Afmæli Gylfi Þór Sigurðsson á æfingu íslenska liðsins í Izmir í gær en hann hélt upp á 35 ára afmæli sitt og æfði af fullum krafti eins og aðrir í hópnum.
Afmæli Gylfi Þór Sigurðsson á æfingu íslenska liðsins í Izmir í gær en hann hélt upp á 35 ára afmæli sitt og æfði af fullum krafti eins og aðrir í hópnum. — Morgunblaðið/Jóhann Ingi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ísland mætir Tyrklandi í öðrum leik sínum í Þjóðadeild karla í fótbolta á Gürsel Aksel-vellinum í Izmir á vesturströnd Tyrklands klukkan 18.45 í kvöld. Leikurinn hefst klukkan 21.45 að staðartíma og verður því spilað til tæplega miðnættis í þessari þriðju stærstu borg Tyrklands

Í Izmir

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Ísland mætir Tyrklandi í öðrum leik sínum í Þjóðadeild karla í fótbolta á Gürsel Aksel-vellinum í Izmir á vesturströnd Tyrklands klukkan 18.45 í kvöld.

Leikurinn hefst klukkan 21.45 að staðartíma og verður því spilað til tæplega miðnættis í þessari þriðju stærstu borg Tyrklands.

Ísland vann sanngjarnan sigur á Svartfjallalandi, 2:0, á Laugardalsvelli í fyrsta leik sínum í I-riðli á meðan Tyrkland gerði jafntefli við Wales á útivelli, 0:0. Ísland fer því inn í leikinn í toppsætinu.

Allir með á æfingu

Íslenska liðið fær litla hvíld á milli leikja. Liðið flaug til Tyrklands um hálfum sólarhring eftir leikinn við Svartfjallaland og tók létta æfingu á keppnisvellinum í gær.

Allir sem voru í hópnum gegn Svartfjallalandi æfðu í gær og hafa engin ný meiðsli gert vart við sig í íslenska hópnum.

Åge Hareide landsliðsþjálfari mun væntanlega gera einhverjar breytingar á byrjunarliðinu og fá ferska fætur inn eftir leikinn við Svartfjallaland.

Hákon Rafn Valdimarsson verður áfram í markinu, en vörnin fyrir framan hann gæti breyst nokkuð. Guðlaugur Victor Pálsson hefur verið að glíma við meiðsli og spilaði ekkert á móti Svartfjallalandi. Hann gæti komið inn í liðið í staðinn fyrir Hjört Hermannsson sem hefur lítið spilað undanfarna mánuði.

Valgeir Lunddal Friðriksson eða Kolbeinn Birgir Finnsson gera tilkall til að koma inn í liðið í staðinn fyrir Loga Tómasson og Valgeir gæti líka komið fyrir Alfons Sampsted.

Þá eru sóknarsinnuðu leikmennirnir Arnór Sigurðsson, Willum Þór Willumsson og Andri Lucas Guðjohnsen, sem komu allir af bekknum á móti Svartfjallalandi, klárir í slaginn. Ísak Bergmann Jóhannesson og Arnór Ingvi Traustason vonast til að fá kallið til að byrja á miðjunni, væntanlega með Jóhanni Berg Guðmundssyni.

Þrátt fyrir að góðir leikmenn séu fjarverandi er hópur íslenska liðsins sterkur, sérstaklega á miðjunni og í fremstu stöðunum.

Byrjunarliðið gegn Svartfjallalandi kom nokkuð á óvart og var Hareide einnig með hugann á leiknum við Tyrkland. Íslenska liðið hefur átt í erfiðleikum með að spila tvo góða leiki í röð og hvíldin sem sumir leikmenn fengu gegn Svartfjallalandi ætti að hjálpa.

Gengið vel gegn Tyrkjum

Tyrkland er einn uppáhaldsmótherji Íslands því í þrettán viðureignum þjóðanna hefur Ísland unnið átta leiki og Tyrkland aðeins tvo. En Tyrkir sýndu styrk sinn í sumar þegar þeir komust í átta liða úrslitin á EM.

Með níunda sigrinum í kvöld kæmi Ísland sér í góða stöðu fyrir næsta verkefni sem verður gegn Wales og Tyrklandi á Laugardalsvelli í næsta mánuði. Sigur í riðlinum þýðir sæti í A-deildinni.

Hafni íslenska liðið í öðru eða þriðja sæti riðilsins mun það spila tvo umspilsleiki í mars. Ef það endar í öðru sæti leikur það um sæti í A-deildinni en ef það endar í þriðja sæti leikur það umspilsleiki um að halda sæti sínu í B-deildinni.

Höf.: Jóhann Ingi Hafþórsson