Mýrdalshreppur Rýmingaráætlunin var síðast uppfærð 2017.
Mýrdalshreppur Rýmingaráætlunin var síðast uppfærð 2017. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Einar Freyr Elínarson, sveitarstjóri Mýrdalshrepps, tekur undir með sveitarstjórn Skaftárhrepps um að nauðsynlegt sé að uppfæra rýmingaráætlun fyrir svæðið og bæta fjarskiptainnviði. Í ályktun sveitarstjórnarinnar er kallað eftir heildaruppfærslu…

Hólmfríður María Ragnhildardóttir

Birta Hannesdóttir

Einar Freyr Elínarson, sveitarstjóri Mýrdalshrepps, tekur undir með sveitarstjórn Skaftárhrepps um að nauðsynlegt sé að uppfæra rýmingaráætlun fyrir svæðið og bæta fjarskiptainnviði.

Í ályktun sveitarstjórnarinnar er kallað eftir heildaruppfærslu rýmingaráætlana fyrir Álftaver og nærliggjandi svæði, með tilliti til stærri atburða eins og Kötlugoss. Rýmingaráætlunin var síðast uppfærð árið 2017 og síðan þá hefur íbúum á svæðinu fjölgað auk þess sem ferðamannastraumurinn er orðinn mikill. Ekki er öruggt að ferðamenn séu upplýstir um hvernig bregðast eigi við ef Katla gýs.

Einar segir að kallað hafi verið eftir uppfærðri rýmingaráætlun í mörg ár en að því miði býsna hægt.

Hann segir það hafa verið óþægilegt að sjá á hve skömmum tíma jökulhlaup hófst í Skálm í sumar. „Það gæti orðið algjört öngþveiti í Vík ef Katla myndi byrja að gjósa með skömmum fyrirvara. Þar geta verið mörg þúsund ferðamenn á hverjum tíma sem allir eru á bílum. Bara það að stjórna umferð verður fyrsti stóri hausverkurinn og þá er eins gott að allir viðbragðsaðilar viti nákvæmlega hvernig bregðast eigi við.“

Fráleitt að þetta sé staðan

Í ályktun Skaftárhrepps kemur einnig fram að samráði við viðbragðsaðila hafi verið ábótavant. Þeir hafi verið sendir inn á skilgreint hættusvæði með takmarkað fjarskiptasamband. Kallað er eftir því að fjarskiptasamband sé eflt.

Einar tekur undir að bæta þurfi fjarskiptasamband á svæðinu.

„Það er algjörlega fráleitt að þetta sé staðan í dag, fyrir það fyrsta að við þurfum að búa við ítrekað rafmagnsleysi. Síðustu tíu ár hefur íbúafjöldinn hjá okkur tvöfaldast og til viðbótar eru hér fjögur til fimm þúsund ferðamenn á staðnum hverju sinni. Þetta er fólk sem reiðir sig algjörlega á þjónustu hér á svæðinu og það reiðir sig á fjarskipti,“ segir Einar.

Bæta þurfi upplýsingaflæði þegar stórir atburðir verða.

„Ég verð að segja að það kom mér virkilega á óvart þegar það byrjaði þetta flóð í Skálm og ég heyrði ekki bofs í neinum og það eina sem ég vissi var í gegnum fjölmiðla. Og ég á sæti í almannavarnanefnd.“

Höf.: Hólmfríður María Ragnhildardóttir