Jón Bjarni Jóhannesson fæddist 17. september 1942 í Hlíðarhaga, Saurbæjarhreppi í Eyjafirði. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Hlíð á Akureyri 24. ágúst 2024.

Foreldrar Jóns voru Jóhannes Jóhannesson, f. 19. maí 1907, d. 24. nóvember 1995, og Valgerður Sigurvinsdóttir, f. 6. ágúst 1918, d. 24. maí 1996. Seinni maður hennar var Sigtryggur Jónsson, f. 3. júlí 1920, d. 23. desember 1993.

Systkini Jóns eru: Guðrún Borghildur, f. 24. janúar 1941, eiginmaður hennar Stefán Ásgeir Guðmundsson, f. 2. ágúst 1931, d. 30. janúar 1996, þau áttu sjö börn; Sigurvin Guðlaugur Þór, f. 21. september 1946, eiginkona hans Margrét Björgvinsdóttir, f. 5. nóvember 1949, og eiga þau tvo syni; Sigríður Heiðbjört, f. 1. febrúar 1954, eiginmaður hennar Eiður Gunnlaugsson, f. 12. mars 1957, og eiga þau þrjú börn. Uppeldissystir Jóns er Rósamunda Káradóttir, f. 29. júní 1941, eiginmaður hennar Ásgeir Halldórsson, f. 10. júlí 1934, d. 16. september 2016.

Eiginkona Jóns er Vilborg Salberg Elídóttir Olsen f. 22. október 1949.

Dætur þeirra eru: 1) Sigríður Valgerður, f. 24. júlí 1972. Börn hennar eru

Stefán Jón Steinþórsson, f. 31. desember 1997, sambýliskona Kamilla Ósk Guðmundsdóttir, f. 14. júní 1989, og á hún tvo syni, þá Guðmund Má og Stefán Má. Vilborg Inda Steinþórsdóttir, f. 11. febrúar 1999, dóttir hennar er Karítas Ýr Hjaltadóttir, f. 22. júní 2022. 2) Bjarney Inga, f. 26. mars 1975, sambýlismaður hennar er Brynjar Þorkelsson, f. 30. nóvember 1972. Börn Bjarneyjar eru Jón Svavar Gunnarsson, f. 1. september 1998, sambýliskona Eva Dögg Vigfúsdóttir, f. 29. febrúar 2000, dóttir þeirra er Ísabella Máney, f. 27. febrúar 2021. Sigrún Brynja Gunnarsdóttir, f. 22. júlí 2004, kærasti hennar er Elmar Már Hilmarsson, f. 6. nóvember 2005. Einar Björn Eiður Árnason, f. 28. mars 2011. Fósturbörn Bjarneyjar eru Sigurbjörn Kristján og Ingibjörg Jóna. 3) Jóna Björk, f. 12. ágúst 1980, eiginmaður hennar Guðjón Ólafsson, f. 4. ágúst 1979. Dóttir þeirra er Telma Sif, f. 17. desember 2009.

Jón bjó sín fullorðinsár á Akureyri þar sem hann starfaði lengst af hjá fóðurvörudeild KEA og svo Kjarnafæði.

Útför hans fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 9. september 2024, klukkan 13.

Kveðja

Þú ert ljósið sem lýsir mér

huggar og gætir alla tíð.

Því þú ert gæfa og gleði mín

já ljós Guðs mun lýsa þér.

Því brosið bjarta skæra þitt

og blikið augna þinna.

Heitur hraustur faðmur þinn

er himinn drauma minna.

Þess vegna vil ég þakka þér

öll árin okkar saman.

Því þegar lífinu lýkur hér

verðum við ætíð saman.

Kveðja, þín eiginkona

Vilborg (Villa).

Elsku hjartans pabbi minn.

Ég trúi ekki að þú sért farinn, allt í einu hljóðnaði heimur minn og varð tómur.

Þú varst yndislegasti, besti, hugrakkasti, sterkasti, blíðasti pabbi sem hægt er að hugsa sér, kletturinn okkar allra. Alltaf gátum við leitað til þín, alveg sama á hvaða tíma sólarhringsins, þú varst alltaf þar með ráðin þín eða faðminn allt eftir hvað þurfti. Ég er svo innilega þakklát fyrir allar minningarnar okkar í bíla- eða vélaviðgerðum og næturvöktunum okkar úti í Kjarnafæði og auðvitað síðustu 20 árin sem við deildum heimili saman. Þú tókst Guðjóni mínum strax sem þínum, kenndir og leiðbeindir og ég veit að allt spjallið ykkar yfir öli er honum mikils virði og allar bílaviðgerðirnar með tilheyrandi slefi.

Ég man hvað þú varst spenntur þegar ég sagði ykkur mömmu að við ættum von á barni, þú fórst strax í verndunargírinn og passaðir upp á okkur mæðgur því þú varst alveg viss um að barnið væri stelpa og auðvitað hafðir þú rétt fyrir þér. Það var svo yndislegt að hafa þig með frá fyrstu stundu og að leyfa þér að fylgja okkur í ungbarnaeftirlitið og þú sagðir mér svo oft hversu dýrmætt það var þér. Þið Telma gátuð setið tímunum saman og byggt turn eða verið á ferðalagi í stofusófanum með tilheyrandi aukahljóðum í bílnum, ég veit að þessar minningar eru okkur öllum svo dýrmætar. Enda þegar sjúkdómur þinn var kominn vel af stað þá var enginn þolinmóðari við þig en Telma enda átti hún besta og skemmtilegasta afa í heimi.

Ég gæti skrifað minningar um þig í allan dag þar sem allar mínar minningar um þig eru svo góðar. Takk elsku pabbi minn fyrir allt sem þú gafst mér og kenndir, ég veit þú ert kominn í paradís, laus undan þjáningum, og amma hefur tekið vel á móti þér og Polli okkar líka.

Við elskum þig mest og þar til við hittumst á ný mun ég hugsa til þín alla daga. Við pössum mömmu fyrir þig þar til þið hittist á ný.

Þín yngsta/stærsta dóttir,

Jóna Björk og fjölskylda.

hinsta kveðja

Elsku afi.

Nú farinn ertu mér frá

hvað geri ég þá?

Þig hafa ég vil

og segja mér til.

Nú verð ég að kveðja

fæ ekkert um það að velja.

Þú kvaddir mig með hlátri

það er ekki skrítið að ég gráti.

Í hjarta mér þú verður

þaðan aldrei hverfur.

Ég minningu þína geymi

en aldrei gleymi.

Elsku hjartans afi minn

nú friðinn ég finn.

Þá kveð ég þig um sinn

og kyssi þína kinn.

(Ágústa Kristín Jónsdóttir)

Kveðja, þín afastelpa,

Telma Sif.