Fjölskylda Tónlistarmaðurinn Victor Urbancic með börn sín, Ruth og Pétur, í Reykjavík á stríðsárunum.
Fjölskylda Tónlistarmaðurinn Victor Urbancic með börn sín, Ruth og Pétur, í Reykjavík á stríðsárunum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þegar Sinfóníuhljómsveit Íslands og Þjóðleikhúsið tóku til starfa vorið 1950 bundu menn vonir við það að veruleg samlegðaráhrif gætu orðið af starfsemi þeirra. Í leikhúsinu yrðu færðar upp óperur og söngleikir, auk þess sem hefðbundin leikrit kölluðu stundum á tónlist

Þegar Sinfóníuhljómsveit Íslands og Þjóðleikhúsið tóku til starfa vorið 1950 bundu menn vonir við það að veruleg samlegðaráhrif gætu orðið af starfsemi þeirra. Í leikhúsinu yrðu færðar upp óperur og söngleikir, auk þess sem hefðbundin leikrit kölluðu stundum á tónlist. Þetta var meðal röksemda sem uppi voru við stofnun Sinfóníuhljómsveitarinnar enda var sjálfstætt tónleikahald hennar ekki ýkja umfangsmikið fyrstu árin og rekstrargrundvöllur tæpur. Með því að sveitin léki bæði á eigin tónleikum og sýningum í leikhúsi var kleift að fastráða til hennar hljóðfæraleikara, sem þá var algjört nýmæli á Íslandi. Það varð síðan til að styrkja tengsl þessara stofnana að Þjóðleikhúsið var helsti tónleikastaður sveitarinnar allt þar til Háskólabíó var tekið í notkun rúmum áratug síðar. Ljóst var líka að leikhúsið yrði að einhverju leyti starfsvettvangur Victors Urbancic sem stjórnaði tónlistinni við sjálfa vígslusýningu þess, Nýársnóttina. Enginn hafði stjórnað Hljómsveit Reykjavíkur á fleiri tónleikum, auk þess sem hann bjó að áralangri reynslu af óperuflutningi bæði í Þýskalandi og Austurríki.

Forystumenn Tónlistarfélagsins höfðu í fyrstu allmikil völd við rekstur Sinfóníuhljómsveitarinnar, ekki síst Jón Þórarinsson, sem varð stjórnarformaður hennar, og Ragnar í Smára, sem hafði verið áhrifamaður í listalífi höfuðstaðarins svo árum skipti. En með tilkomu Þjóðleikhússins varð til nýtt hreyfiafl í menningunni og ekki var alltaf samhugur með þeim Tónlistarfélagsmönnum og Guðlaugi Rósinkranz sem fyrstur gegndi embætti þjóðleikhússtjóra. Jón Þórarinsson var skipaður ráðunautur Þjóðleikhússins í tónlistarmálum en þeim Guðlaugi samdi svo illa að upp úr sauð vorið 1952. Þá hafði Urbancic nýverið samið tónlist við leikritið Tyrkja-Gudda eftir Jakob Jónsson, sem hlaut misjafna dóma. Jón neitaði að hafa vitað nokkuð um að tónlist ætti að fylgja leikritinu en við það reiddist Guðlaugur mjög, kvaðst ekkert hafa að gera við „menn sem ekki gættu starfs síns“ og lagði niður starf tónlistarráðunautar.

Helst vildi Guðlaugur Rósinkranz hafa sjálfstæða hljómsveit við leikhúsið og má vera að honum hafi þótt Tónlistarfélagsmenn ráðríkir í samstarfi. Eftir sýningar á Rigoletto eftir Verdi árið 1951, sem þóttu takast með miklum ágætum, vildi hann tryggja að óperustarfsemi héldi þar áfram og taldi heppilegt að hafa hljómsveitarstjóra í föstu starfi sér til ráðgjafar. Guðlaugur sá í Urbancic þann mann á Íslandi sem mesta kunnáttu hefði á því sviði og hafði góða reynslu af samstarfi þeirra, þekkti hann að því að vera „einstaklega lipran, elskulegan og úrræðagóðan“, eins og hann komst síðar að orði. En stöðuveitingunni í Þjóðleikhúsinu fylgdi afdrifaríkt uppgjör og trúnaðarbrestur milli Urbancic og fyrrverandi vinnuveitenda hans hjá Tónlistarfélaginu, þeirra sömu og höfðu fengið hann til landsins fimmtán árum fyrr.

