Skýrslur Umboðsmaður kveðst eiga von á að sjá skýrslu um framkvæmd grunnskólastarfs í haust.
Skýrslur Umboðsmaður kveðst eiga von á að sjá skýrslu um framkvæmd grunnskólastarfs í haust. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Salvör Nordal umboðsmaður barna telur að áform mennta- og barnamálaráðherra um tímasetningu innleiðingar á nýju námsmati og útfærslu þess séu ekki nógu skýr. Ráðherrann Ásmundur Einar Daðason vill afnema endanlega samræmdu könnunarprófin með lagasetningu í haust

Hólmfríður María Ragnhildardóttir

hmr@mbl.is

Salvör Nordal umboðsmaður barna telur að áform mennta- og barnamálaráðherra um tímasetningu innleiðingar á nýju námsmati og útfærslu þess séu ekki nógu skýr. Ráðherrann Ásmundur Einar Daðason vill afnema endanlega samræmdu könnunarprófin með lagasetningu í haust.

Nýja námsmatið, svokallaður matsferill, á að leysa könnunarprófin af hólmi en sérfræðingar í menntamálum eru ekki á einu máli um hvort námsmatið verði samræmt, eins og því er þó lýst í áformum ráðherra. Salvör segir áhyggjuefni að sérfræðingar túlki á mismunandi vegu hversu samræmt hið nýja námsmat komi til með að vera.

Óvissa hefur einnig ríkt um hvenær matsferillinn í íslensku og stærðfræði verði innleiddur, en stjórnvöld segjast nú áforma að hann verði gerður skyldubundinn í þessum tveimur fögum skólaárið 2025-2026. Ekki liggur þó fyrir hvenær matsferill í fögum á borð við ensku og náttúrufræði verði tilbúinn til notkunar.

Í lögum um grunnskóla er kveðið á um að ráðherra menntamála skili skýrslu um framkvæmd grunnskólastarfs á þriggja ára fresti. Ásmundi Einari bar að skila leggja slíka skýrslu fyrir þingið í byrjun árs 2022 en það gerði hann ekki, eins og Morgunblaðið hefur áður fjallað um. Salvör hefur tvívegis minnt ráðherra á að sinna þessu lögbundna hlutverki sínu, fyrst árið 2022 og svo nú í sumar. Í svari við fyrirspurn mbl.is kvaðst Ásmundur Einar myndu leggja skýrsluna fyrir þingið í haust. Í samtali við Morgunblaðið bendir Salvör á að fyrirlagning skýrslunnar hafi einnig verið á síðustu þingmálaskrá en ekkert hafi orðið af því. „Ég á von á að skýrslan verði lögð fram í haust eins og ráðherra hefur boðað.“

Ráðherrann hefur einnig ekki virt lögbundinn skilafrest á skýrslu um framkvæmd framhaldsskólastarfs. Ekki heldur skýrslu um framkvæmd leikskólastarfs, en frá því hefur ekki verið greint áður. Spurð hvort það rýri traust til ráðuneytisins, að það vanvirði ítrekað skilafresti, segir Salvör að vitaskuld sé það mikilvægt að ráðuneytið standi við það sem lög kveði á um. „Þetta er sett í lög og er liður í eftirliti Alþingis með þessum mikilvæga hornsteini í okkar samfélagi sem menntakerfið er.“