Heimkoma Guðjón Valur Sigurðsson verður mótherji FH-inga.
Heimkoma Guðjón Valur Sigurðsson verður mótherji FH-inga. — Ljósmynd/Gummersbach
Fjögur Íslendingalið eru á leið til landsins í vetur eftir að Valur tryggði sér sæti í riðlakeppni Evrópudeildar karla í handknattleik á laugardaginn. Valur og FH verða bæði í riðlakeppninni en FH fékk sæti þar sem Íslandsmeistari og…

Fjögur Íslendingalið eru á leið til landsins í vetur eftir að Valur tryggði sér sæti í riðlakeppni Evrópudeildar karla í handknattleik á laugardaginn.

Valur og FH verða bæði í riðlakeppninni en FH fékk sæti þar sem Íslandsmeistari og Evrópubikarmeistarar Vals komust áfram þrátt fyrir átta marka tap, 32:24, gegn Spacva Vinkovci í Króatíu. Valsmenn unnu fyrri leikinn með níu mörkum og sluppu því áfram.

Bjarni í Selvindi var markahæstur Valsmanna í Króatíu með 7 mörk og Björgvin Páll Gústavsson átti góðan leik í markinu í síðari hálfleik.

Melsungen og Porto

Melsungen frá Þýskalandi, Porto frá Portúgal og Vardar Skopje frá Norður-Makedóníu verða í riðli með Val. Elvar Örn Jónsson og Arnar Freyr Arnarsson leika með Melsungen og Þorsteinn Leó Gunnarsson með Porto.

Melsungen sló út Elverum frá Noregi á laugardag með útisigri, 36:31 og 64:54 samanlagt. Elvar skoraði þar eitt mark en Arnar ekkert.

Gummersbach frá Þýskalandi, Sävehof frá Svíþjóð og Toulouse frá Frakklandi verða í riðli með FH. Guðjón Valur Sigurðsson þjálfar Gummersbach og þeir Elliði Snær Viðarsson og Teitur Örn Einarsson leika með liðinu. Þá leikur Tryggvi Þórisson með Sävehof.

Gummersbach sló út Mors frá Danmörku í gær með heimasigri, 39:30, og 74:52 samanlagt. Teitur var markahæstur með sjö mörk og Elliði skoraði tvö.