Forystumenn Tónlistarfélagsins tóku það vægast sagt óstinnt upp að þjóðleikhússtjóri hygðist koma á fót eigin hljómsveit við húsið. Þeir sökuðu hann um að vilja „bannfæra“ Sinfóníuhljómsveit Íslands og skaða starfsemi hennar enda væru hljómsveitinni nauðsynlegar þær tekjur sem hún fengi fyrir leikhússtörfin. Öllum var ljóst að Reykjavík gæti ekki borið tvær sinfóníuhljómsveitir til lengri tíma; tvísýnt var um rekstrargrundvöll Sinfóníuhljómsveitar Íslands jafnvel þótt gert væri ráð fyrir samlegðaráhrifum við leikhúsið. Haustið 1952 stefndi svo í algjört óefni þegar Sinfóníuhljómsveitin og Þjóðleikhúsið hugðust setja upp hvort sína óperuna án þess að hafa um það nokkurt samráð. Jón Þórarinsson og Björn Jónsson höfðu fyrir hönd Sinfóníuhljómsveitarinnar biðlað til Konunglegu óperunnar í Stokkhólmi um samstarf til að flytja Toscu eftir Puccini. Það var í raun eins konar stríðsyfirlýsing gagnvart leikhúsinu þar sem áformað var að færa upp La traviata eftir Verdi með íslenskum söngvurum eingöngu. Ekkert varð þó af flutningi Toscu; hún var fyrst sýnd í Þjóðleikhúsinu nokkrum árum síðar – undir stjórn Urbancic.

Í janúar 1953 tilkynnti Guðlaugur Rósinkranz að slitnað hefði upp úr samningaviðræðum við Sinfóníuhljómsveit Íslands og því yrði ný hljómsveit og kór stofnuð við Þjóðleikhúsið með Victor Urbancic sem fastráðinn tónlistarstjóra. Allt var það auðvitað í óþökk Tónlistarfélagsins og höfðu þeir Ragnar Jónsson og Páll Ísólfsson margt við gang mála að athuga. Ragnar sendi þjóðleikhússtjóra opið bréf í Morgunblaðinu um leið og ráðningin varð opinber, spurði meðal annars hvers vegna staðan hefði ekki verið auglýst og hvort „einhverjir ábyrgir tónlistarmenn“ hefðu verið til ráðgjafar um ákvörðunina. Ragnar var þess fullviss að skipan Urbancic ætti sér pólitíska skýringu – að Guðlaugur, sem var Framsóknarmaður, vildi koma höggi á Tónlistarfélagið vegna þess að forsvarsmenn þess væru í Sjálfstæðisflokknum.

Hvað sem slíkum vangaveltum leið var staðan afleit. Ekki bætti úr skák þegar heiftarleg vinslit urðu milli forkólfa í menningarlífinu og það fyrir allra augum. Það hófst með því að Ragnar í Smára afturkallaði skriflega heillaóskir sem hann hafði skömmu áður sent Guðlaugi Rósinkranz á fimmtugsafmæli hans. Í gífuryrtu bréfi sínu, sem síðar barst í fjölmiðla, líkti hann ákvörðun þjóðleikhússtjóra við árásir Japana á Pearl Harbor – hvorki meira né minna – og sagði að ráðning Urbancic væri „einhver ógeðslegasta menningarárás, sem ég hef orðið vitni að“. Þjóðleikhússtjóri brást við með því að endursenda Ragnari gjöfina sem fylgdi afmæliskveðjunni, forkunnarfagra útgáfu Tónlistarfélagsins á Passíusálmum séra Hallgríms Péturssonar.

Hljómsveitarfárið var nær daglegt blaðaefni svo mánuðum skipti og voru átökin síst fegruð í fréttaflutningi. Í fyrirsögnum voru upphrópanir um „kalt stríð“, „styrjöld“ og „skæruhernað“ milli stórvelda listanna í Reykjavík. Ragnar í Smára rifjaði upp Pearl Harbor en í Alþýðublaðinu var deilunum líkt við önnur stórátök á heimsvísu: „Það er víðar barizt en í Kóreu.“ Dagblöð voru flokkspólitísk í þá daga og tóku bæði Tíminn, málgagn Framsóknarflokksins, og Þjóðviljinn, blað sósíalista, afstöðu með þjóðleikhússtjóra gegn Jóni Þórarinssyni og Páli Ísólfssyni sem báðir voru íhaldsmenn. Í Tímanum var ekkert dregið undan heldur staðhæft að tónlistarlíf þjóðarinnar væri „helsjúkt af einstaklingssjónarmiðum og ofstæki, sem setur hina raunverulegu tónlistarmenningu í voða“. Morgunblaðið birti aftur á móti ítarleg viðtöl þar sem Jón tók að sér að skýra afstöðu Tónlistarfélagsins. Ritstjórar Þjóðviljans reyndu að greiða götu friðar í málinu og báru fram þá frómu ósk að hljómlistin sjálf gleymdist ekki í „skarkala og innbyrðis erjum þeirra sem henni eiga að þjóna“.

