Fóstur Þetta skúlptúrverk Arnars er frá árinu 1967 og er til sýnis á sýningunni Útsölu í Safnasafninu.
Fóstur Þetta skúlptúrverk Arnars er frá árinu 1967 og er til sýnis á sýningunni Útsölu í Safnasafninu. — Ljósmynd/Daníel Starrason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sjaldséð grafíkverk Arnars Herbertssonar eru nú til sýnis í Safnasafninu á Svalbarðseyri við Eyjafjörð. Sýningin ber heitið Útsala en um er að ræða djúpþrykk frá tímabilinu 1967-1971 sem listamaðurinn Joe Keys endurprentaði á þessu ári

María Margrét Jóhannsdóttir

mariamargret@mbl.is

Sjaldséð grafíkverk Arnars Herbertssonar eru nú til sýnis í Safnasafninu á Svalbarðseyri við Eyjafjörð. Sýningin ber heitið Útsala en um er að ræða djúpþrykk frá tímabilinu 1967-1971 sem listamaðurinn Joe Keys endurprentaði á þessu ári. Arnar féll frá í vor en hann átti að baki mjög langan og heildstæðan listamannsferil. Hann var til dæmis virkur í SÚM-hópnum en verk eftir Arnar eru í eigu safna á Íslandi jafnt sem erlendis. Unnar Örn J. Auðarson sýningarstjóri segir að verk Arnars eigi hiklaust erindi til almennings í dag.

Lést áður en sýningin var opnuð

„Þessi verk eru stórmerkileg og rata sjaldan fyrir sjónir almennings. Þau eru afar gagnrýnin og vekja spurningar um neyslumenningu samtímans,“ segir Unnar Örn en hugmyndin að sýningunni kviknaði fyrir nokkrum árum þegar Arnar gaf Safnasafninu grafíkplötur sem unnar voru á þessu tímabili. „Við ákváðum að þrykkja aftur eftir plötunum örlítið upplag, þrjú eintök af hverri plötu, en sum verkin hafa aldrei verið sýnd áður. Arnar lést svo í vor áður en sýningin var opnuð þannig að þessi sýning breyttist í að verða hálfgerð minningarsýning, honum til heiðurs.“

Hæglátur listamaður

Unnar Örn segir Arnar hafa verið merkilegan listamann, sem mikilvægt sé að gefa gaum, en lítið hafi farið fyrir honum. „Arnar var mjög hæglátur maður og ekki mikið að trana sér fram. Hann sýndi ekki oft og vann mjög hægt. Hann er þekktastur fyrir olíumálverk sín en einmitt þess vegna er gaman að fá að sjá þessa hlið á honum sem grafíklistamaður. Hann hlaut til dæmis mikla gagnrýni á þessum tíma fyrir að nota liti, rauðan og bláan, þegar hann var að þrykkja en það var afar óhefðbundið á þeim tíma.

Arnar fæddist á Siglufirði 1933 og ólst þar upp. Hann lærði húsamálun og flutti til Reykjavíkur árið 1962 og helgaði sig listinni. Hann vann stöðugt að listsköpun sinni. Ég hitti hann nokkrum mánuðum áður en hann lést og þá var hann enn að mála,“ segir Unnar Örn.

Milli draums og veruleika

„Það sem einna helst einkennir þessi verk eru ýmiss konar tilbrigði við portrettið. Það má segja að Arnar sé að beygja veruleikann, að verkin séu milli draums og veruleika. Það eru þessar draumsýnir sem eru einkennandi fyrir hann. Þetta eru sterkar myndir þar sem gagnrýni og fantasía mætast.“

Grafíkverk og fósturverk

Gjöf Arnars til Safnasafnsins samanstóð af 40 grafíkplötum en á sýningunni eru 20 verk auk skúlptúrs frá Nýlistasafninu.

„Við fengum líka lánað verk frá Nýlistasafninu sem heitir „Fóstur“ og er frá sama tímabili eða 1967,“ segir Unnar Örn en um er að ræða lítil rauð fóstur úr máluðu gifsi sem hanga á tauspottum. Fyrir neðan fóstrin hanga svo útklipptar brúðkaupstilkynningar úr dagblöðum en fyrir aftan er teiknuð mynd af kælikerfi.

Unnar Örn bindur vonir við að sýningin verði til þess að fleiri fái að kynnast verkum Arnars og honum sem listamanni.

Á fullt erindi til okkar í dag

„Það er mjög sjaldgæft að sjá verk eftir Arnar og ég vona að nú skapist tækifæri fyrir nýjar kynslóðir að enduruppgötva verkin hans. Hann er að kljást við margt sem á enn fullt erindi til okkar. Þessi grafíkverk hafa í einhverjum skilningi verið gleymd og það er virkilega spennandi að gefa fólki færi á að sjá þau. Þá fellur sýningin vel að hugmyndafræði Safnasafnsins, að beina sjónum að þeim sem stofnanir og söfn hafa einhverra hluta vegna litið fram hjá eða ekki gert nógu hátt undir höfði,“ segir Unnar Örn. Sýningin stendur til 29. september.

Höf.: María Margrét Jóhannsdóttir