50 ára Anna María er Keflvíkingur, fædd þar og uppalin. „Foreldrar mínir byggðu hús í Keflavík árið áður en ég fæddist og bjó ég í því þar til ég fór að búa sjálf. Lífið snerist um íþróttir á barna- og unglingsárunum í Keflavík og fram að barneign

50 ára Anna María er Keflvíkingur, fædd þar og uppalin. „Foreldrar mínir byggðu hús í Keflavík árið áður en ég fæddist og bjó ég í því þar til ég fór að búa sjálf. Lífið snerist um íþróttir á barna- og unglingsárunum í Keflavík og fram að barneign. Þar æfði ég handbolta, fótbolta og körfubolta. Ég á yndislegar æskuvinkonur sem halda enn hópinn og við unnum marga titla saman. Flokkurinn okkar varð t.d. Íslandsmeistari í fótbolta, handbolta og körfubolta sama árið. Eftir fimmtán ára aldur æfði ég einungis körfubolta. Ég átti góða æsku í Keflavík og á margar eftirminnilegar stundir með fjölskyldu og vinum.“

Átján ára gömul kynntist Anna María manninum sínum, Guðlaugi, og sjö árum seinna fluttist fjölskyldan til Horsens í Danmörku. „Þar nam Gulli byggingarfræði og ég var í fjarnámi frá Kennaraháskóla Íslands í kennslufræðum. Við fluttum aftur heim til Íslands árið 2005 og árið 2007 kláraði ég viðbótarnám í náms- og starfsráðgöf frá Háskóla Íslands. Ég byrjaði að vinna í Keili eftir útskrift og hef starfað þar síðan, fyrstu þrjú árin sem náms- og starfsráðgjafi og svo eftir fæðingarorlof 2011 sem yfirmaður á menntasviði.“

Áhugamál Önnu Maríu hafa verið fjölskyldan og að fylgja drengjunum eftir í íþróttastarfi þeirra. „Við fjölskyldan höfum verið dugleg að ferðast gegnum tíðina og svo á hreyfing enn þá stóran þátt í rútínunni minni.

Fimmtugsafmælisárið hefur verið sannkallað afmælisár. Fyrir utan stuttar ferðir okkar hjóna erlendis fórum við í sumar með alla fjölskylduna til Ítalíu. Á Ljósanótt verður tímanum eytt með 50 ára skólafélögum og um miðjan september er áætluð ferð til Króatíu með æskuvinkonum.“

Fjölskylda Eiginmaður Önnu Maríu er Guðlaugur Helgi Sigurjónsson, f. 1969, sviðsstjóri umhverfissviðs Reykjanesbæjar. Synir þeirra eru Ívar Gauti Guðlaugsson, f. 1995, Sigurður Salómon, f. 1998, og Fannar Berg, f. 2010. Barnabörnin eru Embla Sól, f. 2018, Anna Fjóla f. 2022, Ívarsdætur, og Salka María Sigurðardóttir, f. 2024. Foreldrar Önnu Maríu eru Sigurður Arason, f. 1944 og Ágústína Albertsdóttir, f. 1945.