Í samningaviðræðum milli Guðlaugs Rósinkranz og forsvarsmanna Sinfóníuhljómsveitar Íslands var það ófrávíkjanleg krafa hinna síðarnefndu að skipuð yrði nefnd tónlistarmanna sem yrði til
ráðgjafar um öll tónlistarmál leikhússins og tryggði að haldið yrði á þeim málum með „stefnufestu og þekkingu“. Úr orðalaginu skín, enn sem oftar, vantraust á Urbancic og listrænni ráðgjöf hans. Svo fór að í ágúst 1953 skipaði menntamálaráðherra sérstaka tónlistarnefnd við Þjóðleikhúsið, að því er sagt var án samráðs við þjóðleikhússtjóra og á meðan Urbancic dvaldi erlendis. Auk þjóðleikhússtjóra áttu sæti í nefndinni þeir Páll Ísólfsson og Björn Ólafsson, konsertmeistari
Sinfóníuhljómsveitarinnar, og þannig var Tónlistarfélaginu
tryggður meirihluti í öllum ákvörðunum sem snertu tónlist innan veggja leikhússins. Skömmu síðar sagði Urbancic starfi sínu lausu, enda væri með skipun nefndarinnar gengið inn á verksvið hans sem hljómsveitarstjóra. Þess var getið í blöðum að Urbancic hefði í hyggju að flytjast af landi brott; í Tímanum var því varpað fram á baksíðu að hann yrði líklega „hrakinn úr landi“ vegna áreitni og ofríkis. Þær fregnir dró hann þó til baka og kvaðst helst vilja halda áfram störfum á Íslandi. Raunar spurðist hann fyrir um lausar stöður við nokkra bandaríska
háskóla um svipað leyti og sýnir það að jafnvel hinn þolgóði Urbancic hafði um þær mundir fengið sig fullsaddan á íslenskri menningarpólitík.

Að endingu náðist eins konar samkomulag í málinu, Urbancic hélt áfram starfi sínu við Þjóðleikhúsið en varð að gera sér að góðu að starfa með ráðgjafarnefndinni. Það var bót í máli að Urbancic naut hylli meðal almennings á Íslandi og í dagblöðum birtust fjölmörg lesendabréf honum til stuðnings. Einn lesandi getur þess að skipan nefndarinnar í Þjóðleikhúsinu sé skrýtin ráðstöfun í ljósi þess að mikil ánægja hafi ríkt með tónlistarflutning þar. Annar segir það von „allra listunnandi manna, að svo skipist, að Urbancic verði áfram við sín fyrri störf hjá leikhúsinu“. Í Mánudagsblaðinu var veist að Jóni Þórarinssyni, sem kallaður var „Loki íslenzkra tónlistarmála“, og fullyrt að bardús Sinfóníuhljómsveitarinnar við að færa upp eigin óperu væri sprottið af hefnigirni hans gagnvart Urbancic. Jón Leifs kom líka Urbancic til varnar enda hafði lengi andað köldu milli hans og Tónlistarfélagsmanna. Deiluna segir hann snúast um það að „þessir örfáu menn, sem hér hafa farið með tónlistarmál á undanförnum árum og óneitanlega unnu merkilegt starf í fyrstunni, líta á tónlistarmálin sem sín einkamál og vilja ráða þeim öllum einir án afskipta þjóðarinnar“. Í svipaðan streng tók ónefndur höfundur í Tímanum sem sagði flokkadrætti í tónlistarlífinu snúast um það að „fámennur hópur manna virðist óttast að missa einræðisvald sitt og allir andstæðingar þess eru settir á svartan lista“ – og var þar augljóslega átt við Tónlistarfélagið.

Tilvísunum er sleppt.