Guðmundur Ingi Kristinsson
Guðmundur Ingi Kristinsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Miðflokkurinn mun leggja áherslu á útlendingamál, orkumál og aðhald í ríkisrekstri á komandi þingvetri að sögn Bergþórs Ólasonar, formanns þingflokks Miðflokksins. Hann segir að flokkurinn muni koma með aðhaldstillögur í fjárlagaumræðu

Miðflokkurinn mun leggja áherslu á útlendingamál, orkumál og aðhald í ríkisrekstri á komandi þingvetri að sögn Bergþórs Ólasonar, formanns þingflokks Miðflokksins. Hann segir að flokkurinn muni koma með aðhaldstillögur í fjárlagaumræðu.

„Fyrstu skilaboð ríkisstjórnarinnar varðandi fjárlögin sem nú verða lögð fram eru þeirrar gerðar að ég hef miklar áhyggjur af því að slagurinn við verðbólguna verði áfram fyrst og fremst háður af Seðlabankanum en ekki ríkisstjórninni,“ segir Bergþór.

Flokkurinn mun leggja fram frumvörp um t.d. landbúnað, þjóðlendur og aukið frelsi er varðar ráðstöfun útvarpsgjalds. Hann gerir ráð fyrir því að kosið verði næsta vor frekar en haustið 2025.

Logi Einarsson, formaður þingflokks Samfylkingarinnar, segir að brýnasta verkefnið sé að ná niður vöxtum og verðbólgu.

„Við höfum tekið eftir því á síðustu vikum og mánuðum að það er byrjað að skrifa töluvert af óútfylltum og ófjármögnuðum tékkum inn á næsta kjörtímabil,“ segir hann. Logi gerir ráð fyrir því að kosið verði næsta vor.

„Ég er ekki viss um að stærstu átökin verði endileg sýnilegust milli stjórnar og stjórnarandstöðu vegna þess að stjórnarflokkarnir berjast svo hatrammlega innbyrðis,“ segir Logi um komandi þingvetur.

Guðmundur Ingi Kristinsson, þingflokksformaður Flokks fólksins, segir að mikilvægustu áherslumál flokksins á komandi þingvetri verði að berjast fyrir þeim sem hafi það bágt og eldri borgurum.

Hann segir að flokkurinn muni leggja fram frumvarp þess efnis að eldri borgarar geti fengið 450 þúsund krónur á mánuði skatta- og skerðingarlaust. Þá mun flokkurinn leggja fram frumvarp um að húsnæðisliðurinn verði tekinn út úr viðmiði Seðlabankans fyrir verðbólgu. Hann telur að það verði kosið næsta vor.

Hanna Katrín Friðriksson þingflokksformaður Viðreisnar segir að á komandi þingvetri muni Viðreisn leggja mesta áherslu á efnahagsmálin.

„Staðreyndin er auðvitað sú að það hefur ekkert gerst í lengri tíma og við erum eiginlega að horfa upp á dejavú miðað við síðasta þingupphaf fyrir ári síðan og heimilunum blæðir á meðan,“ segir hún.

Hanna Katrín telur að Viðreisn muni leggja fram frumvarp þess efnis að auðlindaákvæði verði sett í stjórnarskrá sem kveði á um tímabundnar heimildir á nýtingu auðlinda. Flokkurinn mun þá áfram berjast fyrir því að skipta um gjaldmiðil.

Hún vill ganga til kosninga sem fyrst en telur að stjórnarflokkarnir vilji frekar að það verði kosið haustið 2025.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir þingflokksformaður Pírata segir að Píratar muni leggja áherslu á mannréttindi, húsnæðismálin, efnahagsmál, umhverfis- og loftslagsmálin, geðheilbrigðismál og félagslega kerfið. Hún segir sérstaklega brýnt að leggja áherslu á geðheilbrigði ungmenna.

Flokkurinn mun leggja fram frumvörp um húsnæðismál, geðheilbrigðismál, bann við hvalveiðum og sjókvíaeldi.

Hún telur ágætar líkur á því að kosið verði í vor en það verði þó freistandi „fyrir ráðherra að sitja algjörlega aðhaldslausir í ráðherrastólum sínum og dæla út skúffufé til góðgerðarmála í aðdraganda kosninga yfir sumarið, þegar þeir þurfa enga ábyrgð að taka á sínum gjörðum“. hng@mbl.is