bjarni, Guðmundur, Elisabet og Anna Kristín.

Eiginlega hef ég þekkt Önnu Gísla frá því áður en ég varð til. Þau pabbi voru samstúdentar og atvikin höguðu því svo að þær mamma voru samtíða í Minneapolis í Bandaríkjunum eftir seinna stríð, mamma að læra blaðamennsku en Anna að nema sín matvælafræði – báðar frumherjar, hvor á sínu sviði. Báðar voru þær dætur iðnaðarmanna sem byggðu upp farsælan rekstur úr sinni iðn; báðar áttu þær eftir að eignast tvo stráka með körlum sem báðir voru nokkurs konar liðhlaupar úr borgarastéttinni; báðar bjuggu þær í raðhúsi í Karfavoginum og báðar unnu utan heimilis, sem var óvenjulegt á þessum árum. Báðar sáu líka til þess, án strangleika eða stífni, að heimilishaldið væri í þeim skorðum sem börn þurfa á að halda. Við Gísli sonur Önnu urðum heimagangar hvor hjá öðrum eiginlega strax og við rötuðum þessa metra milli húsanna, svo að segja má að ég hafi átt Önnu að frá því að ég man eftir mér. Eins og vænta má þegar um er að ræða lítinn dreng og mömmu vinar hans snúast minningarnar meira og minna um góða og holla matinn sem var á borðum þar, milda og hlýja nærveru hennar og brosið sem einatt lék um hennar fríða andlit; ekki fór á milli mála að hún hafði gaman af okkur. Anna lifði langa ævi og farsæla, kom mörgu í verk og var sannkallaður brautryðjandi í sínum næringarfræðum. Þegar ég fór svo að búa, fullkomlega fákunnandi um alla matargerð eins og ungir karlar voru iðulega á þeim árum, kom bókin hennar og Bryndísar Steinþórsdóttur, Við matreiðum, sér oft vel, og þannig hélt hún áfram að ala mig upp, þótt með óbeinum hætti væri. Þegar ég hitti Önnu í áranna rás í veislum hjá Gísla og Guðrúnu og settist hjá henni til að spjalla við hana breyttist ég jafnan sjálfkrafa í litla drenginn úr næsta húsi, strákinn hennar Möggu, hann Andra litla, og því fylgdi hlý tilfinning hið innra sem erfitt er að færa í orð. Með Önnu hverfur úr þessu jarðlífi síðasti frumbýlingurinn í raðhúsinu í Karfavoginum og síðasta tengingin sem við höfðum við kynslóðina sem ól okkur upp og kom okkur til manns. Ég þakka fyrir mig og votta fjölskyldu hennar samúð. Guð blessi minningu Önnu Gísladóttur.

Guðmundur Andri Thorsson.