Matthías Hrafn Þórarinsson fæddist 15. apríl 2018. Hann lést 28. ágúst 2024.

Faðir hans var Þórarinn Gíslason, f. 31. júlí 1962, d. 12. desember 2023. Foreldrar hans voru Gísli Bergsveinn Ólafur Lárusson, f. 11. júní 1940, d. 2. febrúar 2014, og Guðrún Þórarinsdóttir, f. 14. nóvember 1940, d. 12. maí 2024. Þórarinn á tvær systur: Jóna Bryndís Gísladóttir, maki Vilhjálmur Sveinn Björnsson, þau eiga fjögur börn og sjö barnabörn; Sigrún Gísladóttir, maki Bjarni Þór Hjaltason, þau eiga þrjár dætur og tvö barnabörn.

Móðir Matthíasar er Karen Dagmar Guðmundsdóttir, f. 19. október 1978. Foreldrar hennar eru Guðmundur Gísli Björnsson, f. 26. júní 1955, og Ragnheiður Karlsdóttir, f. 8. maí 1959. Karen á tvo bræður: Ívar Smári Guðmundsson, hann á einn son, Úlfar Leó; Guðmundur Karl Guðmundsson, maki hans er Lille Collabrema, þau eiga tvær dætur, Beatrixe Freyju og Elisabeth Sif.

Systkini Matthíasar eru Ragnheiður Tara Þórarinsdóttir, f. 17. september 1997, unnusti Gísli Ragnar Axelsson; Guðmundur Gísli Þórarinsson, f. 1. október 2012; Þórarinn Rúnar Þórarinsson, f. 22. nóvember 2013; Brynjar Þór Þórarinsson, f. 7. september 1986, maki Ágústa Ýr Sigurðardóttir, þau eiga tvær dætur, Elísabet Ann og Emilíu Karen; Gunnar Már Þórarinsson, f. 12. júní 1992, maki Carolina Millan.

Útför fer fram frá Hveragerðiskirkju í dag, 9. september 2024, klukkan 15.

Í dag kveð ég litla fallega engilinn minn sem gaf mér svo mikið. Ég get skrifað heila bók um hvað Matti var skemmtilegur, stríðinn og mikill karakter en Matthías fór ekkert auðveldu leiðina, hann barðist frá upphafi til enda með fallega brosinu sínu, æðruleysi og miklum lífsvilja. Hann fór í yfir 130 inngrip á vélinda og mætti alltaf brosandi upp á skurðstofu, kyssti mömmu sína bless og fór inn með bestu vinum sínum. Við strákarnir eignuðumst okkar eigin fjölskyldu í starfsfólki gjörgæslunnar þar sem Matti dvaldi marga mánuði á hverju ári og Barnaspítalans þar sem við voru búsett alveg hans fyrstu tvö ár og svo yfir 200 daga á ári. Núna þegar komið er að leiðarlokum hugsa ég með þakklæti og vanmætti hvað við vorum heppin að fá að vera með og kynnast öllum þeim sem komu að því að hugsa um, styrkja og elska Matta með okkur. En nú er Matti minn kominn í sumarlandið til pabba síns, báðir án nokkurra veikinda og hamla.

Takk fyrir velvild og virðingu sem allt starfsfólk Barnaspítalans og gjörgæslunnar á Hringbraut sýndi okkur í gegnum öll árin.

Hvíl í friði, elsku Matthías minn.

Þín

mamma.

Litli bróðir okkar er farinn og söknum við hans alla daga. Við eigum þó minningar og myndir af barna strump eins og við kölluðum hann oft, Matti var skemmtilegur og elskaði að syngja og leika með bolta við gátum kennt honum á rafmagnsbílinn í sumar og verið í heitapottinum og passað hann mikið en uppáhald Matta núna var að vera í baði og þá settum við sápukúluvélina í gang og fylltum baðið af sápukúlum sem honum þótti mjög skemmtilegt.

En nú ertu kominn til pabba og hann mun passa þig núna og kenna þér að labba, borða og spila fótbolta.

Við munum sakna þín alltaf.

Þínir bræður

Gummi og Tóti.

Yndislegi Matti minn.

Það er ólýsanlegt að hugsa til þess að þú sért farinn frá okkur, svo lítil, svo ungur, nýorðinn sex ára. Þú varst alltaf að bíta mig og klípa, alltaf að stríða systur þinni, fullur af gleði og lífi.

Hver einasta stund með þér var dýrmæt, og þú munt alltaf eiga sérstakan stað í hjarta mínu og partur af lífi okkar.

Núna ert þú í faðmi pabba okkar, öruggur og friðsæll, og ég veit að hann heldur þér þétt að sér, eins og við hefðum öll viljað gera.

Þið eruð saman á stað þar sem enginn sársauki eða sorg getur snert ykkur, og það huggar mig í gegnum alla sorgina sem ég finn hér.

Ég sakna þín svo mikið, elsku litli bróðir minn, ég vildi óska þess að ég gæti leikið við þig og sungið fyrir þig en núna tekur pabbi við í sumarlandinu.

Hvíldu í friði, elsku hjartans engillinn minn.

Þín systir,

Ragnheiður Tara.

Í dag kveðjum við elsku hjartans Matthías okkar. Á þinni stuttu ævi höfum við lært svo margt að þau eru misjöfn stráin sem fólk dregur. Þú gekkst í gegnum erfið veikindi en tókst þeim með þeim eina hætti sem þú þekktir, af æðruleysi og þolinmæði. Þú leiddir okkur í gegnum þitt sex ára ferðalag, sem núna hefur tekið endi í friðsæld.

Brosmildi þín og styrkur munu sitja eftir í minningunni. Við sem lifum vonum að þér líði núna vel með pabba þínum og njótir þess að vera frjáls frá veikindum þínum. Þú átt það svo skilið, elsku kúturinn ömmu og afa.

Þín er sárt saknað og þú skilur eftir tómarúm í hjörtum okkar. Núna yljum við okkur við minningar og myndir.

Innilegar þakkir til starfsfólks Barnaspítala Hringsins fyrir alúð þess og umönnun í gegnum árin.

Nú legg ég augun aftur,

ó, Guð, þinn náðarkraftur

mín veri vörn í nótt.

Æ, virst mig að þér taka,

mér yfir láttu vaka

þinn engil, svo ég sofi rótt.

(Sveinbjörn Egilsson)

Elskum þig og minnumst um alla ævi,

amma Ragnheiður og afi Guðmundur.

Elsku hjartans Matti okkar. Við kveðjum þig í dag með söknuði. Þú komst eins og sólargeisli inn á leikskólann hjá okkur í Lyngási. Brosið þitt var alveg ómótstæðilegt og lífsgleði þín smitaði alla í kringum þig. Við nutum þess að sitja saman og syngja og þá vildir þú oftar en ekki vera í fangi og við nutum þess ekki síður en þú. Lífskraftur þinn var alveg ótrúlegur þrátt fyrir það sem þú þurftir að bera og er okkur hinum til eftirbreytni. Þú skildir svo mikið eftir í hjörtum okkar og kenndir okkur svo margt sem við erum þér þakklát fyrir.

Vinarkveðja

Faðmlög blíð, hlátur og gaman

eru minningar sem ég á af þér.

Allar stundir sem við áttum saman

ég geymi þær í brjósti mér.

Megi góður Guð þig geyma

elsku hjartans Matti minn,

og leiða þið í ljóssins heima

hönd í hönd við pabba þinn.

(Svava Hansdóttir)

Elsku Karen við vottum ykkur fjölskyldunni innilega samúð.

Svava, Halla og allir á Lyngási.